Aðalvík – Staðhættir
       
   

Á norðanverðum Vestfjörðum er Sléttuhreppur, nyrsti hreppur landsins. Stærsta víkin í honum er Aðalvík, hún er 6–7 km á breidd og álíka löng. Að sunnan afmarkast hún af fjallinu Rit, en af Straumnesi að norðan, og horfir víkin til norðvesturs mót úthafinu. Riturinn skerst á milli Ísafjarðardjúps og Aðalvíkur, er hann 482 m á hæð og eitt af þremur fuglabjörgum í sveitinni. Hin tvö eru Hornbjarg og Hælavíkurbjarg. Skáladalur er ysti bærinn innan Ritsins að sunnanverðu og byggðist þar snemma á landnámstíma. Einnig var stundað þaðan útræði um aldir. Frá Skáladal liggur landleiðin undir Skáladalsbjargi inn að Sæbóli. Það er um klukkustundar gangur um stórgrýtta fjöru þar sem sjórinn gengur í bjarg á flóðinu. Innst undir bjarginu er klettabás sem heitir Kirfi, þar verður að sæta sjávarföllum til að komast leiðar sinnar. Hægt er að fara yfir klettinn upp í hlíðina, en það er aðeins fært kunnugum mönnum. Upp frá bjarginu rís Tindfjall og er það 386 m hátt. Einnig er hægt að fara úr Skáladal yfir Tindfjall og er þá komið niður hlíðina að Sæbóli um grænar flesjur, heitir það að fara Leið. Sæból var útgerðarþorp með um 80 íbúa þegar best lét. Nánast í sömu torfu var jörðin Garðar. Fram af Görðum liggur Garðadalur, en milli hans og Staðardals rís 400 m hár tindur sem kallast Garðahorn. Inn frá þeim tindi liggur Lækjarfjall að sunnanverðu í Staðardal. En sú hlið sama fjalls, sem veit að Ísafjarðardjúpi, er kölluð Grænahlíð. Sjómenn tala stundum um þann stað sem Hótel Grænuhlíð, því að algengt er að þar liggi togarafloti í vari fyrir norðanstórviðrum. Hæsti tindur Grænuhlíðar nefnist Darri og er 497 m á hæð. Aðalvíkingar höfðu átrúnað á Darra á fyrri tíð, og töldu að í honum byggi vættur, sem segði til veðurs. Þegar þeir voru á sjó og gekk að með vont veður, er mælt að vætturin hafi kallað hárri röddu, svo hljómaði út yfir hafið:

Dimmir á Darra,
dragið upp vaði.

Staðardalur er stór og grasgefinn. Á Stað í Staðardal var prestssetur Aðalvíkinga um aldaraðir. Í dalnum er allstórt, en grunnt stöðuvatn. Í því er dágóð silungsveiði, einkum er nótt fer að dimma á sumrin. Stundum gengur líka lax eftir Staðaránni upp í vatnið. Norðan Staðardals er fjallið Nasi, 418 m hátt, og handan þess tekur við Þverdalur, sem er fremur þröngur. Í dalsmynninu var samnefndur bær og oftast tvíbýli. Norðan Þverdals rís fjallið Hvarfnúpur. Þjóðleiðin frá Sæbóli til Hesteyrar lá fram Staðardal, upp Fannardal og síðan um Hundamúla og Sléttudali. Var talinn röskur þriggja stunda gangur að Hesteyri, en væri farið niður að Sléttu tók ferðin mun skemmri tíma.

