Upphaf þéttbýlis

Meitillinn

Útgerðin

Höfnin

Verslun

Samgöngur

Skólamál

Húsbyggingar

Um vefinn

 
 


Egill Gr. Thorarensen hafði um 1930 verið ráðinn kaupfélagsstjóri nýstofnaðs Kaupfélags Árnesinga og var jafnframt stjórnarformaður Mjólkurbús Flóamanna. Hann var ósvikinn Sunnlendingur og sætti sig aldrei við hafnleysi héraðsins. Ennfremur sárnaði honum að sjá á eftir ungum mönnum til sjóróðra um Suðurnes, Vestmannaeyjar og víðar vegna bágra hafnarskilyrða í héraði. Egill beitti sér fyrir því 11. apríl 1937 að stjórn K.Á. samþykkti kauptilboð fjögurra Reykvíkinga upp á kr. 28.500.- fyrir jörðinni Þorlákshöfn. Teningunum var kastað og á þriðja áratug barðist Egill fyrir þessu heitasta áhugamáli sínu, sem lauk með fullum sigri til hagsbóta fyrir alla Sunnlendinga hvað varðar flutninga og fiskveiðar. Án forystu Egils í þessum málum væru Sunnlendingar hafnlausir í dag og landnám Ingólfs snauðara.

Eftir að K.Á. eignaðist Þorlákshöfn var strax ráðist í að byggja og gera út eina fjóra 8-10 tonna dekkbáta og byggja upp fiskverkunaraðstöðu í landi, söltunarhús, lifrarbræðslu og beinaverksmiðju. Á vetrarvertíðum réru 5-10 bátar árlega allt til 1941 þegar fiskleysi og Bretavinna í Kaldaðanesi bundu enda á þessa útgerð sem vissulega var erfið sökum hafnleysisins. Suðurvararbryggja var um 60 m á lengd og á þurru um fjöru, og svipað var um Norðurvör. Þessi K.Á. útgerð gekk furðu vel miðað við aðstæður og veitti þá þegar umtalsverða atvinnu á krepputímum.

1945 voru þingmenn, fjárveitinganefnd Alþingis, vitamálastjóri o.fl. á ferð í Þorlákshöfn og virtist Agli talsverður áhugi hjá stjórnvöldum fyrir hafnargerð. Skilyrði fyrir fjárveitingu var að staðurinn væri í opinberri eign. Menn afgreiddu þetta mál umsvifalítið á snjallan hátt, þ.e. K.Á. seldi Árnes- og Rangárvallasýslum jörðina fyrir 600.000 krónur. Með öllu tilheyrandi. Matsmenn mátu síðar eignir þessar á 1.180.000 kr. Þá varð til svokölluð Þorlákshafnarnefnd undir formennsku Páls Hallgrímssonar sýslumanns. Egill var ennfremur í nefndinni og lagði henni til baráttuvilja og umsvifamátt. Nefndin var þó fyrst og fremst samningsaðili gagnvart ríkinu hvað viðkom hafnarframkvæmdum. Á stríðsárunum veitti Skúli Þorleifsson forstöðu búrekstri á jörðinni fyrir K.Á.

Til tíðinda dró 1949 með stofnun hlutafélagsins Meitilsins hf., sem næstu fimmtíu árin stóð fyrir
uppbyggingu staðarins flestum framar og var jafnframt einn fjölmennasti vinnustaður sýslunnar.

©Sigríður Guðnadóttir 16.05.03

Bréf frá Þormóði Jónssyni Landnemar í Þorlákshöfn Þorlákshöfn Til baka til skilasíðu.

Til baka til heimasíðu.