Álfahóll

Davíð Stefánsson

 

Þó fjúki í fornar slóðir

og fenni í gömul skjól

geta ekki fönnin og frostið

falið Álfahól.

 

Yfir hann skeflir aldrei

þó allt sé af gaddi hvítt,

því eldur brennur þar inni,

sem ísinn getur þítt.

 

Þar á ég höfði að halla,

þó hríðin byrgi sól,

fjúki í fornar slóðir

og fenni í gömul skjól.