Tunglið er fylgihnöttur jarðarinnar. Það er nær jörðinni en aðrir hnettir, og þess vegna byrjuðu mennirnir geimrannsóknir þar en ekki á öðrum hnöttum. Venus er t.d. hundrað sinnum lengra frá okkur en tunglið.

Geimrannsóknir hófust á því að mennirnir sendu ómannaðar geimskutlur til tunglsins því þeir vissu ekkert hvað og hvernig væri á tunglinu.


Núna er sífellt verið að rannsaka tunglið en geimfarar hafa skilið eftir ýmis konar tæki til að afla upplýsinga um innri gerð tunglsins.

Ysta lagið eða skorpan er um 65 km á þykkt og þar fyrir innan virðist vera lag sem er 800 km þykkt og úr þéttari bergi en skorpan. Það er talið að innsti kjarninn sé úr járni, sem er að einhverjum hluta bráðið.

 

Tunglið okkar gengur um jörðina, líkt og reikistjörnurnar um sólina. Þessi hringferð tekur einn tunglmánuð. Þegar tunglið hreyfist í kringum jörðina breytist staða þess gagnvart jörðinni og við sjáum breytingu á lögun tunglsins. Stundum sjáum við það fullt, stundum hálft og stundum eins og nögl í laginu.

Ástæðan fyrir því að við sjáum það misjafnt í laginu er sú að sólin skín á tunglið og tunglið endurkastar svo ljósinu. Aðeins sá hluti sem sólarljósið fellur á er sýnilegur.

 

Tunglmyrkvi

Í sólskini varpar allt skugga og jörðin líka. Þegar tungl er fullt fer það stundum í gegnum skugga jarðar. Þá verður tunglmyrkvi. Þá er tunglið hulið af skugganum en þokast svo út úr honum hinum megin.