Þjóðleiðin frá Sæbóli til Látra lá undir Hvarfnúp (341 m) og tók um þrjár klukkustundir. Gengin var svokölluð Posavogshilla, sem var illgeng og er nú aflögð. Hún var mokuð og rudd á hverju vori meðan byggð hélst í Aðalvík. Sú þjóðsaga gekk að einu sinni hefði fólk verið þarna á leið til kirkju með barn til skírnar. Það á að hafa borið barnið í poka á bakinu og misst pokann fram úr hillunni. Síðan dragi hillan nafn af þeim atburði. Þarna er talið að orðið hafi átján banaslys og það síðasta 17. des. 1915. Þegar komið er hilluna á enda er gengið niður í fjöru. Hún er stórgrýtt og erfið yfirferðar þar til komið til er inn í Grundarenda í Miðvík. Þaðan er mjög góð og hörð sandfjara alla leið að Látrum, en tvö vatnsföll eru á leiðinni, Miðvíkurós og Stakkadalsós. Á milli þeirra er klettabás sem heitir Kleif og gengur fram úr Mannfjallinu (272 m) og skilur að Miðvíkur og Látra. Geta ósarnir verið varasamir sökum sandbleytu í leysingum og vatnavöxtum. Tveir bæir voru í Miðvík, Efri- og Neðri-Miðvík, og tvíbýli á báðum þó að Neðri-Miðvík væri talin helmingi minni en hin jörðin að fornu mati. Þjóðleið liggur frá Efri-Miðvík um Sléttuskarð til Sléttu og önnur upp úr Miðvíkurbotni um Hesteyrarskarð til Hesteyrar.

Á Látrum, sem var nyrsta byggðin í Aðalvík, óx upp, líkt og á Sæbóli, útgerðarþorp með allt að 130 íbúa, þegar mest var umleikis í fiskveiðum og verkun. Þar var sæmileg lending nema í vestanáttum. Þá er þar algjör neyðarlending. Utan við byggðina á Látrum er Látranes, frá nesinu liggja sker og klettar sem heita Básar. Þar var sellátur fyrrum og munu Látrarnir draga nafn af því. Utan við Bása tekur við há og brött hlíð, sem heitir Straumneshlíð. Innarlega í hlíðinni er stór og djúp skál, sem heitir Kví. Við hana er kennt þekkt fiskimið í Ísafjarðardjúpi. Í Kvínni er hóll mikill, Virkishóll og sagt er að þar hafi leynst sakamaður og að hann hafi farið á streng niður klettabeltið, því að það er ókleift. Hlíðinni lýkur á Straumnesi nyrst við Aðalvík. Þar var reistur viti árið 1922. Skammt innan við vitann er flakið af Goðafossi, fyrsta skipi Eimskipafélags Íslands með því nafni, en hann strandaði þarna 30. nóvember 1916. Mannbjörg varð og var það að þakka dugnaði og ósérhlífni Látramanna. Út af Straumnesinu myndast mikil röst, sem nær tugi mílna út í haf og er sjómönnum til hrellingar og hættu í illviðrum og hafróti. Nyrsti og hæsti tindur Straumneshlíðar heitir Trumba, 377 m hár. Þar tekur við Straumnesdalur og heitir þar Skorarfjall sem aðskilur dalinn frá Rekavík. Bandaríkjamenn reistu þar ratsjárstöð árið 1953. Þeir lögðu hana af 1960 og fluttu burtu og ruddu miklu fram af fjallinu. Hæð fjallsins er 435 m á Skorum.

Á herforingjaráðskortinu danska er fjallinu ofan Látra skipt svo: Straumnesmegin við Kví, inn að Hófnum, heitir Látrafjall. Frá Kvínni út á Trumbu heitir Straumnesfjall. Milli Straumness og Skora er Straumnesdalur. Milli Skora og Bæjarfjalls er Öldudalur og Bæjarfjall er upp af eyðibýlunum í Rekavík. Milli Bæjarfjalls og Grasdalsfjalls er Grasdalur, síðan kemur Hófur, ofan hálsanna.

