Álfaskólinn

Morgunblaðið/Þorkell 15. júní 1997

Ferðast um huliðsheima

Álfaskólinn hefur undanfarin fjögur sumur skipulagt fræðsluog skoðunarferðir um álfa- og huldufólksbyggðir í Reykjavík og næsta nágrenni. "Okkur finnst þetta þjóðlegt, skemmtilegt og svolítið fallegt," segir skólastjórinn Magnús Skarphéðinsson en ferðirnar segir hann einkum vera vinsælar meðal erlendra ferðamanna. "Þrisvar sinnum í viku eru skipulagðar ferðir fyrir útlendinga en annan hvern laugardag eru Íslendingar sérstaklega boðnir velkomnir."

Dagskráin tekur yfirleitt um fimm klukkustundir og hefst í húsakynnumÁlfaskólans við Vegmúla. Þar eru haldin erindi um álfa- og huldufólk og sagðar sögur. Þá er öllum snarað upp í langferðabíl sem ekur á staði þar sem slíkt fólk er að finna en m.a. er litið inn á einkaheimili í Breiðholti, Álfahóllinn í Kópavogi er skoðaður svo og huldusteinninn bakvið Ármúla 32. Að skoðunarferð lokinni er leiðangursmönnum boðið upp á kaffi og nýbakaðar pönnukökur í skólanum.

Tvær þjóðir í einu landi

Margir brosa í kampinn eða hlæja þegar Magnús byrjar að lýsa starfsemi skólans en honum stendur á sama. "Ég efast ekki um að tvær þjóðir búa í þessu landi, annars vegar Íslendingar og hins vegar huldufólk," segir hann. Huldufólkið telur hann vera í mannsmynd, það er hulið sjónum flestra en áætlað er að á bilinu 7.000 til 20.000 slíkir hafi búsetu hérlendis. Álfareru hins vegar mun fleiri en þeir eru smáverur frá fimm og uppi sjötíu sentimetrar að stærð.

Fregnum fer fækkandi

Fjöldamargir Íslendingar af eldri kynslóðinni hafa hitt huldufólk að sögn Magnúsar sem ferðast mikið um landið, ræðir við fólk og skráir niður frásagnir."Fregnum fer þó óðum fækkandi því sjaldgæft er að gengið sé á milli sveitabæja eða setið yfir ám eins og tíðkaðist áður fyrr en þar virðist sem helst hafi verið hægt að komast í tæri við huliðsheima." "Sögur af nútímahuldufólki eru samt sem áður til," bætir Magnús við, "það býr í nýtísku húsum með öll helstu þægindi og starfar yfirleitt sem sjómenn og bændur."

Álfasögusöfnun

Kennarar Álfaskólans hafa í hjáverkum undanfarin ár, safnað saman og flokkaðsögur sem til eru á prenti um álfa og huldufólk. Verkinu er ekki lokið en sögurnar eru orðnar hátt á annað þúsund. "Með þessu erum við að bjarga menningarverðmætum og þykir undarlegt það áhugaleysi sem ríkir hjá flestum um þessa hluti. En líklega þykir það ekki við hæfi að trúa á huldufólk nú á tímum tækni og vísinda." Álfaskólinn fellur vel í kramið hjá útlendingum sem fæstir hafa heyrt á huldufólk minnst en margir þekkja til álfa enda er þá að sögn Magnúsar að finna víða um heim.