c Copyright Elsa E. Guðjónsson 1999. Hvers konar afritun og/eða sala á textanum í heild eða að hluta er óheimil nema að fengnu skriflegu leyfi höfundar.

Í vinnslu nóv. 99 - myndir vantar inn - myndaskrá

Elsa E. Guðjónsson

ÍSLENSKIR ÞJÓÐBÚNINGAR KVENNA NÚ Á DÖGUM

Þjóðbúningar kvenna nú á dögum eru einkum með fernu móti: upphlutur, peysuföt, skautbúningur og kyrtill. Þrír hinir fyrst töldu eiga sér rætur að meira eða minna leyti í búningum íslenskra kvenna allt aftur til 16. aldar. Öðru máli gegnir um kyrtilinn. Honum fylgir að vísu sami höfuðbúnaður og skautbúningnum, en að öðru leyti er hann nýgervingur frá 1870, tilraun til að endurskapa "fornbúning," ef svo má segja, sem hæfa mætti konum á seinni hluta 19. aldar.

Flíkin upphlutur, þ. e. ermalaus bolur, var partur af faldbúningi kvenna fyrir miðja 19. öld, og nokkurs konar lífstykki undir peysunni, stakkpeysunni, fram eftir öldinni. Þegar konur voru léttklæddar við vinnu voru þær að ofan í upphlut yst fata - slepptu treyjunni eða peysunni - en ekki töldust þær þá fullklæddar. Upphlutur í merkingunni búningur fór hins vegar ekki að ryðja sér til rúms fyrr en eftir aldamótin 1900. Náði hann ekki verulegri útbreiðslu fyrr en á þriðja áratug tuttugustu aldar, og fram yfir miðja öldina tóku eldri konur peysuföt fram yfir upphlut er þær klæddu sig upp á.

Þess misskilnings gætir æði oft í seinni tíð að Sigurður málari Guðmundsson (1833-1874) hafi hannað búninginn upphlutur, og er þá gjarnan sagt að það hafi verið um 1850. Sigurður hafði þó ekki afskipti af íslenskum búningamálum fyrr en með grein í Nýjum félagsritum 1857: "Um kvennbúnínga á Íslandi að fornu og nýju." Eftir að Sigurður settist að í Reykjavík alkominn heim frá Kaupmannahöfn 1858 vann hann, þegar fyrir lok ársins 1859, að breytingum á gamla faldbúningnum þannig að úr varð skautbúningur með því sniði sem haldist hefur síðan. Þá hannaði hann, árið 1870, léttari faldbúning, svonefndan kyrtil, sem hafa mátti til dansleikja og sem enn fremur var hafður sem brúðarbúningur og fermingarbúningur.

Einu afskiptin sem Sigurður hafði af upphlut, og þá af flíkinni með þessu nafni, eru þau að hann lét í ljós áhyggjur af því að upphluturinn væri að hverfa og "í stað hans kominn ljótr leggíngalaus bolr, mylnulaus og eyðilegr," eins og hann komst að orði í ofannefndri grein. Mæltist hann til þess að konur hefðu fallega upphluti sem þær gætu sýnt til dæmis "inni í húsum eða á sumrum, þegar þær þurfa ekki peisu eða treyju." Á teikningu eftir Sigurð sem til er í Þjóðminjasafni Íslands sést fólk við vinnu í baðstofu; af þremur konum þar er ein léttklædd: í upphlut með millum og borðum, en hinar tvær fullklæddar á peysufötum.

UPPHLUTUR.

Búningurinn upphlutur dregur nafn sitt af ermalausa reimaða bolnum sem er aðaleinkenni hans. Hann er nú algengastur íslenskra þjóðbúninga (1. - 4. mynd).
Aðalhlutar upphluts eru þessir:

- Upphluturinn (bolurinn) er úr svörtu klæði. Framan á honum eru svartir flauelsborðar með hvítri eða gylltri baldýringu, eða þá borðaskrauti smíðuðu úr silfri. Átta millur eru á borðunum, fjórar á hvorum barmi, ásamt reim (festi) og nál (millunál, reimanál), allt úr silfri, hvítu eða gylltu. Er reimin fest í efstu millu og reimað í kross niður og upp, en einnig má festa reimina í neðstu millu, og er þá reimuð einföld reiming upp. Á baki er tvær sveigðar leggingar frá miðjum handvegi niður að mitti, og aðrar tvær leggingar, beinar, á axlasaumum; leggingar þessar eru allar úr svörtum flauelsböndum og vírkniplingum. Svartar bryddingar eru um hálsmál og handvegi.

