Saga Ólafs Þórhallasonar

Upphaf íslenskrar skáldsagnagerðar rakin til íslenskra þjóðsagna og munnmælahefðar

 

Brot úr umfjöllun eftir Jón Özur Snorrason, Morgunblaðinu 22. október 1997 um fræðiritið TVEGGJA HEIMA SÝN SAGA ÓLAFS ÞÓRHALLASONAR OG ÞJÓÐSÖGURNAR eftir Maríu Önnu Þorsteinsdóttur. STUDIA ISLANDICA. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. Reykjavík 1996

Jón segir svo:

HIÐ opinbera upphaf íslenskrar skáldsagnaritunar hefur um langan aldur verið talið útgáfuár Pilts og stúlku eftir Jón Thoroddsen (1818-1868) en í þriðja bindi nýútkominnar bókmenntasögu, bregður svo við að eldri sögum og sögubrotum, sem áður var flokkað sem undanfari "raunsæislegri" og "metnaðarfyllri" sagnagerðar, eru gerð viðhlítandi og fræðileg skil í vandaðri umfjöllun Matthíasar Viðars Sæmundssonar. Má af því sjá að nýir tímar kalla á ný viðhorf, jafnvel í ritun íslenskrar bókmenntasögu. Ein þessara sagna sem öðlast hefur sinn bókmenntasögulega sess, og líklega sú helsta, er Saga Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal Eiríksson (1743-1816).

Sögusvið Ólafssögu er jöfnum höndum álfheimur og hinn hversdagslegi heimur íslenskrar alþýðu á kaþólskri tíð. Efniviður hennar er að stærstum hluta sóttur til þjóðsagna auk þess sem helstu persónur hennar eru álfar. Álfheimur er því jafn raunverulegur og mannheimur í sögunni og ferðast aðalpersónan, Ólafur Þórhallason, óhindrað á milli þessara tveggja tilverusviða.

....

Í inngangi ritgerðarinnar kemur fram að Saga Ólafs Þórhallasonar lá óprentuð og óútgefin í tæplega tvö hundruð ár og virðist sem handriti hennar hafi alla tíð verið lítill gaumur gefinn. Talið er að sagan sé samin um aldamótin 1800 en hún er fyrst gefin út í Reykjavík árið 1986.

.......

Stærsti hluti ritgerðarinnar fjallar um hinn hugmyndalega/samtímalega veruleika sem Ólafssaga er sprottin úr, um bein áhrif Upplýsingastefnunnar í skáldverki Eiríks, sem víða má finna stað, en um leið, hinn þjóðsögulega bakgrunn Ólafssögu: um mynstur íslenskra þjóðsagna, formgerð þeirra og efnivið, og þann mun sem er á gerð þeirra og sögu Eiríks Laxdals. Þjóðsögur þær sem Eiríkur nýtir sér hafa verið víðkunnar á tíð hans og vinsælar og virðist hann hafa notað sagnaefni sem fólk þekkti vel. María Anna sýnir fram á að Ólafssaga er ekki óskipulegur samsetningur "stolinna" þjóðsagna heldur heildstætt listaverk þar sem höfundur vinnur úr efniviði sagnanna og skapar með því aðra sýn og annað viðhorf en áður hefur þekkst í íslenskum sögum.

Merkilegt hlýtur að teljast að Eiríkur Laxdal vinnur úr efniviði þjóðsagna talsvert áður en áhugi á þjóðsagnasöfnun vaknaði í Evrópu. Hann er því fyrstur til að safna þjóðsögum á Íslandi eftir því sem skáldrit hans, Ólafssaga, ber með sér. Að auki endurnýjar hann þetta víðkunna og útbreidda sagnaefni, lesendum eða áheyrendum sínum til ánægju, um leið og hann gerir það að nýjum miðli fyrir hugmyndir sínar og álit.

...

Ennfremur segir María Anna:

"Kolbíturinn Ólafur kann að koma úr heimi þjóðsagna á fyrsta skeiði ævi sinnar en vaknar ekki upp til þjóðsögulegs umhverfis heldur skáldsögulegs, á mótum tveggja tíma; persóna úr þjóðsögu sem flýr um leið og hann hefur vit til, hin þjóðsögulegu húsakynni, og þau hrynja á hæla hans, reikar svo um formleysur sálarlífs og finnur sér ekki annan tilgang en svala nauðþurftum sínum uns æviferillinn sjálfur hefur spunnið um hann söguvef af nýrri gerð: Skáldsögu." (Bls. 241.)

Í ritgerð sinni beitir María Anna Þorsteinsdóttir nákvæmri og strúktúralískri nálgun á Sögu Ólafs Þórhallasonar og tekst henni að varpa skýru ljósi á íslenska hugmynda- og bókmenntasögu 18. og 19. aldar. Hún sýnir fram á að upphaf íslenskrar skáldsagnagerðar megi, í mikilvægu tilfelli, rekja til íslenskra þjóðsagna og munnmælahefðar. Hún greinir frá því hvernig höfundur Ólafssögu vinnur um leið úr hugmyndaforða samtíðar sinnar og þjóðsögulegum minnum og fyllir um leið frásögn sína persónulegri og einstaklingsbundinni upplifun.