Kennsluforrit


Inngangur | Netið aðgengilegt | Forrit | Heimildir

 

Inngangur.

Þetta verkefni er unnið á námskeiðinu Margmiðlun og hugbúnaður við framhalsdeild Kennaraháskóla Íslands, undir stjórn Sólrúnar B. Kristinsdóttur, sumarið 2001.
Ég fjalla um tölvuforrit, með það að leiðarljósi að auka eigin tölvufærni og halda áfram með þá vinnu sem ég hef verið að tileinka mér í þessu námi.
Verkefninu skila ég á vef, til að viðhalda og auka þekkinguna í vefsíðugerð.

Á webboard hef ég tekið þátt í umræðum.
Hef einkum fjallað um miðla í kennslu og áhrif á börn, einkum m.t.t. áhrifa af ofbeldis-leikjum /myndum.
Það sem einkum hefur fangað huga minn eru samskipti barna við tölvur / Net og hver áhrifin eru af miðlamenningunni. Athygli vekur hve áhrif foreldra eru mikilvæg. Afskipti foreldra, eftirlit og staðsetning tölvunnar á heimilinu, getur skipt sköpum, en talað er um að kynferðisleg áreitni í garð barna á Netinu sé vaxandi vandamál.
Áhrif tölvuleikja og mynda, jafnvel lífið sjálft hefur vafalaust misjöfn áhrif á börn og unglinga, sem ræðst af persónuleika, uppeldisskilyrðum og ýmsum öðrum þáttum viðkomandi.
Samt sem áður vekur það athygli hve foreldrar virðast sofa á verðinum og fylgjast lítið með því hvaða efni ber fyrir augu barnanna.
Þannig leiddi könnun National Institute on Media and the Family í ljós að aðeins um 2% barna og unglinga sem spurð voru sögðu að foreldrar þeirra könnuðu reglulega hvaða tölvuleiki þau ættu. Það sem meira er 18% drengjanna viðurkenndu að foreldrar þeirra yrðu æfir ef þeir vissu allt um leikina sem þeir ættu.
(Sbr. http://www.taeknival.is/default.asp?nota=293&typa=frett).

Aðalnámskrá grunnskóla gerir ráð fyrir að Netið verði notað í kennslu í auknum mæli, enda eru tölvur og tækni partur af lífinu í dag.
Tölvur eru ekki einungis tæki til að afla þekkingar og færni á ýmsum sviðum, heldur einnig til mótunar og sköpunar.
Mikilvægt er að skólar móti ákveðna stefnu um notkun tölva og Netsins í skólanámskrá sinni í samræmi við Aðalnámskrá.

Í Aðalnámskrá grunnskóla, bls. 8-9, segir:
„Nauðsynlegt er að nemendur temji sér að vera virkir gerendur í umhverfi sínu og að þeir temji sér það viðhorf að símenntun sé ævilöng í samfélagi sem einkennist af stöðugir framsetningu nýrrar þekkingar og tækni. Mikilvægt er að gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali".

Möguleikar tölvunnar til að auka fjölbreytni í námi er einn af kostunum í nútíma skólastarfi.
Enginn efast lengur um mikilvægi þess að auka fjölbreytni í námi, ekki síst fyrir nemendur með námsörðugleika.
„Tæknin er orðin svo ráðandi afl í heimsmynd vestrænna samfélaga að mörgum er nánast ógjörningur að hugsa tilveruna án hennar.
Skóli er samfélag og sem slíkt verður hann að þróast samhliða því heildarsamfélagi sem hann er lifandi hluti af, samfélagi sem í síauknum mæli reiðir sig á mátt tölvutækninnar. Án gagnvirkni og samspils er hætta á því að skólasamfélagið einangrist og glati þannig allt í senn mikilvægi sínu, áhrifamætti og tilgangi".

(Sbr. Sigurður Fjalar Jónsson. 2000. Tölvur í sérkennslu. Námsgagnastofnun. Reykjavík, bls 5).

