Upplýsingasamfélag - Atvinnumarkaður

Áhrif upplýsingatækni á íslenskan atvinnumarkað
og hugmyndir um atvinnumarkað og færni starfsmanna

Þær gífurlegu tæknibreytingar sem nú ganga yfir heiminn fara varla fram hjá neinum Íslendingi. Ekki er lát á tilboðum tölvusala sem selja sífellt fullkomnari tölvur á lægra verði í dag heldur en í síðustu viku. Tölvusamskipti hafa á undraskömmum tíma orðið hluti af daglegu lífi fjölmargra Íslendinga. Fjölmiðlar keppast við að lýsa töfrakrafti nýrra tæknimiðla og flytja fréttir af því hvernig tilkoma þeirra hefur gjörbreytt aðstæðum og snert líf fólks á næstum öllum sviðum, bjargað sjúkum börnum, fært elskendur saman, rofið einangrun, aukið viðskipti og auðveldað alls konar þekkingarleit.

Umfjöllun og fréttir um tæknina eru oftast  jákvæðar og mikil bjartsýni virðist ríkja í samfélaginu á að upplýsingabyltingin muni færa með sér ný tækifæri, bætt lífsskilyrði og meiri auðsæld. Sérstaklega virðast bundnar  vonir við að samkeppnisstaða Íslands batni við nýja tölvusamskiptatækni og landfræðileg staðsetning verði minni hindrun en áður í milliríkjaviðskiptum. Íbúar í dreifðari byggðum landsins búast við að með nýrri tækni skipti staðsetning  ekki eins miklu máli og áður og  þeir geti stundað vinnu eða sótt menntun og þjónustu utan heimabyggðar gegnum tölvunet. Þær fáu áhyggjuraddir sem heyrast beinast fyrst og fremst að því að menn eru hræddir um að ná ekki að tileinka sér tæknina nógu fljótt og vel og missa þannig af lestinni inn í framtíðarsamfélagið. Einnig óttast almenningur þá ringulreið og stjórnleysi sem ríkir í netheimum og þann ósóma sem þaðan getur borist.

En hvernig hefur þróunin á atvinnumarkaði verið? Á uppgangstímum eins og nú standa yfir á Íslandi  þá verðum við vör við gífurlega eftirspurn eftir tölvumenntuðu fólki og nú er áberandi skortur á fólki með tölvuþekkingu og reynslu. Við sjáum líka að í fyrirtækjum og stofnunum er mikið fjárfest í tölvubúnaði og upplýsingakerfum og alltaf verða fleiri þættir þjónustu og framleiðslu sjálfvirkari.

Í daglega lífinu verðum við vör við hvernig starfsemi stofnana  eins og bókasafna, banka, fjölmiðla og skólastofnana hefur gerbreyst. Oft virðist hefðbundin starfsemi rekin áfram með óbreyttum hætti en til viðbótar kemur ný tæknivædd þjónusta svo sem heimabankar og hraðbankar, fréttavefir, útlán á geisladiskum og aðgangur að stafrænum gagnabönkum og fjarnám gegnum tölvunet. Við sjáum að sum störf eru að hverfa og ný að koma í staðinn. Við sjáum til dæmis að í bankakerfinu mæðir núna minna á gjaldkerum þegar rafræn viðskipti verða algengari en í bankana eru komin ný störf, þjónustufulltrúar sem sjá um fjármálaútreikninga fyrir viðskiptavini.

Framleiðslustörf eru ekki eins sýnileg almenningi og störf í bönkum og verslunum. Við verðum þó vör við aukna tölvutækni í framleiðslugreinum, sjáum hvernig tölvustýrðar vogir og tæki hafa á undanförnum árum bætt hráefnanýtingu og gæði í sjávarútvegi og hvernig tölvusamskiptatækni hefur breytt aðstæðum hjá fiskiskipum sem sigla með aflann og á fiskmörkuðum. Vélarnar í framleiðslu verða sífellt sjálfvirkari og mannshöndin kemur alltaf minna að framleiðslunni.

Í rækjuverksmiðju á Vestfjörðum er vél sem kölluð er Kvennabaninn vegna þess að hún afkastar eins miklu og 500 konur gerðu  áður í rækjuvinnslu, nú þarf aðeins nokkrar konur til að fylgjast með framleiðslunni sem kemur úr vélinni. Við sjáum líka færast í vöxt alsjálfvirkar verksmiðjur sem geta verið mannlausar  þar sem hægt er að fjarstýra öllu annars staðar frá. Nýja stöðvarhúsið á Nesjavöllum er dæmi um svoleiðis verksmiðju, enginn þarf að búa þar að staðaldri því öllu er hægt að stýra úr stjórnstöð í Reykjavík.

