Verkefni á vordögum

Sól og tungl

Fuglar
Gróður
Skordýr

Fiskar

Fjaran
Villt spendýr
Húsdýr

Myndbandsgerð

Tilraunir með ræktun
Sól og tungl:

Í laginu Vor við Seyðisfjörð segir á einum stað: „Og sólargangur lengist dag frá degi” og á öðrum stað: „Um bjarta nótt er sólin sefur ekki”. Hvers vegna haldið þið að þetta gerist? Hvers vegna lengist sólargangurinn á vorin svo nóttin verður björt? Og hvað með tunglið, er það alltaf eins?

Verkefnið ykkar í dag er að finna upplýsingar um sólina og tunglið og setja myndir og texta upp á vegg til að sýna og segja frá á sýningunni síðasta daginn.

Þegar þið eruð búin að ákveða hvernig þið viljið leysa verkefnið, getið þið farið út í gönguferð, fundið ykkur góðan stað miðsvæðis og skoðað hvar sólin er núna. T.d. er hægt að teikna upp leið hennar yfir himininn að vori eða jafnvel að prófa að búa til sólúr. Þegar þið komið inn aftur er hægt að skoða þennan vef og fleiri (sjá Netið og vefmiðla) og bækur til að afla nánari upplýsinga áður en þið skilið verkefninu upp á vegg.

Efst á síðu

Fuglar:

Hvaða fugla þekkið þið? Nú eru allir farfuglarnir komnir, hverja þeirra hafið þið séð eða heyrt í nú í vor? Veit kannski einhver um hreiður?

Ykkar verkefni í dag er að finna upplýsingar um íslenska fugla og setja myndir og texta upp á vegg til að sýna og segja frá á sýningunni síðasta daginn.

Þegar þið eruð búin að ákveða hvernig þið viljið leysa verkefnið, skuluð þið fara út í gönguferð, bæði um bæinn og niður að sjó og athuga hvaða fugla þið sjáið. Það er gott að hafa fuglabók með til að fletta upp í ef þið eruð ekki viss og myndavél ef þið komist í gott færi við einhverja fugla. Þegar þið komið inn aftur er hægt að leita á Netinu (sjá Netið og vefmiðla) og skoða bækur til að afla nánari upplýsinga áður en þið skilið verkefninu upp á vegg.

Efst á síðu

Gróður:

Hvaða plöntur þekkið þið? Sumar plöntur teljast vera íslenskar, en aðrar koma hingað frá útlöndum. Hvernig haldið þið að hægt sé að þekkja muninn á þeim?

Verkefnið ykkar í dag er að finna upplýsingar um íslenskan gróður, eða flóru Íslands og setja myndir og texta upp á vegg til að sýna og segja frá á sýningunni síðasta daginn.

Þegar þið eruð búin að ákveða hvernig þið viljið leysa verkefnið, farið þið út í gönguferð, t.d. eftir merktum göngustíg og skoðið plönturnar sem þið sjáið. Það er t.d. hægt að taka með sýnishorn af þeim íslensku jurtum sem þið finnið. Þegar þið komið aftur inn er hægt að leita á Netinu (sjá Netið og vefmiðla) og skoða bækur til að afla nánari upplýsinga áður en þið skilið verkefninu upp á vegg.

Efst á síðu

Skordýr:

Hvaða skordýr þekkið þið? Vitið þið hvar íslensku skordýrin lifa helst? Á Íslandi eru ekki mörg skordýr miðað við heitari lönd, en samt ótrúlega mörg. Hvernig ætli þau lifi veturinn af?

Ykkar verkefni í dag er að finna upplýsingar um íslensk skordýr og setja myndir og texta upp á vegg til að sýna og segja frá á sýningunni síðasta daginn.

Þegar þið eruð búin að ákveða hvernig þið viljið leysa verkefnið, farið þið út í gönguferð, t.d. inn í skrúðgarð og athugið hvaða skordýr þið finnið. Það er best að taka sýni af jarðveginum og líka er hægt að búa til gildru til að veiða flugur og fleiri pöddur. Þegar þið komið inn aftur getið þið byrjað á því að skoða sýnin í víðsjá og svo er hægt að leita á Netinu (sjá Netið og vefmiðla) og skoða bækur til að afla nánari upplýsinga áður en þið skilið verkefninu upp á vegg.

Efst á síðu

Fiskar:

Hverjir í hópnum hafa veitt fisk? Hvar var það, kannski í ánni okkar? Hvaða fiska skyldu íslensku fiskiskipin helst veiða?

Verkefnið ykkar í dag er að finna upplýsingar um fiskana í sjónum og ánni og setja myndir og texta upp á vegg til að sýna og segja frá á sýningunni síðasta daginn.