Markviss þróunaráætlun tæknimenntar í skólum virkar þó ekki nema áhersla sé lögð á símenntun kennara og annars starfsfólks. Nauðsynlegt er að fylgjast vel með þróun hug- og vélbúnaðar því þar gerast hlutirnir hratt. Ómetanleg er tækniþekking innan skólans.


 

Netið aðgengilegt fyrir alla.

Nú vinna vísindamenn að því að setja saman forritakerfi sem ætlað er að þýða sjálfvirkt öll tungumál veraldar. Þar með verður öllu mannkyni gert kleift að fá allt efni á Netinu sett fram á sínu eigin móðurmáli í nákvæmlega réttri þýðingu.
..........Sbr. greinina: Nú á alnetið að tala öll tungumál veraldar, í tímaritinu Lifandi vísindi, 00/6/36, standa Japanir með aðstoð Sameinuðu þjóðanna, fyrir hönnun á nýju tölvumáli sem ber heitið UNL og stendur fyrir "Universal Networking Language".
Ef allt gengur að óskum á þetta nýja kerfi að koma á markað á Netinu á næsta ári, tilbúið með helstu tungumál sem töluð eru innan Evrópusambandsins og árið 2006 er áætlað að 185 tungumál aðildarþjóða Sameinuðu þjóðanna verði tilbúin.
Mun þessi tækni heldur betur auðvelda notkunina á Netinu og efla nýtingu þess, ekki síst fyrir skólana.

Guðbjörg Sigurðardóttir formaður verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið, sagði nýlega á ráðstefnu um konur og upplýsingasamfélagið að samfélagið breyttist stöðugt vegna þeirra framfara sem eiga sér stað á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni. Tæknin hefur alls staðar áhrif, bæði í vinnunni og í frítímanum.
Guðbjörg bendir á að við horfum fram á nýja tíma, þar sem ískápurinn sér um að panta inn þegar minnkar í honum, bílar rati um götur stórborgirnar og síminn þýði fyrir okkur milli tungumála um leið og talað er.
(Sbr. http://www.taeknival.is/default.asp?nota=180&typa=frett)
Guðbjörg bendir jafnframt á þann vanda að konur væru sennilega einungis um 20% þeirra sem móta upplýsingasamfélagið, þannig að karlar eru þá um 80%.
Hún segir þetta vera alheimsvandamál, en ekki bara íslenskt.

Þá komum við að því að athuga stöðuna í skólanum:
Hafa stelpur og strákar jafnan aðgang að tölvum?
Við vitum að tölvuleikir sem gjarnan eru spennuleikir eða íþróttaleikir, höfða frekar til stráka.
Koma strákarnir í skólann með meiri færni og ná þeir að ýta stelpunum til hliðar?
Upplifa stelpurnar minnimáttarkennd gagnvart strákunum?
Ná kennararnir að hvetja stelpurnar nægjanlega til dáða í tölvuheiminum?
Hvernig vinna kennsluforritin?

Það er að mörgu að hyggja þegar ætlunin er að hagnýta tölvutæknina á árangursríkan hátt í skólanum. Tölvan býður upp á fjölbreytta nálgun viðfangsefna sem lífgar upp á kennsluna og gerir hana áhugaverðari.


Kennsluforrit
Löngu er viðurkennt að tölvur í skólastarfi er eitt af þeim kennslutækjum sem þykja sjálfsögð við kennsluna.
Tölvan býður upp á óteljandi möguleika sem kennslutæki og ber okkur að nýta þá vel.

Mikill fjöldi kennsluforrita er til og eykst stöðugt. Námsgagnastofnun hefur gefið út skrá þar sem kennsluforrit eru flokkuð eftir vélbúnaði, skólastigi og námsgreinum.
Mun ég hér á eftir gera grein fyrir nokkrum kennsluforritum.