Sumar breytingar sem við tökum eftir í íslensku atvinnulífi tengjum við ekki beint við upplýsingabyltinguna en þegar grannt er skoðað þá er það ný tölvu- og samskiptatækni sem gerir fyrirtækjum kleift að gera breytingar eða þau ráðast í það vegna breyttra samkeppnisaðstæðna sem stafa einmitt af þeim tæknibreytingum sem nú ganga yfir í heiminum. Við sjáum hvernig fyrirtæki hagræða og sameinast öðrum eða sundrast og við sjáum hvernig sumir starfsmenn breytast úr launþegum í verktakar. Við sjáum líka hvernig vinnslan í sjávarútvegi hefur flust bæði út á sjó eða  burt úr þorpunum með afleiðingum  fyrir mannlífið eins Bubbi Mortens lýsir svo vel í nýlegu lagi.

Við skulum skoða spádóma um hvernig vinnumarkaður í upplýsingasamfélaginu verður og hvers konar færni starfsmenn þurfa að hafa á vinnumarkaði í dag.

Einn þekkur spámaður á þessu sviði er Ian Angell prófessor við LSE. Spádómar hans eru ansi ógnvekjandi og hlutverk hans minnir svolítið á hagfræðinginn Maltus sem einnig málaði framtíðina dökkum litum á tímum iðnbyltingarinnar en spádómar hans rættust sem betur fer alls ekki. Margar af greinum Ian Angell má nálgast á Netinu (Listi yfir greinar eftir Ian Angell) og einni hef ég snúið  á íslensku en hún fjallar um hvernig samruni tölvu og fjarskiptatækni breyta vinnumarkaðinum.
Í greininni Winners and Losers in the Information Age eftir  Professor Ian Angell sem birtist í lesbók Morgunblaðins 27. janúar 1996 í  þýðingu Glúms Baldvinssonar lýsir Ian Angell vinnumarkaði svo:

"Fyrirtæki framtíðarinnar munu sannanlega verða hnattræn; þau munu flytjast (með hefðbundnum leiðum eða í gegnum tölvunet) þangað sem hagnaðurinn er mestur og reglugerðarfarganið minnst.
..........
"Í ljósi þessarar fjarskipta- og samskiptabyltingar hefur Peter Drucker sett fram athyglisverða spásögn. Hann segir að mannkynið sé á góðri leið með að skiptast í tvenns konar atvinnuflokka: mennta-, menningar- og kaupsýsluúrval (hreyfanlegir og sjálfstæðir þekkingarstarfsmenn) og afganginn (óhreyfanlegir og staðbundnir þjónustustarfsmenn, sem eru upp á aðra komnir). Robert Reich hefur svipaðar hugmyndir. Hann telur að á upplýsingaöldinni muni fyrirfinnast þrír flokkar: Rökgreiningarþjónusta (þekkingarstarfsmenn sem koma auga á vandamálin, leysa þau og versla með lausnirnar), persónuleg þjónusta og hefðbundin fjöldaframleiðsla á vörum. Starfsmenn í síðasttöldu tveimur flokkunum er nokkurn veginn hliðstæðir þeim sem Drucker flokkaði sem þjónustustarfsmenn."


Hvers konar færni er sóst eftir hjá starfsmönnum á upplýsingaöld
 

Viðskiptaumhverfið verður sífellt alþjóðlegra og nýir viðskiptahættir og tækni breyta hratt störfum. Það verður algengara að starfsmenn breytist úr launþegum í verktaka. Aldrei áður hefur verið eins mikilvægt að halda sér stöðugt við í starfi og læra ný vinnubrögð. Það er  líklegt að einföld verksmiðjustörf sem ekki eru gerð sjálfvirk flytjist til svæða þar sem vinnuafl er ódýrast en að þörf á vel menntuðu vinnuafli vaxi enn frekar. Hátæknigreinar þurfa forritara, kerfisfræðinga, hönnuði og ýmis konar tæknimenntað starfsfólk sem heldur vel við kunnáttu sinni. Til að mæta þessari þörf þarf stórauka fjarkennslu sem notar tæknimiðla.

Valdakerfið á vinnustöðum verður nú flatara og millistjórnendum fækkar. Litlar sjálfstæðar viðskiptaeiningar eru stofnsettar og þær  tengjast öðrum einingum á ýmsan hátt svo sem í vef eða neti. Hópvinna verður sífellt mikilvægari fyrir ákvarðanatöku.

Margbreytileiki vinnumarkaðar verður meiri og því fylgir  sveigjanleiki í hvernig fólk vinnur. Eins verður vaxandi hluti vinnuafls fólk af erlendum uppruna og algengara verður að starfsmenn vinni heima hjá sér í verktakavinnu. Sveigjanlegur vinnutími, hlutastörf og fjarvinnsla munu færast í vöxt. Það er þörf á almennri en hagnýtri grunnmenntun og þeir sem hafa færni í fleiri en einni grein standa betur að vígi. Það er líka nauðsynlegt að vera stöðugt tilbúinn að tileinka sér ný vinnubrögð.

Vinnumarkaður framtíðar mun kalla á:


Hvers konar færni þarf starfsmaður framtíðar?
(upptalning byggð á lista frá kanadískri vinnumálastofnun)
 

Svo þarf hann líka að vera:


Salvör Gissurardóttir 9. nóvember 1998
.

Heimildir:
Sigurvegarar og undirmálsmenn Eftir IAN ANGELL Glúmur Baldvinsson þýddi. 27. janúar 1996. - Lesbók Morgunblaðsins