xxx xxxxx


    Uppruni
   Til Íslands
   Þarfasti þjónninn


   Hestsævin
   Líkami
   Sjúkdómar
   Gangtegundir
   Hestalitir
   Hestanöfn


   Knapinn
   Reiðtygi
   Tamning
   Þjálfun
   Ferðalög
   Umhirða


   Upphafssíða

  
Um vefinn
   Bækur og vefir
   Vísur, sögur og fl.
   Verkefni

  © Herdís Brynjólfsd.
  © Björn Sigurðsson

  Síðast uppfært
   
15.06.2001

    Saga hestsins

Þarfasti þjónninn

 

Ungur maður með tvo til reiðar.Um aldir var hesturinn þarfasti þjónninn en með tilkomu bílsins og véla um miðja 20. öldina, breyttist hlutverk hans.  Hesturinn losnaði undan því erfiða hlutverki að vera vinnudýr og varð þess í stað tómstundagaman.  Skipulögð hrossarækt efldist í kjölfarð og meiri áhersla var lögð á ganghæfileika og byggingu hesta en áður. Hestamannafélög spruttu upp og farið var að halda hestamannamót.  Í dag skapar hesturinn mörgum atvinnu og tekjur, m.a. þeim sem flytja út hesta.

Hesturinn sem vinnu- og samgöngutæki
Hesturinn hefur oft verið nefndur þarfasti þjónninn og bar hann það svo sannarlega með réttu þar til bíllinn kom til sögunnar.  Án hestsins hefði Ísland eflaust verið óbyggilegt.

Tveim hestum beitt fyrir sláttuvél.Ísland er erfitt yfirferðar og íslendingar urðu að treysta á hestinn. Íslenski hesturinn hefur frá upphafi byggðar lifað í nánu sambandi við þjóðina og verið ómissandi í samgöngu og atvinnumálum. Varla var til það verk sem maður og hestur fylgdust ekki að s.s. bera hey af túni og engi, reka fé af fjalli að vori og smala að hausti, draga trjávið til bygginga, fisk úr verstöðum, hitta nágranna á bæjum, ríða til hofs eða kirkju.  Öll landbúnaðarstörf voru unnin með hestum og fyrsta upplifun margra var að fá að sitja dráttarhestinn.

Landið var torvelt yfirferðar og oft var ferðin löng frá einum stað til annars. Ferðir þvert og endilangt á hestbaki eru alkunnar framan úr fornöld til okkar daga. Allur flutningur fór fram á hestum s.s. heyflutningur, skreiðflutningur, trjádráttur, búferlaflutningur, hvalflutningar og svona mætti lengi áfram telja. Þessar ferðir voru oft farnar í lestum.

Riðið yfir djúpar ár.Mánaðarmótin júní- júlí var tími helstu lestarferða.  Þá komu lestirnar úr sveitunum til að sækja vertíðaraflann til verstöðvanna. Oftast var hnýtt upp á hvern klyfjahest og þeir síðan bundnir í taglið hvern á eftir öðrum og aðeins sá fremsti teymdur. Þessar ferðir tóku oft margar vikur og jafnvel mánuði og til að sem greiðlegast gengi voru hestarnir oft mjög margir.  Ekkert af þessu var framkvæmanlegt án þarfasta þjónsins.

Hjólið kom síðar til Íslands en nokkurs annars Evrópulands. Það var einkum vegna þess hve landið var slæmt yfirferðar og hestarnir góðir. Fyrsti hestvagninn kom ekki til Íslands fyrr en 1880 eða rúmlega tuttugu árum áður en fyrsti bíllinn. Hestvögnum fjölgaði svo eitthvað en urðu aldrei vinsælir einkum vegna þess að nær einungis var hægt að aka þeim í kaupstöðum eða þar sem vegir voru.

