Kötludraumur
Flökkuminni eða þjóðfélagsumræða?

Gísli Sigurðsson
Útdráttur úr grein (Gripla 9 1995 Bls. 189-217)

Kötludraumur er sagnakvæði undir ljúflingslagi, eins og fornyrðislag hefur stundum verið nefnt á síðari öldum. Það segir sögu af Kötlu á Reykjanesi sem fer til hulduheima í draumi með álfkonunni Alvöru á meðan eiginmaður hennar er á alþingi, kemur þaðan barni aukin eftir huldumanninn Kár og þarf að gera manni sínum (og bræðrum í sumum gerðum) grein fyrir því hvernig komið er. Kvæðið er til í nokkrum gerðum og u.þ.b. 80 handritum frá 17. og fram á 19. öld.

Af ólíkum gerðum Kötludraums kemur fram að efnismunur þeirra er einkum fólginn í því að svonefnd A gerð blæs út heimsókn Kötlu til húsa Alvarar og gerir skýra grein fyrir óyndi Kötlu í sæng Kárs. B gerðin gefur hins vegar í skyn að Katla láti sér vel líka enda þótt hún sé sinnulaus vegna hótunar Alvarar. Með viðbót sinni leggur B gerðin einnig mesta áherslu á hörkuleg viðbrögð bræðra Kötlu og réttlætiskennd þeirra þegar þeir heyra öll málsatvik. Þá kemur dauði Kárs fram með ólíkum hætti í gerðunum, annars vegar í beinni frásögn í A en aðeins í orðum Alvarar í B. Að öðru leyti eru efnisatriði flest þau sömu í þeim köflum sem sambærilegir eru.

Aftur á móti er munur á orðalagi og erindaskipan víða mikill á milli megingerðanna. Sums staðar, einkum í upphafi kvæðisins eða í byrjun hvers efnisþáttar, er orðamunur óverulegur svo stappar nærri orðréttri geymd. Þar sem munurinn er meiri í miðri frásögn má kalla textann "fljótandi" og orðalagslíkindi eru þá bundin við einstök orð á stangli sem, ásamt efni,vísa til þess að hér sé um "sama" kvæði að ræða. Þess eru einnig dæmi að breytileikinn sé haminn innan ákveðinna marka. Þá birtist frjálsræði í textameðferð í því að algengum heitum er skipt út en umgjörðin helst lítið breytt. Sú meginhugmynd kvæðisins helst óbreytt í öllum gerðum og uppskriftum að Katla sé ekki í neinni sök þó að hún hafi orðið barnshafandi eftir annan en eiginmann sinn, enda hafi hún verið óvirkur þolandi í því máli. Mannprýði Más og samheldni þeirra hjóna virðist ávallt vera með svipuðu sniði.

Af fjölda handrita Kötludraums frá 17. öld og fram á þá 19. má ráða að efni kvæðisins hafi verið fólki ofarlega í huga á þessum öldum. Víst er að vandi Kötlu, sem verður uppvís að því að vera þunguð og eignast barn með öðrum en löglegum eiginmanni sínum, hefur brunnið mjög á körlum og konum eftir að farið var að framfylgja Stóradómi af fullri hörku á 17. öld. Það er þó ekki röksemd fyrir því að Kötludraumur hafi fyrst verið kveðinn eftir að Stóridómur var settur en bendir aðeins til þess að vinsældir kvæðisins í handritum frá 17. öld gætu að minnsta kosti skýrst af því ástandi sem dómurinn leiddi yfir þjóðina. Munnleg geymd veldur því að sögur og kvæði eru síbreytileg og laga sig að aðstæðum hverju sinni þannig að þau eru heimild um hugarfar og aldarhátt á flutningstíma sínum.

Sú réttlætisvitund sem býr að baki Kötludraumi boðar mildi og fyrirgefningu vegna hjúskaparbrots eiginkonu. Slík mildi gengur þvert á gildandi lög í landinu eftir siðaskipti, þegar konur voru sekar um siðferðisbrot jafnvel þótt sannað væri að þeim hefði verið nauðgað. Undir slíkum lögum hefði Kötlu dugað skammt að bera fyrir sig að hún hafi ekki sóst eftir samförum við Kár "Alvöruson" og verið viljalaust verkfæri í höndum móður hans. Vinsældir kvæðisins sýna að hugarheimur fjölmargra landsmanna hefur ekki verið í samræmi við lögin eða ríkjandi trúarbrögð heldur staðið miklu nær því sem okkur er tamt að kenna við nútímalegt umburðarlyndi. Ef marka má kvæðið hefur slíkt umburðarlyndi verið mun almennara á fyrri öldum en opinberar heimildir gætu gefið tilefni til að ætla. Þannig sýnir dæmið af Kötludraumi að það er varasamt að ætla alþýðumanna of mikla fylgispekt við hugmyndafræði andlegra og veraldlegra yfirvalda.