Upphafið

Sagt var að þessi úlfur væri afkvæmi Loka Laufeyjarsonar sem var einn af Ásunum og tröllkonunar Angurboðu. Þau áttu fleiri ógurleg afkvæmi.

En byrjum á byrjuninni:

Í upphafi var ekkert. Engin jörð, ekkert haf, enginn himinn, aðeins eitt stórt gap,Ginnungagap. Síðan gerist það að ískalt verður á norðurhluta þess sem Niflheimur nefnist og sjóðheitt á suðurhlutanum sem Múspellsheimur nefnist. Þegar hitinn og kuldinn mætast, kviknar nýtt líf. Hrímþursinn Ýmir verður til og frá honum eru þursar, jötnar, dvergar og Æsir komin.

Á meðan Ýmir svaf svitnaði hann og undir vinstri hönd hans urðu til maður og kona og annar fótur hans eignaðist son með hinum. Frá þessu fólki er ætt hrímþursa komin.

Kýrin Auðhumla varð einnig til og úr spenum hennar runnu fjórar mjólkurár sem Ýmir nærist á. Sjálf sleikti Auðhumla salta steina. Fyrsta daginn sem hún sleikti kom mannshár úr steininum, annan daginn mannshöfuð og á þriðja degi varð risinn Búri til.

Búri átti soninn Bor sem giftist Bestlu og eru þau hjón foreldrar Óðins og bræðra hans þeirra Vilja og Vés. Frá þeim er ætt Ása komin.

Þeir bræður drápu hrímþursann Ými og bjuggu til heiminn úr honum. Úr hauskúpunni bjuggu þeir til himinn og á honum eru sólin og tunglið. Hauskúpunni var haldið uppi af fjórum dvergum þeim suðra, norðra, austra og vestra. Skýin voru búin til úr heila Ýmis og tréin úr hári hans. Úr holdi hans gerðu þeir jörðina, úr blóðinu hafið og vötnin. Björgin urðu til úr beinum hans og grjót og urðir úr tönnum, jöxlum og brotnum beinum Ýmis.

Himininn liggur yfir jörðinni og á henni miðri í Miðgarði býr fólkið. Mennina bjuggu Borssynir til út tveimur trjábolum sem þeir fundu á ströndinni, manninn nefndu þeir Ask og konuna Emblu og frá þeim er allt mannfólkið komið.

Í miðjum heiminum gerðu þeir borg sem nefnist Ásgarður og er hún bústaður goða.

Leiðin á milli himins til jarðar liggur um regnbogabrúna Bifröst, hennar gætir Heimdallur sem heyrir svo vel að hann heyrir grasið gróa.

Goðin hittast á hverjum degi hjá Aski Yggdrasils. Askurinn hefur þrjár rætur, ein rótin liggur í Ásgarði hjá goðum, önnur liggur í Jötunheimum og sú þriðja er í Niflheimi.

Undir hverrri rót er brunnur, Urðarbrunnur í Ásgarði, Mímisbrunnur í Jötunheimum og Hvergelmir í Niflheimi.