Ástir álfa og manna

Ólína Þorvarðardóttir

Álfar og tröll, Bóka- og blaðaútgáfan sf., Rvík 1995

Allmörgum sögum fer af ástum sem takast á milli álfa og manna. Til eru frásagnir af því er álfkonur verða þungaðar af völdum manna sem vilja ekki gangast við faðerninu. Kemur þar fram hörð fordæming á ábyrgðarleysi og léttúð í ástamálum, enda hefnist mönnum grimmilega fyrir að svíkja sína huldumey í tryggðum, líkt og við sjáum í sögunni af Rauðhöfða. Slíkar sögur eru þó með öðru sniði og nokkuð færri en þær tvær sagnagerðir sem fyrirferðarmestar eru og helst einkennandi fyrir sögur af ástum álfa og manna.

Annars vegar eru það ungar heimasætur sem lenda í indælum en ógæfulegum ástarævintýrum með fallegum huldusveinum í selinu eitt sumar. Hins vegar eru það karlmenn sem fara á ástafund til huldukvenna í álfheimum. Afdrif sögupersónanna í þessum tveim gerðum sagna eru ólík sem og sögusviðið annars vegar mannheimar, hins vegar álfheimar, - enda ólíkar ástæður sem hrinda atburðarás þeirra af stað.

Yfir sögum af ástum ljúflinga og kvenna svífur rómantískur en ljúfsár og harmsögulegur blær. Þær fjalla um gjafvaxta bændadætur sem settar eru yfir fé í seli eitt sumar og komast þá í kynni við unga álfasveina (ljúflinga) sem þær eiga með ástafund, einn eða fleiri. Úr selinu koma þær barnshafandi og leyna þunga sínum. Ljúflingarnir aðstoða þær við að ala barnið á laun og taka það til sín, en stúlkurnar halda áfram að lifa og starfa í mannheimum. Skömmu síðar finnst feðrum þeirra nóg um að hafa þær ólofaðar í heimahúsum, og útvega þeim mannsefni sem þær ganga að eiga, oft nauðugar. Er svo allt með kyrrum kjörum þar til dag einn, að á bæinn koma tveir menn til veturvistar, annar eldri en hinn yngri. Húsfreyja vill ekkert af þeim vita og helst ekki hitta þá, en svo fer þó um síðir að hún er neydd til að heilsa þeim eða kveðja. Fallast þau í faðma, vetrarmaðurinn og húsfreyja og springa bæði af harmi. Var þar þá kominn ljúflingurinn með son þeirra frá því í selinu forðum.

Sögur af ástarsambandi karla og álfakvenna eru með öðrum og holdlegri bragði. Sögusviðið er ótilgreindur álfhóll þangað sem karlmennirnir - oftast (h)eldri menn (mektugir bændur eða prestar) - vitja vinkvenna sinna, og taka þá með sér sveinstaula eitt tiltekið skipti. Er þeim tekið með kostum og kynjum og þjónað bæði til borðs og sængur, enda hefur þá önnur yngri álfkona slegist í hópinn sem gerir sér dælt við unga manninn. En þegar kemur að því að ganga til rekkju verður yngri manninum um og ó. Finnst honum þá leggja slíkan hita af konunni sem hann mundi stikna, ellegar fyrir vit hans bregður einhverri ónotalykt af henni svo hann fussar við með skelfilegum afleiðingum (bls. 76). Álfkonan fokreiðist að sjálfsögðu og leggur á hann ógæfu og vesöld. Það varð því hlutskipti þeirra vesalings ungmenna sem ekki stóðust viðlíka manndómsvígslu í álfheimum, að lifa undir þeim álögum að þvælast stelandi sveit úr sveit eða káfandi uppundir hverju kvenmannspilsi, uns þeir voru teknir og hengdir.