Eldfjöll

Eldfjöll verða til vegna endurtekinna gosa. Þau eru mismunandi í gerð og lögun. Algengustu gerðir eldfjalla á Íslandi eru eldkeilur og eldhryggir. Þessar tegundir fjalla myndast ef blandgos verða oft á sama stað.

Eldkeilur
myndast á stuttum sprungum eða kringlóttu gosopi. Haldið er að undir þessum fjöllum séu kvikuþrær þar sem
kvika safnast á milli gosa. Gos úr eldkeilufjöllum verða yfirleitt mjög kröftug og hefjast oft á sprengi- eða þeytigosi en svo tekur hraunrennslið við.

Eldhryggir
myndast á langri sprungu. Hekla er þekktust allra eldhryggja. Hún stendur á 5 km langri sprungu og hún gýs nokkuð reglulega.

Dyngjur
og eldborgir verða til í flæðigosum. Flæðigos kallast gos sem eru hrein hraungos. Dyngjur eru stór eldfjöll sem myndast oftast í einu löngu gosi, sem getur staðið yfir í mörg ár. Dyngjuhraun eru mjög víðáttumikil en eitt þekktasta dyngjuhraunið er Ódáðahraun. Þekktasta dyngjan á Íslandi er Skjaldbreið en aðrar dyngjur eru Trölladyngja og Kollóttadyngja.

Eldborgir
myndast í flæðigosum eins og dyngjur. Gosin í eldborgum eru mun minni en gos í dyngjum. Eldborgarhraunin mynda eins konar dyngju en efst gnæfir eldborgin sjálf hlaðin af kviku sem skvettist í sífellu upp úr gígkatlinum og myndar bratta gígveggina.

Klepra- og gjallgígar myndast í blandgosum ef aðeins gýs einu sinni. Stakir klepra- og gjallgígar verða til á hringlaga gosopi eða á stuttum sprungum. Í gosi úr klepra – og gjallgígum er krafturinn svo mikill að kvikustrókar standa í loft upp og kleprar og gjall þeysist upp og hleðst upp og myndar háa barma. Á gígveggjunum eru skörð sem hraunið rennur út um. Sprungugos af þessari gerð er algengasta gerð gosa hér á landi. Lakagígar eru án efa frægastir slíkra sprungna.

Öskugígar
verða til í þeyti- og sprengigosum. Þá sprengja gosgufur og vatnsgufur sér leið upp á yfirborðið ásamt sundurtættri kviku og bergbrotum. Ef slíkar sprengingar eiga sér stað grunnt í jörðu og eru ekki of kraftmiklar myndast oft stórir og reglulegir öskugígar

Sprengigígar
myndast ef sprengingin er mjög öflug. Þá þeytast gosefnin svo hátt til lofts að litlir eða engir gígbarmar myndast.

Hraungúll er þegar seigfljótandi kvika úr líparíti gúlpast upp yfir gosrásinni. Dæmi um slíka gosstöð er Mælifell á Búðum.

Hraunstöpull verður til þegar seigfljótandi hraunkvika hefur myndað eins konar gígtappa sem hindrar eðlilega útrás gosefnanna. Smátt og smátt bætist svo við tappann um leið og hann þrýstist upp úr koki eldfjallsins.