Þegar farið er fram með Látrafjallinu að sunnanverðu er komið fram á Hálsa, en þeir eru á milli Látra og Rekavíkur bak Látur. Fjallið ofan Hálsanna heitir Hófur. Í Rekavík var oftast tvíbýli og var þaðan haft eftirlit með vitanum á Straumnesi. Fyrir innan byggð á Látrum og neðar lá mýri sem náði fram að Hálsum. Þessi mýri heitir Hildarfold og úr henni rennur smálækur sem kallast Skráma og rennur í Torfavatn. Til hliðar við Hildarfold lagði Bandaríkjaher flugbraut, sem enn í dag er fær litlum vélum.
Fram úr Norður-Aðalvík ganga þrír dalir, Bjarnadalur, Reyðardalur og Stakkadalur, og framan við dalina eru tvö vötn, Torfavatn og Stakkadalsvatn, og er það stærra. Þau tengjast með sundi, sem kallast Mjósund, og úr Stakkadalsvatni rennur samnefndur ós til sjávar. Frá vötnunum og niður í fjöru er stór sandmelur, mismikið gróinn af melgresi og fer það eftir árferði. Af Hálsunum er gengið upp á Fljótshjalla, en þaðan er leiðin norður í Fljótavík um Kjöl og Tunguheiði ofan að Tungu. Sunnan við Fljótshjallann er Bjarnadalur og úr honum er gengið upp í Tröllaskarð og komið ofan að Glúmsstöðum í Fljótavík. Sunnan Bjarnadals er Bjarnadalsmúli og sunnan hans kemur svo Reyðardalur, en þar eru tvö lítil vötn, Reyðardalsvötn. Um Reyðardal upp í Reyðardalsdrög liggur forn leið upp á Háuheiði um Kjaransvíkurskarð til Stranda. Reyðardalsmúli liggur svo milli Reyðardals og Stakkadals, en í Stakkadal var samnefndur bær þar sem ætíð var tvíbýli. Hefur hringnum í Norður-Aðalvík þá verið lokað. Leiðin frá Látrum til Hesteyrar lá um Stakkadal og Hesteyrarskarð og var talin um tveggja stunda gangur.

Í Landnámu segir: „Ættgöfugasti landnámsmaðurinn sem kom til Íslands er sagður Geirmundur heljarskinn Hjörsson konungs á Rogalandi í Noregi. Hann nam land í Breiðafirði og bjó á Geirmundarstöðum á Skarðsströnd, en þótti þröngt um sig. Hann fór því norður á Strandir og nam þar land frá Rytagnúp (Rit) vestan til Horns og þaðan austur til Straumness (austan Barðsvíkur). Þar gerði hann fjögur bú, eitt í Aðalvík, það varðveitti ármaður hans, annað í Kjaransvík, það varðveitti Kjaran, þræll hans, þriðja á Almenningum hinum vestri, það varðveitti Björn, þræll hans, er sekur varð um sauðatöku eftir daga Geirmundar. Af hans sektarfé urðu almenningar. Fjórða í Barðsvík, það varðveitti Atli, þræll hans, og hafði 14 þræla undir sér. Vébjörn Sygnakappi, sem nam land mill Skötufjarðar og Hestfjarðar, og bjó á Folafæti, braut skip sitt við Sygnakleif á Almenningum, þeir björguðust nauðuglega, en um veturinn tók við þeim öllum Atli í Fljóti, þræll Geirmundar, og bað þau engu launa vistina, sagði Geirmund eigi vanta mat. En er Atli fann Geirmund spurði Geirmundur, hví hann var svo djarfur að taka slíka menn upp á kost hans. Atli svaraði, því að það mun uppi, meðan Ísland er byggt, hversu mikils háttar sá maður mundi vera, að einn þræll þorði að gera slíkt utan hans orlofs. Geirmundur svaraði: Fyrir þetta þitt tiltæki skaltu þiggja frelsi og bú þetta, er þú hefur varðveitt. Og varð Atli síðan mikilmenni. Örlygur Böðvarsson fór til Íslands fyrir ofríki Haraldar konungs hárfagra. Hann var hinn fyrsta vetur með Geirmundi heljarskinni, en um vorið gaf Geirmundur honum bú í Aðalvík og lönd þau er þar lágu til. Örlygur eignaðist Sléttu og Jökulfjörðu.“

 
 
 
 
 
 
 
 
 
   
   
    Heimildir:
Kjartan T. Ólafsson o.fl. 1995. Frá Aðalvík og Ameríku. Aldarminning Ólafs Helga Hjálmarssonar og Sigríðar Jónu Þorbergsdóttur frá Látrum í Aðalvík. Afkomendur Ólafs Helga og Sigríðar Jónu.