Vefurinn  og  tónlist  á  Íslandi

INNGANGUR

Ef ritvinnsla, ljósritun, og hugsanlega skrifstofuhald eru frátalin, hafa framfarir síðustu ára í tölvutækni ekki náð að hreifa við tónlistarkennurum á Íslandi að neinu marki. Ekki hefur heldur þótt ástæða til að tölvur eða tölvutækni af neinu tagi væru þættir í menntun tónlistarkennara; verðandi tónlistarkennarar kynnast því ekki í námi sínu hvernig mögulega má nota í tónlistarkennslu hljóðgervla, sequencera, samplera, CD ROM, kennsluforrit af ýmsu tagi, nettengingu tölva, eða önnur tölvutengd tól og tæki sem stöðugt verða aðgengilegri og ódýrari. Eiginleg tölvunotkun í tónlistarkennslu á Íslandi í dag er þannig lítil sem engin.

Ekki er ætlunin að kryfja hér mögulegar ástæður fyrir þessu ástandi, heldur vekja athygli á enn einni tæknibyltingunni sem er að eiga sér stað og færa fyrir því rök að nýjar aðstæður hafi skapast sem gætu gert tónlistarlíf Íslendinga að stórum hluta aðgengilegt á Internetinu. Þetta mundi svo vafalítið hafa margvíslegar afleiðingar, m.a. fyrir tónlistar- nám og kennslu.

TÖLVUR OG SKÓLAR

Hvað tölvuaðstöðu varðar eru íslenskir skólar ekki endilega illa settir: Svo til allir skólar, þ.m.t. tónlistarskólar, nota tölvur við rekstur og skrifstofuhald. Einhver vinnuaðstaða fyrir nemendur er ekki óalgeng, a.m.k. í stærri grunn- og framhaldsskólum - þó ekki í tónlistarskólum. Víða er vinnuaðstaða fyrir kennara með aðgangi að tölvu. Yfir 90% skóla í landinu eru tengdir Íslenska Menntanetinu (ÍM) <http://www.ismennt.is/>. Þannig geta kennarar með netfang haft samband við aðra kennara, hafi þeir netfang, eða nýtt sér aðra þá möguleika sem fylgja aðgangi að Internetinu.

Ákveðin aðstaða er þannig fyrir hendi sem hvorki ætti að vera kostnaðarsamt eða erfitt að auka og útfæra.

TÖLVUTENGING TÓNLISTARSKÓLANNA

Haustið 1993 gekkst áhugahópur fyrir átaki sem beindist að því að tónlistarskólarnir (en þeir eru á milli 70 og 80 í öllu landinu) <http://www.musik.is/Nok/Tskolar/tskolar.html> tengdust ÍM. Kennurum bauðst netfang og hafist var handa við að setja inn efni tengt tónlist á gopher þjón ÍM. Á milli 20 og 30 skólar munu hafa tengst ÍM í tengslum við þetta átak.

Þrátt fyrir nokkra fyrirhöfn, svo sem kynningarfundi, tæknilega aðstoð og námskeiðstilboð, tókst ekki að fjölga mikið þeim tónlistarkennurum sem reglulega notfæra sér tölvusamskipti. Nýleg könnun undirritaðs leiddi í ljós að af þeim 20-30 skólastjórnendum sem fengu netfang er nú aðeins um fjórðungur reglulegir notendur.

Ástæður fyrir þessu eru eflaust margar, svo sem tölvufælni, óljósar hugmyndir um hvaða gagn megi hafa af tölvusamskiptum, lítið framboð á innlendu efni tengdu tónlist, og e.t.v. hefur hefðbundið notendaviðmót verið fráhrindandi og flókið fyrir þann sem lítil kynni hafði fyrir af tölvusamskiptum - til að geta nýtt sér t.d.: e-mail, gopher, news, ftp, eða telnet, þarf svolitla yfirlegu fyrst í stað, og síðan nokkuð reglulega notkun svo að áunnin þekking glatist ekki.

BREYTTAR AÐSTÆÐUR

Tiltöluleg nýlega hafa hinsvegar orðið róttækar breytingar sem lýsa sér í eftirfarandi:

1) Hypertext Markup Language (HTML) <http://www.w3.org/> gerir nú mögulegt, og tiltölulega einfalt, að setja upp (formata) skjöl sem geta innihaldið texta, myndir og virkar tengingar (links) eða vísanir, í önnur skjöl. Þegar vísir er valinn, t.d. með því að smellt er á orð eða mynd, er það skjal (eða tiltekinn staður í tilteknu skjali) sem vísað er í sótt yfir símalínuna, og gildir þá einu hvort það sem sótt er er á tölvu í sömu byggingu eða á tölvu í Ástralíu. Með þessari aðferð má gera gríðarlegt magn upplýsinga aðgengilegt. Dæmi: nú er hægt, hvaðan sem er, að framkvæma orðaleit í öllum ræðum sem fluttar hafa verið á Alþingi Íslendinga frá árinu 1989.

