Upplýsingasamfélagið - Skóli

Hugmyndir N. Negroponte
um skólastarf á upplýsingaöld


 


Nicholas Negroponte er frægur spámaður um upplýsingasamfélagið og hann hefur   skrifað marga pistla í WIRED veftímaritið. Hann er bjartsýnismaður sem  telur að upplýsingatæknin muni bæta heiminn.
 


Háskólar hugmyndabrunnar fyrir atvinnulífið

Í einum pisti ræðir hann um hvaðan hugmyndir spretti upp (WIRED 4.01 - Where Do New Ideas Come From?). Þar leggur hann áherslu á að hugmyndir þurfa frjóan akur en líka tíma til að gerjast og ræðir um  hvernig háskólar sem stunda rannsóknir séu hugmyndabrunnur fyrir atvinnulífið. Negroponte ræðir um mikilvægi þess að sjá hlutina frá mismunandi sjónarhorni segir að við hugmyndavinnu í hóp sé mikilvægt að starfslið sé sem ólíkast, það verði óhjákvæmilega árekstrar og misskilningur en upp úr þeim spretti ný sýn og nýjar hugmyndir.

Litlir sveitaskólar

Í öðrum pisli ræðir Negroponte um skólann og hvernig hann undirbýr nemendur undir líf og starf í upplýsingasamfélaginu (WIRED 6.09 - One-Room Rural Schools). Þar fjallar hann um hvernig þróunarlönd horfi til Vesturlanda og reyni að herma eftir skólakerfi þeirra. Hin dapurlegu sannindi eru hins vegar að skólahugmyndir Vesturlanda eru mótaðar af iðnaðarsamfélagi sem leitast við að framleiða vitsmuni og gáfur barna eins og bíla á færibandi: Kennsla er stigskipt, endurtekið ferli sem er njörvað niður eftir  námskrá og aldri. Hann leggur áherslu á að aldursblöndun í skólum sé  grundvallarbreyting sem við þurfum að taka inn þegar við endurskoðum hugmyndir okkar um  skólann.

Negroponte ræðir um litla sveitaskólann þar sem er einungis ein skólastofa. Slíkur skóli byggir á þeirri hugmynd að börn skuli stunda nám eins nærri heimabyggð og mögulegt er. Hann segir að þessi skólagerð einkenni hugsanlega meira en helming grunnskóla á jörðinni og hafi einu sinni verið talin endurspegla fátækt og aðstöðuleysi. Hins vegar sé þessi skólagerð  ekki vandamál en geti vel verið lausnin. Í litlum einnar stofu skólum er hægt að búa til staðbundið, persónulegt námsumhverfi sem byggir á samkennslu og það getur veitt  ríkari námreynslu en stórir borgarskólar.

Hann gefur stjórnmálaleiðtogum í þróunarlöndum þau ráð að taka upp menntastefnu sem leggur áherslu á stafræna tækni á neðri skólastigum, sérstaklega í fátækustu og afskekktustu byggðalögunum. Markmiðið sé ekki að auka árangur sem mælist á samræmdum prófum eða að flytja byggð út í strjálbýlið, þó að það geti verið aukaafurðir. Aðgangur er hér lykilatriði. Negroponte spáir því að LEOs (Low Earth orbit satellites) muni á næstu fimm árum gerbreyta möguleikum á aðgangi í fátækum og afskekktum byggðum. Hann segir frá hvernig fyrsta slíka kerfið, Iridium hefur starfsemi í september 1998 með 66 gervitunglum sem muni þjóna jörðinni eins og eitt tölvusamskiptanet. Hann telur að lækkandi tölvukostnaður og aukinn aðgangur muni gera kleift að ná til allra skóla, hversu litlir og afskekktir sem þeir eru.

Negroponte segir í einum pistli í Wired frá verkefni þar sem börn frá mörgum löndum ræða hvernig upplýsingaöldin hefur áhrif á líf þeirra og halda Junior Summit.

Salvör Gissurardóttir tók saman í nóvember 1998