Jónsmessunótt

Tómas Guðmundsson

 

Í vestri sólin sígur

og slen á skóga hnígur,

og prúðar stjörnur stara

á stilltu, bláu sundin.

En líf í limið færist

og laufið hægan bærist,

því álfaflokkar fara

til fundar inn í lundinn.

 

Þeir koma úr öllum áttum

og ólíkir í háttum,

en allir álfar finna

samt unnustur og vini.

Þeir skrýðast skæru líni

og skála í silfurvíni,

sem dalsins dísir vinna

úr dögg og mánaskini.

 

Og nú skal hátíð halda.

Sjá hvirfing blárra tjalda

við rökkvuð sundin rísa

sem roðna í mildum bjarma.

Og álfaaugun tindra

og álfablysin sindra

í grænu laufi og lýsa

sem logagull um arma.

 

Og dátt skal dansinn stiginn

fyrst dagurinn er hniginn

og enginn álfur telur

það eftir sér að vaka.

Og álfar berja bumbur

og blása í álfatrumbur

svo dýrin fara í felur

en fuglar hætta að kvaka.

 

Og aldnir álfar labba

og álfakarlar rabba

um hagi sína saman

og sælli stunda minnast.

Þeir totta tómar pípur

og tregi hjörtun grípur.

Ó, guð, hve þá var gaman!

Hve gott var þá að finnast!

 

En einnig æskan bjarta

ber óróleik í hjarta,

og álfar sitja í sárum,

því senn eiga þeir að skilja.

Þeir geyma mild í minni

sín mánanæturkynni

og gráta tærum tárum,

sem tími og laufblöð hylja.

 

Og því ber þeirra gangur

svo þöglan vott um angur,

að skógarlaufin skjálfa

á skuggadökkum hlyni,

er ungir álfar tárast,

því álfa tekur sárast

að kveðja aðra álfa,

sem álfar töldu vini.

 

Og þó að þú sért álfur

og þekkir eflaust sjálfur

að til fyrir svona trítil

á tilveran staði nóga

og betri til að bú´í,

þá botnar aldri þú í.

hvað löndin eru lítil

en langt til næstu skóga.