2) Með HTML vísunum af þessu tagi má þannig mynda eins konar vef skyldra upplýsinga sem bæði er óháður staðsetningu þeirra upplýsinga sem hann (vefurinn) samanstendur af og því hvaðan úr heiminum notandinn nálgast upplýsingarnar, þ.e. tengist vefnum. Skjal af þessu tagi hefur verið nefnt völundarskjal (hypertext document), og samtenging slíkra skjala um allan heim veraldarvefur (World Wide Web).

3) Ný samskiptaforrit hafa komið til, eins og NCSA Mosaic og Netscape <http://www.netscape.com/>, sem gera tölvusamskipti bæði einfaldari og fagurfræðilega meira aðlaðandi. Munurinn á þessum forritum og flestum fyrirrennurum þeirra er ekki ósvipaður muninum á myndrænu viðmóti Macintosh eða Windows, og hinu textadrifna DOS. Þannig þarf notandinn nú, varla að kunna nokkrar skipanir í textaformi til að geta ferðast um netheima, skoðað myndir, hlustað á hljóð eða sótt skjöl; að kunna á mús er allt sem þarf. Fyrir hinn tölvufælna eru tölvusamskipti þannig orðin verulega mikið meira aðlaðandi.

4) Önnur grundvallar breyting felst í því að nú hefur almennt verið opnað fyrir það (raunar er hvatt til þess s.s. með námskeiðshaldi) að hver sá sem hefur netfang, þ.e., hvaða notandi sem er, geti sett upp á sínu heimasvæði það sem hann listir, kunni hann eitthvað svolítið í HTML. Sá hinn sami getur svo opnað hið uppsetta efni fyrir hvern sem er að skoða. Hér er í raun kominn til nýr og gríðarlega öflugur tjáningarmáti fyrir almenning (sem að vísu þarf að hafa tölvunetfang), og honum raunar gert mögulegt það sem áður var aðeins á færi kerfisstjóra.

Að setja upp (formata) HTML skjöl þannig að þau virki aðlaðandi fyrir utanaðkomandi er næstum jafn auðvelt og að setja upp texta í venjulegri ritvinnslu. Þessi skjöl geta innihaldið uppsettan texta (feitletrun, skáletrun, ýmsar leturstærðir o.s.frv.), myndir, og, eins og áður segir, vísanir í önnur skjöl óháð því hvar í netheimi þessi skjöl eru staðsett - að sjálfsögðu að því gefnu að sá sem setur upp skjalið viti netfang þess sem hann vísar í og aðgangur að því sé heimill óviðkomandi. Þegar höfundur hefur þannig hannað sitt völundarskjal, eða sinn vef, eftir því um hvað flókið skjal er að ræða, getur hann opna aðgang fyrir hvern sem er að skoða.

TÓNLISTARLÍF Á ÍSLANDI OG VEFURINN

En hvernig kemur allt þetta við tónlistarlíf á Íslandi? Jú, þegar frá líður munu bæði einstaklingar, félög og stofnanir sem tengjast tónlist í vaxandi mæli setja upp völundarskjöl sem munu innihalda kynningar eða hvaðeina annað sem viðkomandi kann að þykja áhugavert að miðla. Þessi skjöl má svo tengja saman, eins og lýst var hér að ofan, og þannig mynda einskonar tónlistarvef. Þegar nógu mörgum vísunum (links) af þessu tagi hefur þannig verið safnað saman verður hægt að fá ítarlegar upplýsingar um tónlistarlífið í landinu. Þetta ætti að geta gerst fljótt á Íslandi og orðið nokkuð tæmandi. Íslendingar gætu þannig orðið fyrstir þjóða sem kynnast mætti náið í tónlistarlegu tilliti á Veraldarvefnum, því ekkert er því til fyrirstöðu að þessar upplýsingar séu aðgengilegar hvaðan sem er úr heiminum og á fleiru en einu tungumáli. [Músík.is <http://www.musik.is/>, þá undir nafninu Tónlistarsíðan, var þegar í smíðum þegar greinin var skrifuð. Tilgangurinn var, og er, að sýna hvernig ofangreind hugmynd gæti litið út í framkvæmd.]

