xxx xxxxx


    Uppruni
   Til Íslands
   Þarfasti þjónninn


   Hestsævin
   Líkami
   Sjúkdómar
   Gangtegundir
   Hestalitir
   Hestanöfn


   Knapinn
   Reiðtygi
   Tamning
   Þjálfun
   Ferðalög
   Umhirða


   Upphafssíða

  
Um vefinn
   Bækur og vefir
   Vísur, sögur og fl.
   Verkefni

  © Herdís Brynjólfsd.
  © Björn Sigurðsson

  Síðast uppfært
   
15.06.2001

     Hestamennska
   Knapinn
 

Mikilvægt er að knapinn hafi áhuga og gaman af samskiptum sínum við hestinn, þyki vænt um hann og umgangist hann sem jafningja og vin. Hér verður fjallað um reiðfatnað, að fara á bak, æfingar fyrir knapa og hest, þar af er ein fyrir óvana.  Einnig er fjallað er um ásetu og taumhald og nám í hestamennsku.  Í lokinn eru taldir upp nokkrir mikilvægir þættir varðandi reiðmennsku.  

Fatnaður
Reiðhjálmur. Mynd: Herdís Br.Best er að vera í liprum buxum (reiðbuxum), þegar farið er á hestbak, forðast ber gallabuxur og fráflaksandi, skrjáfandi fatnað sem fælt getur hestinn.  Mælt er með þunnum fingravetlingum.  Mikið úrval er til af reiðfatnaði og alltaf eru einhverjar tískusveiflur í gangi.  Allir ættu að gera það að skyldu sinni að nota reiðhjálm.

Farið á og af baki
Fyrst er tauminn dreginn yfir höfuð hestsins.  Hesturinn á að standa kjurr.  Þegar farið er á bak er haldið við tauminn og staðið þétt við hestinn.  Því næst er farið með annan fótinn í ístaðið en spyrnt með hinum frá jörðinni.  Líkamsþunginn er færður yfir hestinn og farið með lausa fótinn afturfyrir og í hitt ístaðið.  

Þegar komið er í hnakkinn, þarf að huga að ásetu og taumhaldi.  Rétt áseta er þegar lóðrétt lína myndast frá öxlum að mjöðm og hæl.  

Þegar farið er af baki, eru báðir fætur losaðir (til öryggis) áður en farið er af. Taumnum er ekki sleppt en hann dreginn fram af þegar knapi hefur stigið af.

Áseta og taumhald
Mikilvægt er að sitja hestinn rétt, góð ásteta og taumhald skiptir miklu máli.

Stöðugt átak gerir hestinn tilfinningalausan í munninum.  Það er mjög slæmt ef knapinn þjösnast og togar til að fá hestinn til að hlýða taumtaki.  Stjórnið því hestinum með NÆMNI og TILFINNINGU, EKKI MEÐ KRAFTI.  Það á hvorki að hanga eða kippa í taumana.  Halda skal jöfnu taumsambandi og leitast við að hafa beina línu frá olnboga í munn hestsins.  Gott jafnvægi knapa er forsenda fyrir góðu taumhaldi.

Það er góður vani að halda utan um mélin áður en beislað er.  Hafið þið sett upp í ykkur ískalda skeið?

Í reiðtúr.  Mynd: Herdís Br.Það fyrsta sem hestamenn taka eftir þegar þeir sjá annan hestamann á ferð, er hvernig hesturinn fer undir knapanum.  Þar næst er litið á knapann og hvernig hann situr hestinn.  Áseta og taumhald kemur samt við sögu í báðum tilvikum. Það hvernig hesturinn fer undir er oft mikið undir því komið hvernig knapinn mótar hestinn og hreyfingar hans með ásetu og taumhaldi.

Áseta skiptir alltaf miklu máli.  Segja má að mestu varði að sitja þannig á hestinum að þægilegt sé fyrir hann og knapann og um leið skapist sem fegurst heildarmynd af manni og hesti.  Sú mynd kallast "fegurð í reið" þegar kostir hesta eru dæmdir.