 

Matsblað fyrir kennsluforrit.

Nafn forrits: Reiknibíllinn. Eftir Richard Scarry

Framleiðandi: Námsgagnastofnun. 2000.

Forritið er: x Þjálfunarforrit x Þrautalausn
  ...Leiðsagnarforrit x Kennsluleikur
  ...Hermiforrit  

1. Fyrir hvaða aldurshóp er forritið sniðið?
Efnið er einkum ætlað börnum á aldrinum 6 - 10 ára.

2. Fyrir kennslu í hvaða námsgrein hentar forritið?
Í tölvuleiknum Reiknibílnum eru margvísleg viðfangsefni í formi leikja sem miða að því að börn öðlist skilning á grundvallaratriðum í stærðfræði.

3. Hvert er markmið framleiðandans með þessu forriti?
Börnin fara í ævintýraferð um Erilborg með Kela kettlingi og Ormari einfætta og sýna hvað þau kunna fyrir sér í stærðfræði. Ormar og Keli hjálpa börnunum að öðlast sjálafstraust og glæða áhuga þeirra á stærðfræði. Efnið er líflegt og skemmtilegt og öll fyrirmæli eru lesin upp. Viðfangsefnin eru fjölbreytt svo sem talning, samlagning, frádráttur, mynsturgerð, mælingar, einföld brot og línurit.

4. Finnst þér þessi markmið nást með notkun forritsins?
Forritið er með námsefnisflokknum Einingu, sem ætlaður er yngsta stigi grunnskóla.
Auðvelt er að ná þessum markmiðum. Börnin geta valið sér leiki við hæfi. Þyki þeim spurning of erfið geta þau smellt á NÆSTA þar til þau finna það sem þau ráða betur við.

5. Hvernig eru leiðbeiningar sem fylgja í forritinu?
Forritinu fylgja góðar upplýsingar um tæknilegar kröfur, auk þess fylgja leiðbeiningar um uppsetningu í handbók.

6. Hvernig eru leiðbeiningar sem fylgja í handbók?
Forritinu fylgir góður upplýsingabæklingur.
Þar eru upplýsingar til leiðbeinenda, leiðbeiningar um uppsetningu og hvernig eigi að byrja að skrá sig í leikinn. Síðan er ferli leiksins og möguleikum lýst mjög greinilega.

7. Getur nemandi notað forritið án aðstoðar kennara?
Eftir að kennari hefur lagt inn eða kennt nemanda hvað hann á að gera í upphafi, er auðvelt að vinna áfram í forritinu. Það geta nemendur gert upp á eigin spýtur.
Þó ættu læsir nemendur að geta náð ansi langt án aðstoðar kennara, því forritið býður upp á möguleikann að lesa sér til, þ.e. fá HJÁLP auk þess sem lesin eru skilaboð um verkefnin jafn óðum.

8. Reynir forritið á einhvern hátt að koma til móts við mismunandi þarfir og getu nemenda, t.d. með því að bjóða upp á mismunandi þyngdarstig?
Leikurinn skiptist einkum í þrennt:
a) Börn sem eru að byrja að þekkja tölur og lögun hluta ....
b) Börn sem eru byrjuð að telja og geta borið saman hluti.....
c) Börn sem geta glöggvað sig á línuritum, kunna á klukku og þekkja peninga....
Þyki þeim spurning of erfið geta þau smellt á NÆSTA þar til þau finna það sem þau ráða betur við.

9. Hvernig birtist endurgjöfin í forritinu, t.d. við réttum og röngum svörum?
Nemendur fá endurgjöf (feedback) um leið og svarað er, því þau komast ekki áfram nema með réttu svari.
Eftir 2 villur kemur rétt svar sjálfvirkt.

10. Notar forritið hljóð, liti eða myndir og í hvaða tilgangi?
Forritið er mjög líflegt og lifandi. Nokkurs konar teiknimyndasaga á sér stað. Persónurnar tala og gefnar eru upplýsingar um hvað nemandinn á að gera.

