Álfhóllinn í Kópavogi

Byggt á frásögn í bókinni Þjóðsögur og sagnir úr Kópavogi -
höf. Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir

Álfhóllinn er kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Við hann er Álfhólsvegur kenndur en sá vegur sveigir fyrir hólinn. Hóllinn er rétt hjá Digranesskóla, hann er aflíðandi og mun vera um þrír metrar að hæð. Í hólnum er nokkuð stórgrýti og smáklettar. Margir segjast hafa séð álfana þar en ekki eru heimildir um það nema frá tuttugustu öldinni.

Seint á fjórða áratugnum hófust vegaframkvæmdir við Álfhólsveg. Vegurinn átti að liggja um Álfhólinn og stóð til að sprengja hólinn. Gekk allt brösuglega og framkvæmdir stöðvuðust þá við vegalagninguna vegna peningamála. Áratug seinna átti að ljúka við vegalagninguna og 1947 átti að leggja veginn áfram gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum fór allt í handaskolum - vinnuvélar biluðu, verkfæri skemmdust og týndust. Fór svo að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann.

Við lok níunda áratugarins átti að hækka upp veginn og malbika hann. Verkið sóttist vel alveg þangað til leggja átti malbikslag upp með hólnum en til þess til þess þurfti að fleyga stykki úr norðurhlið hólsins. Til þess átti að nota steinbor eins og venja er til við slík verk. Borinn lét undan og brotnaði. Var þá sóttur annar bor en hann brotnaði líka. Borarnir kubbuðust í sundur og verkamennirnir neituðu að koma nærri hólnum með vélar og verkfæri eftir það. Áætlunum um vegarstæðið við Álfhól var þá breytt og hóllinn látinn í friði.

Lóð sem liggur að hólnum var úthlutað til húsbyggingar. Sá sem fékk úthlutað skilaði lóðinni en vill ekki gefa upp ástæður. Sagt er að enginn hafi fengist til að taka við lóðinni og byggja þar hús og lóðin því verið þurrkuð út af skipulagi.

Fleiri myndir af Álfhólnum:

  1. mynd
  2. mynd
  3. mynd
  4. mynd
  5. mynd
  6. mynd