Uppruni álfa og huldufólks

Ólína Þorvarðardóttir

Álfar og tröll, Bóka- og blaðaútgáfan sf., Rvík 1995

lfasögur eru ein grein goðafræðisagna, enda er í goðafræðinni getið um álfa og dverga sem ýmist eiga uppruna sinn í jörðu eða á himni. Í Snorra-Eddu er sagt frá ljósálfum sem voru fegri en sól sýnum og góðviljaðir. Bjuggu þeir í Álfheimi sem var staðsettur á himni, í nágrenni við goðheim. Þar segir einnig frá dökkálfum sem voru viðsjárverðar og illa innrættar verur, svartari biki og búsettar í jörðu. Ennfremur er þar getið um dverga þá er kviknuðu sem maðkur í holdi Ýmis, það er að segja í moldinni og niðri í jörðinni:

En af atkvæði guðanna urðu þeir vitandi mannvits og höfðu mannslíki og búa þó í jörðu og í steinum. (Snorra Edda.: 29).

Þjóðsagnargeymdin hefur á takteinum ýmsar sögur af uppruna álfa oghuldufólks, og ber þeim misjafnlega saman við goðafræðina. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er frá því greint að Guð almáttugur hafi einhverju sinni vitjað Adams og Evu og hafi þau sýnt honum allt sem þau áttu, þar á meðal börnin sín, þau sem hrein voru og þvegin. Óhreinu börnin vildi Eva þó ekki hafa fyrir augliti Guðs, svo hún faldi þau. Guð vissi hins vegar hvað hún hafði gert og mælti svo um að það sem ætti að vera hulið fyrir honum skyldi einnig vera hulið fyrir mönnum:

Þessi börn urðu nú mönnum ósjáanleg og bjuggu í holtum og hæðum, hólum og steinum. Þaðan eru álfar komnir, en mennirnir eru komnir af þeim börnum Evu sem hún sýndi guði. (Huldumanna genesis - Jón Árnason, I:7, sbr. JÁ III: 4)

Önnur sögn greinir svo frá, að í upphafi hafi Guð skapað konu af moldu fyrir Adam. En þesi kona var svo ókyrr hjá honum og stygg að hvorki Adam né Guð gátu neinu tauti við hana komið. Fór svo að lokum, að Guð skapaði henni mann eftir hennar eðli og nefndi hann Álf, en hana Alvör og eru af þeim komin öll tröll og álfar. (Álfur og Alvör - JÁ III:4).

Öllum upprunasögnum ber saman um það að heimkynni huldufólks séu í jörðu, ef undan er skilin frásögn Snorra Eddu um Álfheim. Aðallega eru bústaðir þeirra í hólum, klettum og steindröngum, en ei búa ljúflingar í brunnu grjóti segir á einum stað, því hraunin eru heimkynni illra vætta og dauðra manna (sbr. JÁ I: 28&endash;29).

Svo virðist sem íslensk þjóðtrú geri ekki greinarmun á álfum annars vegar og huldufólki hins vegar, enda þótt þessar tvær nafngiftir hafi verið viðhafðar um huldar verur í hólum og klettum frá öndverðu. Í þeim 535 álfa- og huldufólkssögum sem liggja til grundvallar því álfasagnaúrvali sem hér birtist, er ekki að finna neitt sem með óyggjandi hætti greinir að álfa og huldufólk. Þó má með gaumgæfni finna óljós merki þess að huldufólkið standi ef til vill nær sjálfri þjóðtrúnni, en álfarnir skáldskapnum. Þannig er huldufólkið að mörgu leyti líkara mannfólkinu, og jarðneskt í útliti og klæðaburði. Álfar berast meira á með litklæðum sínum og íburðarmiklum híbýlum sem oft minna meira á sagnaveröld ævintýra en þjóðtrúarsagna. Álfar geta ýmist verið góðar eða illa innrættar verur. Huldufólk virðist hins vegar hvorki illt né gott að upplagi, heldur sýnir það sínar betri og verri hliðar eftir tilefnum.

Eins og fyrr segir er þessi greinarmunur þó svo óljós að vart er þess virði að rýna í hann, enda fjölmargar álfa- og huldufólkssagnir sem gera engan slíkan mun. Til er þó saga sem greinir frá því að huldukona hafi reiðst við það að drengur var atyrtur með orðunum álfurinn þinn! Átti hún þá að hafa sagt: Við huldufólkið erum ekki meiri álfar en þið mennirnir! (JÁ 1:3).