11. Hegðar forritið sér að einhverju leyti mismunandi útfrá frammistöðu nemandans?
Nemendur velja sér verkefni. Þau eru misjafnlega þung enda ætluð 4 ára aldursbili.
Nemandi verður alltaf að ljúka verkefni til að geta haldið áfram.
Galli við forritið er að ekki er hægt að vista unnar lausnir, þannig að nemandi þarf alltaf að byrja á byrjun þegar komið er í forritið næst.
Þetta er galli, því kennslustundin er stundum búin áður en nemandi hefur lokið ákveðnu verkefni og það byggir á fyrri lausnum.

12. Getur kennari ráðið einhverju um það efni sem notað er í forritinu?
Forritið er alveg full unnið og ekki er hægt að breyta því neitt.

13. Finnst þér þetta forrit gera eitthvað sem er ekki svo auðveldlega hægt að gera í hefðbundinni kennslu?
Forritið er líflegt og skemmtilegt. Það er góð viðbót við kennsluefni bókarinnar Eining, en er ekki nein viðbót við hefðbundna kennslu. Einungis er verið að kenna þau atriði sem áður hafa verið talin upp.


14. Merktu við þau orð sem þér finnst lýsa forritinu vel:

x skemmtilegt
x athyglisvert
x krefjandi
ruglingslegt
leiðinlegt
niðurdrepandi
x hægvirkt
x lærdómsríkt

Annað: Eins og áður hefur verið komið inn á, er það galli að ekki skuli vera hægt að vista aðgerðir milli þess sem unnið er í forritinu.

Kennsluforrit II

Talnaveiðar.
Talnaveiðar er tölvuforrit þar sem tekist er á við stærðfæðileg viðfangsefni sem fjallað er um á yngsta stigi grunnskólans og er hluti af námsefninu Einingu.
Forritinu er ætlað að koma til móts við þær áherslur sem settar eru í námskrá.
Notkkun forritsins getur aukið fjölbreytni í vinnubrögðum og aukið möguleika til namsaðgreiningar

Segja má að forritið Talnaveiðar svipi að sumu leiti til Reiknibílsins, en er á allan hátt einfaldara í notkun og í sjálfu sér „minna" forrit.

Forritið nýtist vel í byrjun stærðfræðikennslu.

III forritið í þessum flokki er svo Töfraflísar, en það þjálfar mynstur, rökhugsun, flokkun og rúðunet. Forritið gerir námið að skapandi og skemmtilegum leik.

Áfram er haldið með forrit í þessum flokki og er Litli gagnagrunnurinn ætlaður til að kenna notkun gagnagrunns og skráningu upplýsinga á skipulegan hátt.

 


Heimildir:
Lifandi vísindi, nr. 6 bls. 36. 2000. Nú á alnetið að tala öll tungumál veraldar.

Menntamálaráðuneytið 1999. Aðalnámskrá grunnskóla - upplýsinga- og tæknimennt bls. 8 - 9.

Sigurður Fjalar Jónsson. 2000. Tölvur í sérkennslu. Námsgagnastofnun. Reykjavík.

Sigurður Fjalar Jónsson. 1999. Að fenginni reynslu. Glæður. Fagtímarit félags íslenskra sérkennara um uppeldis- og skólamál. 1/9:28.

Þuríður Jóhannsdóttir. 2001. Um félagslega hugsmíðahyggju. Umræðuframlag á vefráðstefnu. Nám og kennsla á netinu. Kennaraháskóla Íslands.

Vefslóðir:
Tölvur Tækni og Net fréttir. http://www.taeknival.is/default.asp?nota=293&typa=frett

Tölvur Tækni og Net fréttir. http://www.taeknival.is/default.asp?nota=180&typa=frett© Herdís Brynjólfsdóttir.
Síðast uppfært 10. ágúst, 2001.