Sonarsonur landfógetans

Sigfús Sigfússon: Íslenskar þjóðsögur og sagnir I-IV

Þegar fyrsta landfógetahúsið var byggt á landi hér þekktu menn ekkert vel hentugt byggingarefni sem nú er þó fundið eða svo fannst landfógetanum sjálfum því að húsið átti að byggja af steini. Hið besta og nærtækasta efni var í hömrum við sjó fram úti í Viðey. Hamrar þeir þóttu einkennilegir og fagrir. Landfógetinn fékk nú menn til að sprengja grjót úr þeim og aðra til að flytja það að. Miðaði skjótt á því að vel var liðað. Landfógeti átti frumvaxta sonarson efnilegan.

Þess verður að geta að eftir fyrsta sprengingadaginn um nóttina dreymir landfógeta að til hans kemur bláklædd, höfðingjaleg og mikilúðleg kona og þó góðleg og fríð að sjá. Hún mælti með áhyggjusvip: "Þótt ég standi langt fyrir neðan yður, herra landfógeti, að tign og virðingu, þá dirfist ég að biðja yður þess að lofa bænum mínum að standa órifnum. Þeir eru farnir að rífa bæjardyrnar." Eigi er getið hvort hann þóttist svara. Þegar hann vaknaði sagði hann drauminn, brosti að og kvað vera mundi draumskrök. En menn hans sprengdu hamarinn fagra.

Næstu nótt kom sama konan til hans með hryggðar- og gremjusvip og mælti klökkvandi: "Nú eru þeir komnir inn í baðstofuna mína. Ef þér látið þá rífa meira verð ég húsvillt fyrir mig og börn mín en á ekkert annað skýli. En ef þér látið nú hætta sprengingum þarna skuluð þér fá þetta í staðinn." Brá hún þá upp leirskál og fletti af rauðu klæði. Var skál sú full af gulli. "Þetta skuluð þér eiga ef þér látið hætta nú þegar." Við þetta brá honum svo að hann hrökk upp og sagði drauminn. Vildu menn þá að hann léti hætta. En hann kvaðst eigi gera það fyrir slíkar hégiljur og hindurvitni og lét halda áfram.

Þriðju nóttina koma konan enn skjálfandi af reiði og gremi. "Nú er allt búið," sagði hún, "og ég flúin með börnin. En eitthvað það mun koma fyrir yður sem yður mun ei léttar en mér þetta." Samstundis vaknaði hann. Húsið var byggt úr hömrunum, fegurra en nokkurt annað á landinu þá.

Skömmu síðar fór sonarsonur landfógetans til Reykjavíkur með fleirum á skektu á sléttum sjó og blíðviðri. En á heimleiðinni hvarf skektan á sundinu með öllu sem á var og hefir ekkert af því sést síðan.