Kirkjan


 


 

 

Kirkjur snúa í austur og vestur horfa mót austri til birtunnar.

Vesturhlið kirkju er andstæðan við sólarlagið og er tákn dauða. Vesturhliðin táknar einnig varnarmúrinn gegn hinu illa.

Suðurhlið merkir gamla testamentið.

Norðurhlið merkir nýja testamentið.

Kirkjudyr eru tákn Krists, Jesú sagði um sjálfan sig: Ég er dyrnar.

Lengd er tákn þolgæðisins.

Breidd er tákn kærleikans.

Hæð er tákn vonarinnar.

Veggir kirkjunnar tákna guðspjallarmennina fjóra.

Klukkurnar tákna postulana.

Kirkjan sjálf er tákn himinsins.

Frá kirkjudyrunum upp að altarinu liggur hinn heilagi vegur mörk tíma og eilífðar.
Altarið er í austurenda þar sem sólin kemur upp og rekur burt myrkrið, hver sólarupprás er tákn upprisunnar.

Altarið er tákn Krists, altarisklæðið táknar kyrtil hans og dúkarnir klæðin hans. Altarið er alltaf fyrir miðju, oftast innst í kirkjunni við gaflinn en stundum stendur það svolítið frá veggnum. Á altarinu er alltaf biblía og gjarnan kross, kertastjakar og blóm. Altarið er helgasti staður kirkjunnar. Umhverfis altarið eru oftast eins konar grindur og við þær er svolítil uupphækkun til að krjúpa á. Þessar grindur heita gráður eða grátur. Gráturnar eru oftast í hálfhring hinn helmingurinn er ósýnilegur hann lokast hinumeginn, sama er með altarið annar borðendinn er hér hinn inn í eilífðinni.

Á veggnum fyrir ofan altarið er altaristafla. Altaristaflan getur verið málverk af einhverjum atburðum úr lífi Jesú, krossmark eða önnur trúarleg tákn.

Á krossfestingamyndum sjáum við að á hægri hönd hins krossfesta, það er vinstra megin frá okkur séð, stendur María guðsmóðir. Konurnar áttu sér stað vinstra megin, þess vegna stendur brúður jafnan vinstra megin við brúðkaup.

Altarið og svæðið umhverfis það er oftast upphækkað. Þetta svæði heitir kór.

Predikunarstóll er yfirleitt á kornum eða fyrir framan hann. Presturinn predikar úr predikunarstólnum. Predikun er ræða sem presturinn flytur fyrir söfnuðinn. Ræðan er útskýring prestsins á orði Guðs.

Hringarnir eru tákn eilífðar en misjafnt er hér á landi hvoru megin fólk ber hringana. Hægri hönd táknar vilja, styrkleika og verk. Vinstri hönd táknar tilfinningar, áform og hjartað.

Líkkistur eru oft sexhliða í laginu, talan 6 er tákntala sköpunarinnar, jafnvel líka dauðans vegna þess að á 6 degi var Adam skapaður og fyrir hann kom dauðinn inn í heiminn.

Kista í kirkju snýr alltaf þannig að höfuð hins látna snýr í austurátt til upprisunnar, eins horfa syrgjendur í austurátt til upprisunnar. Í kirkjugörðum snúa hinir látnu andlitum sínum til austurs, í sólarátt og upprisunnar.

 

© maí 2002 Helga Heiða Helgadóttir