Bóndadóttir heilluð af álfum

Fyrir austan bar svo við, að bóndadóttir hvarf af bæ einum; var hennar víða leitað og fannst ekki, og báru hjónin sig því mjög illa. Bóndi fór til prests eins, er hann þekkti að var fróðari í mörgu en aðrir menn. Presturinn tók honum vel, og biður nú bóndi hann um að hafa eitthvað ráð það í frammi, er duga mundi, og komast að því, hvort dóttir sín væri dauð eða lifandi. Segir prestur honum þá, að hún sé numin af álfum, og að enga gleði hafi hann af því að sjá hana aftur. Bóndi kveðst eigi munu trúa því og biður prest að hjálpa sér til þess að ná henni aftur, og svo fór, að prestur, sökum þrábeiðni bóndans, tiltekur kveld eitt og segir, að bóndi skuli þá koma til sín.

Kemur nú bóndi til prests á hinu tiltekna kveldi, og þegar allir voru til sængur gengnir, kallar prestur bónda út, og sér hann þá, hvar hestur stendur með reiðtygjum. Prestur fer á bak hestinum og segir bónda að fara á bak hjá sér; gerir bóndi svo, og stígur á hestinn bak við prest. Ríður prestur svo á stað og bóndi; ekki veit bóndi, hvað lengi þeir hafa riðið fyrr en þeir koma að sjó; þar ríður prestur út á sjóinn, og lengi nokkuð, þangað til hann kom að háum hömrum eða bjargi; hann ríður þar upp undir og fram með, þangað til hann staldraði við í einum stað fyrir framan björgin. Í því lúkast þau upp og er að sjá, sem húsdyr á þeim væri; þar sér bóndi ljós loga, og er þar að sjá albjart af ljósinu; fólk sér hann þar ganga til og frá, kalrmenn og kvenfólk.

Þar sé hann einn kvemann ganga; hún var mjög bláleit í andliti með hvítum krossi á enninu. Prestur spyr bónda, hvernig honum lítist á þessa, er krossinn hefði. Bóndi segir: ""Ekki vel". Prestur segir: "Þessi kvenmaður er dóttir þín, og skal ég ná henni, ef þú vilt, en þó er hún nú tryllt orðin af samveru við fólk þetta". Bóndi kvaðst það eigi vilja og bað prest fara sem fljótast í burtu og sagðist ekki hafa hug til að horfa á þetta lengur. Prestur snýr þá við hestinum og ríður sama veg aftur og kom svo heim til sín, að enginn vissi af ferð þeirra. Bóndi fór heim til sín um daginn, hryggur og angurvær, og segir ekki meira af honum.

Þetta hafði borið við ekki mörgum árum eftir það, að alkristnað var land þetta.