Þrjár konur á leið í reiðtúr.Bílar og vélar fara að koma hingað til lands í kringum 1950 og leysa hestinn smám saman af hólmi í samgöngu og atvinnumálum. Þá þótti skyndilega fínt að eiga bíl þó vissara gæti verið að hafa með sér hesta til þess að draga hann upp úr ám og vötnum.  Í bæjum tók bíllinn við af vagnhestinum, póstvagnarnir hurfu, síðan komu langferðarbílar og loks traktorar.  Eftir það fór hlutverk hestsins að breytast, frá því erfiða hlutverki sem hann mátti oft þola frá upphafi tilveru sinnar í landinu, til leiks og tómstundargamans fyrir almenning.

Hestar heima á hlaði.Hesturinn var þó ekki bara vinnudýr heldur líka félagi og vinur sem oft var ort lof í ljóði, sagðar af frægðarsögur, og söngvar í taktslætti hófaglammsins.  Góður hestur var líka stöðutákn, mannvirðing bónda var hesturinn, bær og bústofn. Gæðingurinn var notaður til skemmtunar, útreiða eða til kirkjuferðar þar sem menn sýndu sig og sáu aðra.

Tveir drengir í reiðtúr.Áður fyrr var það draumur flestra barna að eignast góðan hest og reiðtygi. Draumurinn rættist oft fyrr hjá strákunum því þeir fengu hærri laun greidd fyrir útivinnu sína en stúlkur fyrir innistörfin.  Ef börn komu af ríkum fjölskyldum fengu þau stundum hesta gefins og þá jafnt strákar sem stelpur.

 

Breytt hlutverk hestsins
Mynd frá hestamannamóti.  Mynd:Sólveig.Félög hestamanna voru stofnuð og hestamannamót haldin.  Farið var að stunda markvissari kynbætur, m.a. með meira tilliti til ganghæfileika og byggingu hrossa en áður var.  Til eru þó eldri dæmi um eflingu í hrossarækt sem dæmi má nefna greinagerð frá Skagafirði 1879, en þar segir m.a.:  "Skal við slíkt taka til greina lipurð, ganglag, fjör, hörku, þol, krafta, holdafar, stærð, vaxtarlag, fríðleik, háralag, hárprýði og hófagerð".
Á þessu sést að menn voru farnir að huga að ganghæfni en af eldri heimildum virðist sem lítið hafi verið lagt upp úr því heldur aðallega vilja og fegurð.

Í dag eru mörg ræktunarbú á landinu.  Eitt af markmiðum ræktunarinnar er að efla og viðhalda sérkennum íslenska hestsins.

Útflutningur á hestum
Íslenski hesturinn hefur einnig notið mikilla vinsælda erlendis og eru árlega fluttir tugir hesta út. Erlendir hestamenn eru einnig farnir að rækta íslenska hesta þannig að margir íslenskir hestar hafa aldrei komið til Íslands.

Á söguöld voru fluttir út vígahestar og einhverjir voru gefnir höfðingjum (kónginum).
Á 19. öld var útflutningur á vinnuhestum, en síðar á reiðhestum.  Á heimstyrjaldar árunum var nánast enginn útflutningur á hestum en síðan eftir 1960 hefur mikið verið flutt út.  Mikið hefur verið selt til Þýskalands, nokkuð Norðurlandanna og fleiri landa.  Nýjasti markaðurinn fyrir íslenska hesta er í Norður-Ameríku.

Á Íslandi er talið að séu um 80.000 hross (2000) og eru þau einkum notuð sem reiðhross. Hestamennska er vinsæl íþrótt á Íslandi og fjölgar þeim stöðugt sem taka hana upp sem áhugamál.  Flestir hestaunnendur vilja bæta og efla íslenska hestinn, eiga hann að vini um leið og njóta kosta hans hvort heldur er í sveit eða bæ.  Magir bændur eiga hesta og sumir afla sér talsverðra tekna með hrossarækt, þjálfun reiðhesta. eða hestaleigu.


  UpprunixxTil ÍslandsxxÞarfasti þjónninn