Álfkonudúkur frá Burstarfelli

Heimild: Rit Kristjáns Eldjárns, Hundrað ár í Þjóðminjasafni, Mál og Menning 1994, bls. 28
Gripur Þjms. 3465 í Þjóðminjasafni Íslands

Kristján Eldjárn skrifar: " Á Burstarfelli var fyrrum hálfkirkja, helguð Pétri postula. Sú kirkja hefur sennilega lagst af ekki öllu síðar en um siðaskipti. Síðan á Burstarfell sókn að Hofi. Í kirkjunni á Hofi var lengi altarisklæði sem kallað var "álfkonudúkurinn frá Burstarfelli". Sigurður Vigfússon fékk það handa Forngripasafninu árið 1890. Klæðið er sérkennilegt, úr sterkgulu vaðmáli, tvær breiddir saumaðar saman í miðju. Á þennan grunn eru saumaðar útklipptar myndir, blóm og greinar. Blómin eru öll svört, flest úr flaueli, og saumað í þau með gylltum og siflurlituðum þráðum, skrautleg og haglega gerð."

Á klæðið eru saumaðar myndir af konum og englum og telur Kristján klæðnað kvennanna benda til að verkið sé ekki eldra en frá 18. öld. Hann telur að guli dúkurinn sé venjulegt njólalitað íslenskt vaðmál en segir að í Þjóðminjasafninu sé ekkert til sem minnir á verkið á þessu klæði.