Þar sem að dalurinn þrengist -

Hulda

 

Þar sem að dalurinn þrengist

og þyngjast heiðanna brúnir,

álfarnir áttu sér höll

uppi við lynggróin drög.

 

Morgunninn flaug þangað fyrst

úr faðmi lognblíðrar öldu;

dagurinn dvaldi þar lengst;

döggin þar glitraði hinzt.

 

Heiðlóur sætast þar sungu

á sólroðnum þýðviðriskvöldum.

Hjarðsveinninn hóaði, og þar

hljómaði bergmálið lengst.

 

Blágresið blikaði fegurst

í bjarganna sólheita skjóli;

birkið var beinvaxið þar,

breiddi mót austrinu lim.

 

Þröstur sumar hvert söng,

þá sólin var farin að skína

þar, sem að hríslurnar hæst

hófu sitt angandi skrúð.

 

Flaug, þegar fallandi blöðum

feyktu laufvindar stríðir.

Þá varð í hamrinum hljótt;

huldurnar grétu sinn vin.

 

- Veslingur, vitjaðu aldrei

með vori til leikstöðvar þinna.

Klappirnar hrundu í haust;

hríslan er kalin og föl.