Álfhamar

Einar Benediktsson

 

Undir hástokkum hrímbrýndra kletta

hrannir á strandborðum æða og detta,

þar bergnökkvinn mikli í brimhafs-röst

beitir í norðrið grótvörðu stefni.

Um fjallanna lyfting fallbylja-köst

feykja snjólöðri, biturt og hast.

En heiðin við fannsvæfla hvílir sín efni

hjarnþiljum undir, í draumlausum svefni,

og dregur stormandann djúpt og fast.

 

Í svartnætti Ísland sig hvílir og hylur.

Helgaddinn flýr hver lifandi ylur.

Hver uggi leggst dýpra undir hafstormsins hrönn.

og heitar hvert fuglsnef í vænginn sig grefur.

Héruðin grúfa sig grafin í fönn,

gróthöfgar þekjurnar drúpa um rann.

Hvern andardrátt nóttin í nákyrrð vefur.

Neistinn í hlóðinni skjálfandi sefur.

En álfheimur logar um mold og mann.

 

En dalbúa-rekkjan í duliðs-bjarma

ber daglúðan þegn hinna stundlegu harma

með gleymskunnar helfró um hvarm og kinn,

haldinn af römmum fjarlögum seiði.

Svefnveran starir í sjálfa sig inn,

milli sálar og líkams í jarðfjötrum enn;

svo hefst hún og leggur sitt hold í eyði;

en hvílan bíður sem opin leiði,

að mannseðlin tvístruðu tengist senn.

 

Sálin, hún líður í ljósvakaheiminn,

en líkamans svipur í draumageiminn

burt, - inn á dalalönd dularbleik.

Þar dregur hann ást undir töfranna þak,

sæt eins og ilmur af sólvermdu rjóðri

sár eins og vorþrá í ungum gróðri

og öflug sem fjallbrjóstsins andartak.

 

Við steindyrnar miklu blakkar og byrgðar

hans brúður stendur í miðju hirðar,

fegurst í dísanna dýrðarsveim,

drottningin, skuggi engilsins myndar.

Hún sjálf á ei líf í sólarheim,

en sér yfir náttlandsins yztu þrim

án drottins og trúar, án dyggðar og syndar -

til dauðans hún streymir sem niður lindar

og sekkur í afgrunnsins eilífa brim.

 

Huldusjónir við húmbrá loga

sem himnaljós undir kvöldlofts-boga.

Slæðuský falla af faldinum lágt

um fjallbláma-skikkju með ísperlu-saumi.

Barmurinn lyftir línbylgjum hátt,

sem logfönnin mjúkur, hvelfdur og frjáls.

Snortin af minning frá mannheims glaumi

mánaljós höndin leikur í draumi

við hrímrósa-men um mjallarháls.

 

Ljósgjafahamrarnir hvelfast inni.

Þar hverfir draumkonan manninum sinni. -

Þar gleymist hans eiginn svipur og sál

við seiðbros og stormkossa bjargsins vættar.

Í leiðslu hann teygar ljúflingsins mál,

hver lífsins minning er drukkin í hel,

sem dökknandi skíma glugga og gættar

dregst gríman á svip hinnar mennsku ættar,

og álfsgervið hylur hans þanka og þel.

 

Af tvískiptu eðli er þeirra hjarta,

eins og dægrið, hið myrka og bjarta.

Það líða og sveima í lognhljóðri kyrrð

ljósbornir svipir og náttsvartar myndir.

Þar lifir og breytir bergkóngsins hirð,

sem börnin gleymin á sofandi jörð,

almætti þankans eldana kyndir,

með óskinn spretta fram svalandi lindir,

og kviknar moldar og himins hjörð.

 

Sem himnar sig spegli í hafdjúpsskauti,

skín höllin í slæðum af flogagulls-skrauti, -

þar festir ei sjón á djásnanna dýrð,

þau draga og seiða með flýjandi bjarma.

Ein gimsteinanótt, engu nafni skírð,

einn niður og kliður, sem þaggar öll orð, -

og baugar og sylgjur við blækvika arma,

blómknýti af fegurð, ilmi og varma,

við þrúgu og aldina blikandi borð.

 

En jökulfró er yfir jöfurs hvarmi,

járnhörð er brúnin og galdur í barmi,

en augun rafsnör með reiðiblik,

sem rökkurneistar í glerhalls-móðu.

Lundin er göfug, grimm og kvik,

gaddkaldur viljinn og hyggja spök.

Svo bærist ei ósk í hjarta hljóðu,

svo heillast ei mannsbarn af klettanna þjóðu,

að lesi hann ei þess rætur og rök.

 

Hann sér, hvernig aflið í efninu kvíslast,

hve andinn í smáæðum ljósvakans hríslast

frá heli til lífs, með brú við brú,

þar bifrastir hólpnu kraftanna strengjast. -

Hann sér, hvernig grípur hans föla frú

með feiga sál í eitt mannlífsins strá. -

Í halrtanu dæmda hann orminn sér engjast,

sér armlögum banvænum vígjast og tengjast

draumsvip og álf - undir árlogans brá.

 

- Og morgunsins elding slær hamranna hurðir.

Hvelfingin steypist í kolgráar urðir.

Í töfranna veröld er dagur dóms, -

hún dvínar og hjaðnar í skímu mjallar.

Síðustu leifar hins hrapandi hljóms

hverfa í uppnámi þursa og raums.

Svefnaugun stara. Sjón þeirra hallar.

Sólgeimur dregur þau, blindar og kallar

til vökunnar helkalda voðadraums.