Vefleiðangur um Dalasýslu - verkefni ætlað nemendum á miðstigi (10 - 12 ára)

Kynning:

Í Dölunum er að finna drjúgan hluta Íslandssögunnar. Við þekkjum öll nöfn eins og Leifur heppni og höfum heyrt nöfnin Melkorka, Ólafur Pái, Bolli, Kjartan og Guðrún. Hvaða fólk var þetta og hver er saga þess? Við höfum heyrt talað um Eiríksstaði, Krosshólaborg og Hvamm í Dölum. Hvaða staðir eru þetta og hvað gerðist þar? Í þessum vefleiðangri er ætlunin að þú kynnist helstu fornmönnum og söguslóðum í Dölunum.

 

Verkefni:

Verkefnið er samvinnuverkefni og er að stórum hluta unnið í tölvum. Markmið bekkjarins er að finna helstu sögustaði í Dölunum og safna upplýsingum um þá og fólkið sem tengist þeim. Kennarinn skiptir bekknum í hópa. Þú átt að starfa með krökkunum í þínum hópi og gera stutta samantekt um einn sögustað eða atburð í sögunni. Síðan átt þú að fjalla um eina sögupersónu úr Dölunum að eigin vali, en vinnur umfjöllunina innan hópsins. Hóparnir kynna verkefnin sín á bekkjarkvöldi með foreldrum.

 

Bjargir:

Skilyrði er að nota vefinn til upplýsingaöflunar en nemendur mega líka fara á bókasafn og leita að heimildum. Hér eru gefnar upp nokkrar gagnlegar vefsíður:

Á síðunni www.nat.is eru upplýsingar og myndir af ýmsum merkum stöðum í Dölunum, en slóðin vísar því miður ekki beint þangað. Leita þarf að síðunni áhugaverðir staðir.

Vesturlandsvefurinn: Hérna er safn upplýsinga sérsniðið fyrir Dalina

Síða Dalabyggðar: Þessi vefur hefur m.a. sérstaka síðu um Leif heppna

Um landafundi Leifs heppna: á þessari síðu eru aðgengilegar upplýsingar Leif og fleira fólk.

Laxdæluvefurinn er á vef Hörpu Hreinsdóttur kennara við FVA

Gagnasafn Mogunblaðins þar leynist ýmislegt

Vefur um Leif heppna á ensku

randburg.com síða með mörgum myndum en litlum texta

Laxdælasaga á netinu

 

Ferli:

Kennarinn skiptir bekknum í 4-5 manna hópa og þið veljið verkefni eftir áhuga í samráði við kennara. Mikilvægt er að skipuleggja samstarfið vel. Þið byrjið á að fara inn á þær síður sem gefnar eru upp til að afla upplýsinga. Þið þurfið að hafa ritvinnsluforrit opið til að geta unnið í því samhliða því sem þið skoðið síðurnar. Þið safnið upplýsingunum jafnóðum. Ef til vill viljið þið vista ljósmyndir af vefnum til notkunar í verkefnið. Gott er að safna sem mestu efni í byrjun því síðar er alltaf hægt að skera niður. Þegar hópurinn þinn hefur komið sér saman um efnistök skalt þú huga að þeirri persónu sem þú ætlar að fjalla um. Taktu saman allt sem þú kemst að um hana en restina verður þú að gera þér í hugarlund. Hvernig var að vera kona/karl/barn á þessum tíma? Settu þig í spor persónunnar. Umfjöllunin þín getur verið viðtal við persónuna, leikþáttur, frásögn, eða hvað eina sem þér dettur í hug. Þú átt síðan ásamt hópnum þínum að kynna verkefnið á bekkjarkvöldi með foreldrum. Kynningin má vera eins og þið viljið (stuttmynd, glærusýning, leikþáttur, veggspjöld, söngur, rapp, upplestur...o.sv.frv. ef efnisþáttum eru gerð góð skil).

 Mat:

Frammistaða þín verður metin þannig að einkunn kennara gildir 1/3 á móti sjálfsmati (1/3) og mati foreldra (1/3). Kennari fylgist með samstarfinu og metur afurðir. Þú fyllir út matsblöð um samstarf hópsins eftir að vinnu við verkefnið lýkur. Foreldrar meta kynninguna og frammistöðu hvers hóps fyrir sig. Samkvæmt skólanámskrá verður gefin einstaklingseinkunn, sem byggist á ofangreindu mati.


 


Niðurstaða:

Eftir að þessu verkefni lýkur átt þú að hafa fengið greinargóðar upplýsingar og kynningu á sögunni sem dylst í Dölunum. Það sem þú átt að hafa lært af þessu verkefni er m.a. að hafa þjálfast í að leita að ákveðnum upplýsingum á vefsíðum og þjálfast í að vinna í tveimur forritum í einu í tölvunni. Þú hefur þjálfast í hópvinnu og samstarfi og ennfremur því að koma fram og kynna verkefnið fyrir áhorfendur.

Langar þig ekki núna að byrja á Laxdælu?
©2002 Guðrún Vala Elísdóttir