Þessi hugmynd er langt frá því fjarlæg hvað Ísland varðar, raunar hefur landið hér nokkra sérstöðu sem m.a. felst í eftirfarandi: Ísland er lítið land og fámennt; það sama má segja um tónlistarlífið í landinu. Einstaklingar, stofnanir og félög tengd tónlist eru ekki fleiri en svo að verkefnið er vel viðráðanlegt. Dæmi: 70-80 tónlistarskólar, 1 sinfóníuhljómsveit, 1 ópera, fáeinir smærri hljóðfærahópar sem starfa reglulega, fáir útgefendur tónlistarefnis, og tiltölulega fá hagsmunafélög og áhugahópar, hvert (eða hver) með tiltölulega fáa meðlimi.Tölvueign er nokkuð almenn og aðgengi að tölvum vex stöðugt. Símakerfi landsins er tiltölulega fullkomið. Landið er í ljósleiðarasambandi við útlönd. Íslendingar eru nýjungagjarnir; mörg dæmi eru um að nýjungar eða tískustraumar hafi á skömmum tíma náð til alls landsins - ýmislegt bendir einmitt til þess að þetta sé nú að gerast varðandi tölvusamskipti.

Hugsanleg hindrun í vegi þessarar hugmyndar er að aðeins fáum finnist það ómaksins vert að presentera sjálfa sig með þessum hætti. Í ljósi þess sem áður er sagt um eðli upplýsingamiðlunar af þessu tagi verður slíkt þó að teljast ólíklegt. Fjárhagslega er hér ekki um stórt dæmi að ræða - sennilega mun minna fyrir hvern aðila en t.d. að gefa út meðal kynningarrit.

TÓNLISTARKENNSLA

En hverju mun þessi nýja tækni breyta fyrir tónlistar- nám og kennslu á Íslandi? Þó fyrirfram sé lítið hægt að fullyrða, má þó telja eftirfarandi nokkuð víst:

1) Almennt séð munu tölvusamskipti stóraukast - raunar hefur almennur áhugi þegar aukist gífurlega samfara svo til daglegri fjölmiðlaumfjöllun um tölvusamskipti og Internet. Í skólakerfinu mun þetta leiða til aukins samstarfs bæði faglegs sem og af öðrum toga.

2) Tölvusamskipti, sérstaklega þar sem þau verða sífellt auðveldari og aðgengilegri, eiga vaxandi erindi bæði sem samofinn þáttur hefðbundins tónlistarnáms, og sem sjálfstæður vettvangur náms og kennslu sem ekki er endileg mögulegur án þeirra. Nefna má ókannaða möguleika í fjarkennslu, notkun t-pósts (e-mail), sem og sjálfstæð verkefni eða project sem ómöguleg væru án hinnar nýju tækni - Hvað má t.d. læra af smíði völundarskjals, samanborið við samningu hefðbundinnar ritgerðar?

3) Að sjálfsögðu geta nemendur kynnt sér tónlist nær og fjær í gegnum tölvu. Gagnabankar af ýmsu tagi, tóndæmi, og upplýsingaöflun, t.d. í formi fyrirspurna, eru dæmi um fyrirbrygði sem þegar eru aðgengileg í gegnum tölvu. Annað sem nefna má er að í gegnum tölvu má ná sambandi við sérfræðinga á hinum ólíklegustu sviðum sem annars væru ekki endilega aðgengilegir - dæmi eru t.d. um nám í ethnískri tónlist þar sem tölvusamskipti við innfædda var hluti af náminu; einnig má nefna fyrirspurnir á póstlista og ráðstefnur.

NIÐURLAG

Hér að ofan hefur lítillega verið tæpt á notkun tölvunnar í tónlistar- námi og kennslu á Íslandi, og bent á algeran skort á fræðslu um þessa tækni í menntun tónlistarkennara. Vakin var athygli á róttækum breytingum sem nýlega hafa orðið á sviði tölvusamskipta, og færð fyrir því rök að með þeim hafi orðið vissar grundvallarbreytingar hvað varðar tölvusamskipi; almenningi hafi verið færðir áður óþekktir tjáningarmöguleikar. Spáð var að þetta muni aftur leiða til róttækra breytinga í tölvusamskiptum almennt, auka notkun tölva og tölvutækni í tónlistar- námi og kennslu og bent var á möguleika Íslands til að verða fyrsta landið sem kynnast mætti ítarlega á veraldarvefnum í tónlistarlegu tilliti.


23.2.1995 Jón Hrólfur Sigurjónsson (Tölvupóstur: <jonhs@ismennt.is> Veffang: <http://www.ismennt.is/not/jonhs/>)Greinin birtist upphaflega í Nytt om Data I Skolan. 1 / 1995. Nordisk Ministerråd, IDUM-Projected undir titlinum "World Wide Web og musik på Island". Greinin er birt hér óbreytt nema hvað uppsetning er löguð að vefnum og vefföngum hefur verið haldið við.


1. október 1996