- Skyrtan (upphlutsskyrtan) er helst hvít eða ljósleit, ógagnsæ, með löngum ermum, rykktum eða felldum undir hnepptri líningu, oft með ermahnöppum úr silfri. Hálsmál geta verið með ýmsu móti, með eða án kraga. Brjóstnál úr silfri er á skyrtunni framanverðri.

- Pilsið sem er krækt eða hneppt upp á upphlutinn, er úr svörtu klæði eins og hann, skósítt, fellt undir streng frá vinstri til hægri, þéttfellt að aftan, minna fellt á mjöðmum, en slétt að framan. Pilsið er með 30 cm breiðu skófóðri.

- Svuntan er með ýmsum litum, gjarnan dúksvunta, þ. e. úr handofinni lipurri ullareinskeftu, langröndóttri eða köflóttri, eða úr látlausu silki eða silkilíki. Hún er felld undir streng frá vinstri til hægri séð að framan, og er strengurinn hnepptur með tölu aftan við hægri mjöðm. Hæfilegt er að um 15-20 cm bil sé frá svuntufaldi niður á pilsbrún.

- Belti fylgir upphlutnum. Er algengast að það sé úr svörtu flaueli með pörum (beltispörum) og ásaumuðum doppum úr hvítu eða gylltu silfri. Einnig tíðkast svört baldýruð belti með silfurpörum og stokkabelti úr silfri. (Sprotabelti eru aldrei höfð við upphlut.)

- Skotthúfan er svört, ýmist prjónuð úr smágerðu ullarbandi eða saumuð úr flaueli. Hún er með um 25-35 cm löngum skúf úr svörtu silki. Á mótum húfuskottsins og skúfsins er skúfhólkur, úr silfri eða gulli. Húfan er næld við hárið með svörtum títuprjónum með samlitum glerhnúð. Húfuprjóna úr silfri má hafa aftan á húfunni.

- Sokkar og skór. Svartir ógagnsæir sokkar og látlausir svartir skór eru hafðir við upphlutinn.

Kvensilfur, þ. e. millur, reim og nál, smíðaðir upphlutsborðar, ermahnappar, brjóstnál, beltispör og doppur, skúfhólkur og húfuprjónar, er ýmist haft allt hvítt eða allt gyllt, og sama máli gegnir um baldýraða borða og vírkniplinga. Skúfhólkur er stundum úr gulli.

Athugið að upphlutur, pils, belti, húfa og skúfur, svo og sokkar og skór, eru svört.

PEYSUFÖT

Peysuföt draga nafn sitt af einkennisflík búningins, svartri nærskorinni langerma peysu (5. og 6. mynd).

Aðalhlutar peysufata eru þessir:

- Peysan er úr svörtu klæði með svörtu flaueli á börmum og framan á ermum. Á peysunni neðanverðri að aftan er mjótt, smá- og þéttfellt stykki, stakkur (stokkur, stigl) og er peysan stundum nefnd stakkpeysa (stokkapeysa, stigl(i)peysa) eftir því. Peysan er krækt að framan, nema hvað hún er höfð lítið eitt opin yfir brjóstið, og sér þar í hvítt sterkjað peysubrjóst skreytt hvítri blúndu eða útsaumi. Við hálsmál peysunnar er slifsi úr silki; það er hnýtt í slaufu að framan og skreytt með nælu (slifsisnælu). Undir ermarnar framanverðar er venjulega þrædd mjó hvít eða svört blúnda, oft orkeruð.

- Pilsið er með sömu gerð og upphlutspils, úr svörtu klæði og skósítt.

- Svuntan er einnig með sömu gerð og upphlutssvunta, nema hvað strengurinn er hnepptur að aftan með svuntuhnappi úr silfri eða gulli, eða kræktur með litlum svuntupörum úr silfri. (Ekki eru notaðir smíðaðir svuntuhnappar eða svuntupör ef haft er stokkabelti við peysufötin eins og nokkuð hefur tíðkast á síðustu áratugum; en bent skal á að engin hefð er fyrir að hafa belti við peysuföt.)

- Skotthúfan við peysuföt er sömu gerðar og við upphlut.

- Sokkar og skór. Svartir ógagnsæir sokkar og svartir látlausir skór eru hafðir við peysufötin eins og við upphlut.

Athugið að peysa, pils, húfa og skúfur, svo og sokkar og skór, eru svört.

