Álfaborgin og Blábjörg

Altaristafla Kjarvals í Bakkagerðiskirkju

Byggt á grein í Morgunblaðinu 16. júní 1995

Borgarfjörður eystra er þekktur fyrir álfabyggð og álfasteina. Þar eru Blábjörg en þau eru stuðlaberg með sverum stuðlum, há og víða stöllótt. Þau eru heimkynni álfabiskups. Álfadrottning býr í Álfaborginni. Bakkagerðiskirkja var reist og vígð árið 1901. Kjarval gerði altaristöflu í kirkjuna sumarið 1914. Á henni má sjá er Jesús Kristur hefur gengið upp á Álfaborgina og haldið fjallræðu, umkringdur fólki.

Í greininni segir:

"Sú saga hefur flogið víða að biskup hafi ekki vígt kirkjuna vegna þess að hann sætti sig ekki við altaristöfluna. Heyrst hefur að biskup hafi jafnvel bannfært altaristöfluna. Sigurður Óskar Pálsson einn höfunda Sögu Borgarfjarðar eystra, hefur rannsakað söguna og fundið skjöl sem afhjúpa þessa goðsögn."