Knapinn situr hest sinn í þeirri stöðu að axlir, olnbogi og hæll mynda því sem næst lóðrétta línu.  Hann snýr höfði beint fram eða í þá átt sem hann beinir hesti sínum. Fætur liggja þétt en óspenntir niður með síðu hestsins og knapinn rétt tyllir tábergi í ístöðin, snýr tánum sem beinast fram en hællinn gengur niður fyrir ístaðsbrún. Þegar knapinn tekur fætur úr ístöðum og lætur þá "hanga " slaka niður, þá er mátulegt að neðri brún ístaða komi á miðja rist.  Knapinn situr djúpt í hnakknum með rassvöðva nógu slaka til þess að setbeinin þrýstist niður í hnakkinn.  Jafnvægi og stöðugleika í hnakknum fá menn með því að:
a. Sitja djúpt í hnakknum
b. Láta fætur síga niður með síðum hestsins og mynda kjölfestu
c. Þrýsta innanverðum lærum að síðum hestsins, en fótum neðan hnjáliðum er haldið slökum niður.

Með sömu mjaðmahreyfingu og menn nota er þeir "ýta" sér áfram í rólu, fylgir knapinn hreyfingum hestsins eftir, þannig að hann lyftist aldrei úr hnakknum. Auðvelt er að glöggva sig á þessari mjaðmahreyfingu með því að ríða hesti á rösku feti og fylgja hreyfingum hans vel eftir með mjöðmunum.

Helstu vandamál við ásetu eru m.a. að:

  • Knapar hafa alltof stutt í ístöðum og "spyrna í".  Knapinn hættir að sitja hest sinn og er nánast farinn að sitja ofan á honum.  Þar með er þyngdarpunktur knapans komin alltof ofarlega og hann verður valtur á hestinum ef eitthvað ber út af.
  • Knapinn er stífur í mjöðmum og baki og fylgir ekki eftir hreyfingum hestsins, og heggur í hnakkinn í hverju spori.
  • Knapinn "heldur utan um" hestinn með fótunum í stað þess að láta fætur síga slaka niður með síðum hestsins.

Þegar farið er í reiðtúr þarf að gæta að ýmsu:

  • sitja rétt (axlir, bak, fætur og rétt taumhald),
  • hvetja hest af stað (með mjöðm, rödd, fæti og/eða písk),
  • stöðva (stytta í taumhönd, setjast djúpt í hnakkinn og taka í báða tauma jafnt þar til hesturinn stoppar, athuga einnig að nota röddina),
  • beygja (stytta í taumhönd, taka í þeim megin sem hesturinn á að beygja og slaka hinumegin, leggja fót að/hvetja þeim megin sem hesturinn beygir að).

Nauðsynlegt er að hafa hestlengd á milli hestanna, svo sá sem er fyrir aftan stigi ekki á þann næsta.

Svipa og pískur. Mynd: Herdís Br.Knapar skulu ávallt temja sér tillitsemi og kurteisi.  Ef farin er ný leið er vissara að hafa kunnuga með, því ekki er leyfilegt að ríða hvar sem er.

Margir nota písk sem hjálpartæki í útreiðartúr eða við tamningar. Mikilvægt er að hesturinn sé ekki hræddur við pískinn.  Áður fyrr notuðu menn svipu.

Æfing fyrir óvana knapa
Þessi æfing er góð fyrir t.d. krakka, til þess að öðlast betra jafnvægi á hesti.  Nauðsynlegt er að hafa þægan hest, með ístöðulausum hnakki.  Fullorðinn heldur í langan taum og hringteymir hestinn.

Farið er á bak hestinum.  Fyrst er farið hægt en síðan ferðin aukin eftir getu knapans.  Hendurnar eru rétta út, fyrst önnur í einu en síðan báðar.  Ef knapinn treystir sér til getur hann tyllt fingrum á hjálminn.

Einnig er nauðsynlegt að óvanir knapar læri að teyma hesta.  Gengið er til hliðar við hestinn.  Gott er að halda með báðum hödum um tauminn og hann ekki látinn lafa, því þá er hætta á að hesturinn stígi í hann og slasi sig.  Knapinn á að vera ákveðinn og óhræddur við hestinn.