Þegar þið eruð búin að ákveða hvernig þið viljið leysa verkefnið, farið þið út að veiða, annaðhvort í ánni eða á bryggjunni t.d. við bræðsluna. Ef ykkur tekst að veiða eitthvað, skuluð þið skrá hjá ykkur tegund og fjölda og jafnvel taka mynd. Þið getið líka komið við í fiskvinnslunni og athugað hvaða fiska þið finnið þar. Þegar þið komið inn aftur er hægt að leita á Netinu (sjá Netið og vefmiðla) og skoða bækur til að afla nánari upplýsinga áður en þið skilið verkefninu upp á vegg.

Efst á síðu

Fjaran:

Hvað er langt síðan þið fóruð í fjöruna síðast? Hvaða lífverur skyldi vera hægt að finna þar? Hvar ætli sé best að fara í fjöru hér nálægt?

Ykkar verkefni í dag er að fara í fjöruferð og finna upplýsingar um þær lífverur sem finnast þar, setja myndir og texta upp á vegg til að sýna og segja frá á sýningunni síðasta daginn.

Þegar þið eruð búin að ákveða hvernig þið viljið leysa verkefnið, farið þið gangandi eða hjólandi niður að góðri fjöru. Þar takið þið sýni af jarðveginum og þeim lífverum sem þið finnið. Þegar þið komið inn aftur getið þið byrjað á því að skoða sýnin í víðsjá og leitað svo á Netinu (sjá Netið og vefmiðla) og skoðað bækur til að afla nánari upplýsinga áður en þið skilið verkefninu upp á vegg.

Efst á síðu

Villt spendýr:

Vitið þið hvaða villt spendýr lifa á Íslandi? Hver þeirra er hægt að finna á þessu svæði? Athugið að sum lifa í sjó, hvaða spendýr eru það?

Verkefnið ykkar í dag er að finna upplýsingar um villt spendýr á Íslandi og setja myndir og texta upp á vegg til að sýna og segja frá á sýningunni síðasta daginn.

Þegar þið eruð búin að ákveða hvernig þið viljið leysa verkefnið, skuluð þið fara út í fjallgöngu og athuga hvort þið rekist nokkuð á mús, ref eða jafnvel hreindýr. Þið gætuð t.d. teiknað eða myndað umhverfi dýranna og ekki gleyma að hafa sjóinn með! Þegar þið komið inn aftur er hægt að leita á Netinu (sjá Netið og vefmiðla) og skoða bækur til að afla nánari upplýsinga áður en þið skilið verkefninu upp á vegg.

Efst á síðu

Húsdýr:

Hvaða húsdýr skyldi vera að finna hér í nágrenninu? Sum eru gæludýr en önnur búa í sveit, hvaða munur er á þeim? Hvernig ætli þetta hafi verið í gamla daga?

Ykkar verkefni í dag er að finna upplýsingar um íslensk húsdýr og setja myndir og texta upp á vegg til að sýna og segja frá á sýningunni síðasta daginn.

Þegar þið eruð búin að ákveða hvernig þið viljið leysa verkefnið, farið þið hjólandi eða keyrandi í heimsókn á sveitabæ. Þið kynnið ykkur hvaða húsdýr eru þar, skráið hjá ykkur og takið jafnvel myndir. Þegar þið komið aftur í skólann er hægt að leita á Netinu (sjá Netið og vefmiðla) og skoða bækur til að afla nánari upplýsinga áður en þið skilið verkefninu upp á vegg.

Efst á síðu

Myndbandsgerð:

Hvernig haldið þið að best sé að búa til myndband við lag? Þið vitið, eins og maður sér stundum í sjónvarpinu og á Netinu. Hvað ætli þurfi til þess að búa til myndband?

Allir hóparnir fá að spreyta sig á því að búa til myndband við eitt erindi í laginu Vor við Seyðisfjörð sem Vilhjálmur Ólafsson syngur á diskinum Seyðisfjörður 100 ára. Myndbandið á að sýna á sýningunni síðasta daginn.

Áður en þið farið út skuluð þið hlusta á lagið, ákveða hvernig þið ætlið að hafa myndbandið og hver á að gera hvað. Þið fáið til afnota stafræna myndbandsupptökuvél sem skólinn á. Síðan þarf að klippa myndbandið og skila því tilbúnu áður en þið farið heim um hádegið.

Efst á síðu

Tilraunir með ræktun:

Veistu hvernig plöntur hefja líf sitt og byrja að vaxa? Hvernig haldið þið að fræ viti hvað snýr upp og hvað niður? Hvað er mygla?!

Hver bekkur byrjar daginn í sinni stofu þar sem gerðar verða tilraunir með ræktun. T.d er hægt að nota bókina Skemmtilegar tilraunir: Ræktun eftir Neil Ardley. Útkoman verður sýnd á sýningunni síðasta daginn.

Efst á síðu


©2003 Bára Mjöll Jónsdóttir