Álfahóll í Leirdal

Álfum kennt um bilanir í tveimur ýtum í Leirdal

Frétt í Morgunblaðinu 7. febrúar 1996.

Tvær ýtur, sem notaðar hafa verið til þess að ryðja mold upp að hól í Leirdal í Kópavogi, hafa þráfaldlega bilað þegar þær nálgast hólinn. Kenna menn álfum um bilanirnar en sögur eru um mikla álfabyggð einmitt í þessum hól. Jón Ingi Ragnarsson, verkstjóri hjá Kópavogsbæ, segir að síðastliðin átta ár hafi verið unnið að því að fylla upp í dalinn. Þessa dagana sé verið að fylla upp með mold í Leirdalinn sem verður tekinn í notkun sem kirkjugarður fyrir Kópavogsbúa árið 2001.

Þegar komið er inn í Leirdal blasir við Búddalíkneski uppi á einum hólnum.Skáhallt fyrir neðan líkneskið er álfahóllinn sem nú er verið að ryðja mold að. Jón Ingi segir að notaðar séu tvær misstórar ýtur við verkið. Þær hafa bilað oft sinnis þegar Hjörtur Hjartarson ýtumaður ryður nálægt hólnum. Bilanirnar eru smávægilegar og þykja nokkuð undarlegar. Yfirleitt fer eitthvað úr sambandi eða rör fara í sundur. Minni ýtan, sem er nýuppgerð, hefur verið á svæðinu við þetta verkefni í mörg ár og bilaði þá aldrei. Síðustu daga hefur hún bilað þrisvar sinnum og alltaf þegar hún er nærri hólnum. Stærri ýtan hefur bilað tvisvar sinnum þegar hún hefur nálgast hólinn.

"Ýtumaðurinn er ekki mjög spenntur fyrir því að ýta mikið að hólnum og við ætlum að færa hann til á annað svæði. Hann hafði sjálfur orð á því að ef hann hyrfi einhvern daginn þá vissu menn hvar hann væri að finna. Dæmi væru um að menn hefðu horfið inn í álfhóla."

Mikil álfabyggð er í Kópavogi og dregur ein gatan þar í bæ, Álfhólsvegur, nafn sitt af álfum. Aldrei hefur verið hróflað við borgunum svokölluðu, klöppum þar sem Kópavogskirkja stendur. Jón Ingi segir að gömul kona hafi séð mikla flutninga álfa frá hólnum síðastliðið haust og taldi hún að einhverjir hafi orðið eftir sem nú séu að verja híbýli sín.

"Við ætlum að vita hvort við getum ekki náð sáttum við álfana með því að færa okkur um set um tíma. Ég hallast helst að því að þarna sé eitthvað sem við getum ekki útskýrt," sagði Jón Ingi.