Æfing í að ríða í beyjur og hring
Þegar riðin er beygja eða hringur fylgir knapinn sama halla og hesturinn inn í beygjuna, stytt er í taumhöndinni innra megin og innra fóti þrýst að síðu hestsins. Hesturinn á að ganga í beygju eða hring en ekki snúast eða flækjast um sjálfan sig.  Til að æfa beygjuæfingar er gott að raða u.þ.b. fimm keilum (eða öðru) með jöfnu millibili og láta knapa beygja á milli þeirra á víxl.  Knapinn á að stjórna hestunum en ekki öfugt.  Önnur beygjuæfing er einnig góð og er hún gerð þegar nokkrir knapar ríða á feti inn á velli með hestbil á milli sín. Þegar leiðbeinandi gefur merki eiga knapar að beygja hestunum og láta þá feta í heilan hring.
Leiðbeinendur segja knöpum til; s.s. hvenær gott er að stytta í taumhönd, þrýsta fæti að síðu hestsins, hvetja o.s.frv.

Engir tveir hestar eru eins, t.d. eru sumir taumléttir aðrir ónæmir fyrir hvatningu, og knapi verður að átta sig á hvað hentar hverjum hesti.  Mikilvægt er að hestum sé stjórnað mjúklega en ákveðið og að skipt sé reglulega um hring svo hestarnir þreytist síður.

 

Nám í hestamennsku
Hestamennska og hrossarækt er vaxandi atvinnugrein á Íslandi.  Nú er m.a. hægt að læra reiðmennsku í Hólaskóla og einnig í Landbúnaðar-háskólanum á Hvanneyri. Nýjasti reiðskólinn er Íslenski reiðskólinn á Ingólfshvoli.  Auk þess er fjöldinn allur af reiðkennurum um allt land að leiðbeina fólki.  Sjá vefinn: Kennsla / námskeið.

Frá ræktunarbúinu Vestri Leirárgörðum. Mynd: Dóra.Félaga tamningamanna er öflugt félag reiðkennara, en í félagið er hægt að ganga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og tamningamannaprófi.

Á vegum Bændasamtaka Íslands, Félags Horssabænda, Landssam-bands hestamannafélaga (LH) og Félags tamningamanna er verið að vinna að átaksverkefni í hestamenn-sku.  Átaksverkefnið er um gæðastefnu í ræktun, tamningu, þjálfun, sölu, kynningu og notkun íslenska hestsins.

Hafið hugfast!
1. Rétt taumhald og áseta auðvelda ykkur að ná góðu sambandi við hestinn ykkar, og þar með að móta gang hans og hreyfingar.

2. Munið að "leika við" hestinn með taumum, en hvorki að rykkja í tauma né hanga í þeim. Munnur hestsins er viðkvæmur. Takið tillit til þess.

3. Þegar þið ríðið út, æfið ykkur þá í því að sitja djúpt í hnakknum, án þess að hossast, á brokki og stökki. Passið upp á að hendur sláist ekki til, né taumur.

4. Gerið stöðugar tilraunir með stjórnun hestsins og fáið þannig glögga mynd af því hvernig hesturinn bregst við mismunandi ábendingum ykkar.

5. Breytið taumhaldi, aukið hraðann, hægið niður, losið um taumhaldið, styðjið fastar við tauminn, þrýstið kálfum að síðum hestsins, ríðið undan brekku, í ójöfnu landslagi, fylgist alltaf með hestinum og finnið hvernig hann breytist.

6. Munið að það eruð þið sem eigið að ráða ferðinni, þið eigið að stjórna hestinum - af mildi en festu.

7. Síðast en ekki síst - minnumst þess að við erum að fást við lifandi dýr, sem treysta á umsjón okkar og umhyggju. Bregðumst ekki trausti þeirra.


 KnapinnxxReiðtygi xTamningxxÞjálfunxxFerðalög xUmhirða