 

SJÖL, slegin sjöl, erlend tíska sem hingað barst á seinni hluta 19. aldar, eru notuð sem yfirhafnir við bæði upphlut og peysuföt (7. og 8. mynd).

- Sjöl hafa verið úr mismunandi þykkum ullarefnum; var greint á milli sumar- og vetrarsjala. Sjöl voru með ýmsu móti, köflótt, röndótt, þrykkt eða útofin með samlitum rósum, og með ýmsum litum, einkum grá, brún eða svört. Viðhafnarsjöl voru alsvört kasmírsjöl með svörtu silkikögri eða frönsk sjöl (Paisley sjöl) símunstruð eða með munsturbekkjum utan með og svörtum grunni í miðju.

SKAUTBÚNINGUR

Skautbúningur er mesti viðhafnarbúningur íslenskra kvenna. Hann dregur nafn af höfuðbúnaðinum sem við hann er borinn, skautinu, skautafaldinum, sem þó oftast er nefndur faldur 9. - 11. mynd).

Upphaf skautbúningsins má rekja til ársins 1857 þegar út kom löng gagnrýnin ritgerð um íslenska kvenbúninga eftir Sigurð Guðmundsson málara (1833-1874) svo sem áður er getið. Setti hann þar fram tillögur um breytingar á eldra hátíðabúningi kvenna, faldbúningnum eins og hann var venjulega nefndur. Féllu breytingartillögur þessar í góðan jarðveg; lét Sigurður enda ekki sitja við orðin tóm heldur hjálpaði konum um myndir, snið og munstur og sagði fyrir um hvernig búningurinn ætti að vera í öllum smáatriðum. Var fyrsti skautbúningurinn kominn í notkun í Reykjavík þegar síðla árs 1859, og hefur haldist síðan svo til óbreyttur.

Aðalhlutar skautbúnings eru þessir:

- Faldur, skaut, skautafaldur. Faldurinn sjálfur, sem einnig er nefndur faldhúfa, er króklaga og fremur lágur. Hann er saumaður úr hvítu lérefti, en tilsniðin lengja úr pappa eða eirþynnu (faldpappi, faldeir) höfð innan í honum ofanverðum. Þá er hann troðinn út með ull eða öðru viðeigandi tróði og fóðraður utan með hvítu smálérefti eða atlasksilki (satíni). Yfir faldinum er blæja, faldblæja, úr hvítu netefni, stundum með hvítum ídregnum saumi og/eða brydd samlitri blúndu, en utan um faldinn neðanverðan er gyllt koffur úr silfri, hlekkjað saman úr stokkum með mismunandi skrautverki, eða gyllt spöng, oftast nær slétt, úr silfri eða látuni. Faldhnútur, breitt hvítt hnýti (slaufa) úr silkiborða er undir blæjunni að aftan til þess að hylja samskeytin á blæjunni og koffrinu eða spönginni.

- Treyjan, skauttreyjan, sem nær niður að mitti, er úr svörtu klæði, aðskorin, með löngum þröngum ermum. Hún er kragalaus, en baldýringin á flauelslögðum treyjubörmunum, oftast gyllt en þó stundum hvít, gengur aftur um hálsinn. Samsvarandi baldýring er á flauelinu framan á ermunum, en mjó pífa úr hvítri blúndu eða netefni er þrædd undir þær framanverðar og um hálsmálið. Tvær sveigðar leggingar úr svörtum flauelsböndum með mjóum vírkniplingum eða vírstímum utan með eru á baki og tvær á axlasaumum, líkt og á upphlutum. Að framan er treyjan krækt, en þó höfð lítið eitt opin yfir brjóstið eins og stakkpeysan, og sér þar í hvítt sterkjað brjóst, útsaumað eða lagt blúndu.

- Samfellan - en svo nefnist niðurhlutur (pils) skautbúnings - er úr svörtu klæði, skósíð, felld undir streng allt í kring og krækt upp á treyjuna. Að neðan er samfellan skreytt mislitum útsaumi, oftast nær ullar- eða silkiskatteringu, en stundum listsaumi, blómstursaumi eða steypilykkju; þá kemur einnig fyrir að á samfellum sé hafður flauelsskurður bryddur stímum eða hún lögð ásaumuðum stímum eingöngu. Uppdrættir á skauttreyjum og samfellum eru oftast bekkir með íslenskum blómum eða öðrum jurtum sem Sigurður málari teiknaði gagngert í þessu augnamiði.

