xxx xxxxx


    Uppruni
   Til Íslands
   Þarfasti þjónninn


   Hestsævin
   Líkami
   Sjúkdómar
   Gangtegundir
   Hestalitir
   Hestanöfn


   Knapinn
   Reiðtygi
   Tamning
   Þjálfun
   Ferðalög
   Umhirða


   Upphafssíða

  
Um vefinn
   Bækur og vefir
   Vísur, sögur og fl.
   Verkefni

  © Herdís Brynjólfsd.
  © Björn Sigurðsson

  Síðast uppfært
   
15.06.2001

    Upplýsingar
    Vísur, sögur, myndir og fleira
 

Á þessari síðu er að finna hestavísur, sögur af hestum og myndir.  Fyrst er þó bæn hestsins sem hestamenn ættu að lesa yfir.

Bæn hestsins
 • Gefðu mér að éta og drekka og gættu mín að loknu dagsverki
 • Veittu mér húsaskjól, hreinan og nægjanlega stóran bás í hesthúsinu.
 • Sýndu mér ástúð, talaðu við mig. Rödd þín og orð auðvelda mér að skilja taumhaldið. Nærgætni þína launa ég með vinnugleði og væntumþykju.
 • Rykktu ekki í taumana þegar á brattan sækir.
 • Beittu ekki svipunni þegar ég misskil þig, gefðu mér heldur tíma til að átta mig.
 • Ályktaðu ekki að ég sé latur eða óhlýðinn, ef ég uppfylli ekki óskir þínar strax. Ef til vill eru hófar mínir aumir eða reiðtygin fara ekki eins og skyldi.
 • Athugaðu tennur mínar, þegar ég veigra mér við að þiggja gómsæta tuggu, ef til vill meiðir einhver þeirra, þú veist hversu sárt það getur verið.
 • Hafðu ekki of stutt í múlnum og stífðu tagl mitt ekki stutt, þú veist það er mín eina vörn gegn flugum.
 • Og þegar að lokaáfanga dregur, kæri húsbóndi og ég get ekki þjónað þér lengur, láttu mig ekki líða hungur né kulda. Seldu mig ekki til framandi húsbónda sem lætur mig ef til vill líða hægfara hungurdauða.
 • Ó, vertu mér miskunnsamur, veit mér heldur sársaukalausan og snöggan dauða.
 • Heyr bæn mína og uppfylltu óskir mínar til hinstu stundar. Guð mun launa þér á efsta degi.

Amen

Úr gömlu ensku hesthúsi

Mynd eftir Daða 9 ára.Myndir
Það er gaman að teikna myndir af hestum en fyrir flesta er það ekki sérlega auðvelt.  Með því að skoða hesta og æfa sig að teikna þá, er hægt að ná góðum árangri.  Hér til hliðar er mynd eftir 9 ára strák.

Áður fyrr létu konungar og aðrir fyrirmenn gjarnan mála myndir af sér á hestum sínum.

Á vef Listasafns Íslands má sjá mynd af hestum eftir Jón Stefánsson.

Vísur
Til eru margar vísur um hesta.  Hér eru nokkur sýnishorn.

Litla Jörp með lipran fót,
labbar götu þvera.
Hún mun seinna' á manna mót,
mig í söðli bera.

Rauður minn er sterkur stór,
stinnur mjög til ferðalags,
suð'r á land hann feitur fór,
fallegur á tagl og fax.

Litli Skjóni leikur sér,
lipurt hefur fótatak,
pabbi góður gaf hann mér,
gaman er að skreppa' á bak.

Farðu hægt við folann minn,
fáum hann reynist þægur.
Hann er eins og heimurinn,
hrekkjóttur og slægur.

Vísuna um Skjóna er að finna á Netinu, kvæðið um Ólaf Liljurós, auk þess má finna hestavísur eftir ýmsa höfunda.

Sögur
Til eru margar sögur af hestum, tryggð þeirra, þoli og ratvísi.  Hér er að finna tvær.

RATVÍSI
Sveinn Pálsson var læknir um síðustu aldamót og eitt sinn um vetur þegar hann var á ferð austur fyrir fjall dettur hann af baki og missir meðvitund. Þegar hann rankar við sér stóð hesturinn yfir honum og var að ýta í hann eins og til að vekja hann. Sveinn ætlaði þá að standa á fætur en gat það ekki því fæturnir voru dofnir af kulda. Þegar hesturinn sá það, lagðist hann niður svo að Sveinn gat brölt á bak. Það var hríðarbilur og læknirinn vissi ekkert hvar hann var og lét hestinn ráða. Fór hesturinn svo hratt að Sveinn þurftir að hafa sig allan við til að halda sér á baki, og létti ekki ferðinni fyrr en hann kom á hlað á einhverjum bæ þar sem hann fékk hjálp. Sveinn þakkaði hestinum fyrir að bjarga lífi sínu og kvaðst seint mundi heyra þær sögur af viti hesta, sem hann ekki tryði.

SUNDREIÐ
Hér áður fyrr voru engar eða fáar brýr og þurftu hestar oft að vaða og synda mikið klyfjaðir yfir straumharðar ár sem reyndi mikið á krafta þeirra.  Þeir sem bjuggu við miklar ár þurftu að eiga góða vatnahesta en svo voru þeir hestar kallaðir sem fóru öryggir yfir árnar.

Kona sem átti heima við staumharðar ár í Skaftafelli segir svo frá: "Vatnahestarnir voru dásamlegar skepnur. Þeir stóðu fótvissir og öruggir þótt mórautt straumvatnið væri á síður, jafnvel á herðatopp. Þeir óðu ótrauðir á meðan þeir náðu botni, en gripu þá sundtökin þegar enn dýpkaði. Þessir vatnahestar voru kannski ekki miklir vatnahestar í fyrsta sinn en vöndust því að beita sér og urðu svo smám saman öryggir og traustir, en einstaka hestar þóttu bera af í þessu efni, voru afrekshestar."

Ferðir yfir stór vötn og miklar ár tóku kannski upp undir 2 klukkustundir og áttu knaparnir líf sitt undir því að hesturinn náði landi. Sérstakar eru frásagnir af mönnum sem sundriðu út í sjó til að ná í einhvern varning í skip eða yfir heilu vötnin. Til að sundið væri léttara fyrir hestinn fóru menn stundum af baki, héldu í ístaðsólina og létu hestinn þannig flytja sig til lands.

Hér má lesa sögu um Fölskva, eftir Þorgils gjallanda.


xxUpphafssíða   Um vefinnxxBækur og vefirxxVísur og fl.xxVerkefni