Upphaf þéttbýlis

Útgerðin

Höfnin

Verslun

Samgöngur

Skólamál

Húsbyggingar

Um vefinn

 
 

Ölfushreppur byggði á sínum tíma heimavistarskóla fyrir börn í Hveragerði. Þar áttu börnin héðan að stunda sitt skyldunám, eins og önnur börn sveitarinnar. Fyrstu ár þorpsins voru engin skólaskyld börn á staðnum. Það var ekki fyrr en á árunum 1954-1955 sem þurfti að fara að hugsa um barnafræðslu í Þorlákshöfn. Þá varð hver að bjarga sér eins og best hann gat. Einu barni var komið fyrir á Selfossi og með öðru var lesið heima. Sumarið 1956 voru hér níu skólaskyld börn. Þá um haustið var sett á stofn útibú frá skólanum í Hveragerði.

Eina verbúðin sem uppi stóð í Þorlákshöfn var um tíma nýtt undir skólahald undir stjórn Kristjáns frá Djúpalæk. Komu þar ýmsir við sögu. Árni Benediktsson og Gunnar Magnússon, sem vann við hafnarvogina, tóku þátt í kennslunni og Guðbjörg Thorarensen sem kenndi um alllangan tíma. Kennslan var þessi árin undir yfirstjórn Valgarðs Runólfssonar í kennsluumdæminu í Hveragerði.

Í bréfi lýsir Kristján frá Djúpalæk skólahaldi meðal annars svo:
„Þetta haust vaknaði almennur áhugi í Þorlákshöfn fyrir því að fá kennara í þorpið, svo ekki þyrfti að aka börnum upp í Hveragerði, en þetta var þá allt eitt skólahérað. Varð það að samþykki hinna bestu manna, að fengin skyldi kennari á staðinn. Húsnæði hefur mér vitanlega aldrei verið talið til nauðsynja fyrir kennara, en oft talið þörf á því fyrir skóla. Þarna var þá enn lítt um tómt húsnæði, eftir að vertíð hófst, sjóbúðir stóðu auðar þess á milli og var svo þetta haust. En ekki þótti þó annað fært en ætla skólanum varanlegri samastað. Nú vildi svo vel til að maður að nafni Sigurþór hafði haft svín þarna á staðnum, er hann hafði þá fargað. Húsnæði það, sem peningur þessi hafði verið fóstraður í, var því laust. Hafði Sigurþór jafnvel ætlað að innrétta sér þar bráðabirgðaríbúð. Þótti nú skólanefnd ráðlegt að slá í púkk með Sigurþóri og annast innréttinguna á sinn kostnað, gegn því að skóli fengi þar inni um veturinn, er verki lyki. Þarna skyldi og hinn nýi kennari hafa skjól. En stórvirki öll taka tíma.

Skólinn fékk fyrst um sinn inni í sjóbúð er snéri enda að aðalgötu og var vestast í því rauðhúsahverfi. Við tjölduðum með hersíanstriga fyrir kojurnar upp undir þak og fluttum þangað stóla og borð er afgangs voru í Hveragerði. Þetta var langt pláss og mjótt. Mig minnir að nemendur væru sjö og af því tveir á fullnaðarprófsaldri. Þetta eru nú þegar orðnir hinir merkustu menn. Hitt var mest á fyrsta og öðru skólaári. Búð þessi var ágæt, hægt að hita upp og strigalyktin vandist. Kennarahjónin bjuggu í áfastri sjóbúð með sömu innréttingu fyrir kojurnar, eldað var á sama stað.

Nú leið til vertíðar. Var þá lokið smíð skólans. Við fluttum þangað eftir jólafríið. Þetta var lítið hús með skúrþaki og lítt gengt undir lægri brún þaksins. Húsinu var skipt í þrennt: Skólastofan tók bróðurpartinn, hinu var skipt í svefnskála og eldhús. Vildi svo heppilega til að svefnhúsið var mátulegt utan um tvíbreiðan dívan kennarahjónanna og gengt upp á enda hans um dyr sem lágu úr skólastofunni. Eldhús þénaði einnig sem forstofa fyrir húsið og fatageymsla nemenda. Nú hófst kennsla og þótt rúmleysi væri mikið í skólastofunni mátti una því. Hitt var lakara að einangrun hússins var í einhverju ábótavant og vildi veggi slaga mjög er mættist ylurinn að innan og lemjandinn að utan. Dívaninn vandist lítt vætunni og svo ábúendur hans. Bót mátti þó kalla gegn rakanum að upphitunin var rafurmagn og þannig frágengið að sjálfvirkur rofi tók það af aðra hvora tvo tíma um daga. Rakinn varð því að föstu efni innanhúss „engangímellu“ ef frost var.
Gekk svo um hríð.

Nú eru kennarar eins og allir vita hinir verstu kröfuseggir og hafa aldrei kunnað að meta og þakka gildi vinnunnar sem slíkrar, því var það, að oss þótti hús þetta vart samboðið svo ungri stofnan og gerist kurr nokkur. Skilningur heimafólks var jákvæður, en skólanefndar síður. Lauk svo frama þessa húss að vér fluttum þaðan alfarið í fárviðrisbyl kvöld eitt og fengum inni fyrir allt saman í kaupfélagshúsinu, sem var þá nær fullgert. Bjuggum við í núverandi eldhúsi, en kennt var í dagstofunni. Þótti þá hækka hagur strympu. Þetta var að þakka einstökum góðvilja kaupfélagsstjórans Þormóðs Jónssonar.

Tæki voru fá til kennslu lengst af og misjafnt húsnæði, stundum í sjóbúð eða hálfbyggðum húsum. En fólk reyndist vinveitt.“

©Sigríður Guðnadóttir 16.05.03

Bréf frá Þormóði Jónssyni Landnemar í Þorlákshöfn Til baka til skilasíðu.

Til baka til heimasíðu.