- Stokkabelti, gjarnan sprotabelti, úr samanhlekkjuðum gylltum silfurstokkum er um mittið, ýmist með steyptu verki, víravirki eða jafnvel loftverki, og brjóstnál með líkri gerð við hálsinn. Ennfremur eru stundum hafðir á skauttreyjunni ermahnappar úr gylltu silfri með hliðstæðu verki og á beltinu. Þeir eru oftast tólf, sex á hvorri ermi, tvíhvolfa og með hangandi laufum.

- Skór og sokkar. Svartir ógagnsæir sokkar og svartir látlausir skór eru hafðir við skautbúninginn.

Skreyting á skauttreyju og kvensilfur allt sem skautbúningi fylgir er að jafnaði gyllt; þó kemur fyrir að það er haft hvítt, þ. e. silfurlitt, en sjaldan gyllt og hvítt saman.

Athugið að skauttreyja og samfella, svo og sokkar og skór, eru svört, faldur, faldblæja og faldhnútur hvít.

KYRTILL.

Árið 1870 átti Sigurður Guðmundsson, eins og áður var nefnt, frumkvæði að því að tekinn var upp nýr, léttari og liprari faldbúningur, svonefndur kyrtill, "hér um bil alveg sá forni kyrtill að laginu til" að því er Sigurður skrifaði Jóni Sigurðssyni forseta 7. apríl það ár. Hugsaði Sigurður sér kyrtilinn fyrst og fremst sem dansbúning, en taldi að hann mætti einnig nota sem brúðarbúning og fermingarbúning (12. og 13. mynd).

Aðalhlutar kyrtils eru þessir:

- Faldur. Hann er að öllu leyti eins og faldur skautbúnings.

- Kyrtillinn er úr þunnu lipru ullarefni, smálérefti, silki eða flaueli. Ýmist er hann heill upp og ofan og þá sniðið úr hliðum hans, eða hann er í tvennu lagi, treyja og skósítt pils, og gengur þá treyjan ofan í pilsið sem er rykkt undir streng. Hálsmálið er nokkuð flegið og sniðið þvert fyrir að framan og aftan. Ermarnar ná á miðjan framhandlegg og víkka fram. Mjó hvít blúnda eða pífa er þrædd undir hálsmálið og framanverðar ermarnar. Útsaumur eða skrautleggingar eru í kringum hálsmálið, framarlega á ermum og neðan á pilsinu. Gerði Sigurður málari sérstaka útsaumsuppdrætti á kyrtla, en einnig hefur verið saumað eftir uppdráttum þeim sem hann gerði á skautbúninga. Kyrtillinn er hafður með ýmsum litum; helst vildi Sigurður að hann væri hvítur, en snemma varð algengt að hafa hann svartan og dökkbláan, og vitað er að kyrtlar hafi verið dökkgrænir og jafnvel brúnir.

- Stokkabelti eða sprotabelti er haft við kyrtilinn og brjóstnál við hálsmálið að framan. Er kvensilfur þetta með sama móti og notað er við skautbúning.

- Skór og sokkar. Við hvíta kyrtla eru hafðir hvítir sokkar og skór, en við dökka kyrtla á fótabúnaðurinn að vera svartur.

MÖTTULL. Sigurður Guðmundsson málari átti enn fremur hugmyndina að sérstakri yfirhöfn við skautbúninginn og kyrtilinn. Var það svonefndur möttull (14. og 15. mynd).

- Möttull er fóðruð skikkja (slá) úr svörtu klæði, stundum þó úr flaueli eða vænu silki. Sídd möttuls hefur verið nokkuð breytileg; mun síddin á þessari öld að jafnaði hafa verið á miðja kálfa eða rétt niður fyrir þá, en möttull sá sem Sigurður hannaði var heldur styttri. Oftast er möttullinn bryddur hvítu eða svörtu loðskinni, en Sigurður gerði einnig ráð fyrir útsaumi meðfram brúnum hans og teiknaði sérstök munstur í því augnamiði. Í fyrstu virðist möttullinn yfirleitt hafa verið tekinn saman yfir brjóstið með böndum, en síðar var farið að krækja hann saman með sérstökum möttulspörum úr gylltu silfri.

Sjá nánar um íslenska þjóðbúninga kvenna til dæmis í Elsa E. Guðjónsson, Íslenskir þjóðbúningar kvenna (Reykjavík, 1969). Um starfsemi Sigurðar málara að búningamálum sjá meðal annars Elsa E. Guðjónsson, "`Til gagns og fegurðar.' Sitthvað um störf Sigurðar málara Guðmundssonar að búningamálum," Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1988, bls. 26-31.