Náms- og kennslufræði
Valnámskeið: Náms- og kennslufræði
Fjarskóli - 2. misseri 1999

Einstaklingsverkefni

Geirlaug Ottósdóttir:

The Story of My Life eftir Helen Keller


Árlega er gefinn út fjöldi bóka um kennslu- og uppeldismál og því úr vöndu að ráða þegar velja á eina bók til að fjalla um í stuttu verkefni. Þó vafðist valið ekki fyrir mér í þetta skipti. Ég valdi að fjalla um Helen Keller og kennara hennar, Annie Sullivan. Helen Keller er löngu heimsfræg, daufblinda stúlkan sem braust út úr hljóðlausu myrkri út í birtu lífsins.

Hún komst til mennta og lifði sem heilsteypt, sterk manneskja þrátt fyrir það að hana vantaði bæði sjón og heyrn. Mikið hefur verið talað um ljósið sem skein frá Helen Keller en minna hefur farið fyrir skrifum um ljósgjafa hennar. Þessi ljósgjafi var kennarinn hennar, Annie Sullivan.

Bókin sem hér er fjallað um er ævisaga Helen Keller ásamt bréfum sem hún skrifaði. Í lok bókarinnar er viðbót frá ritstjóra þar sem eru birt bréf Annie Sullivan til vinkonu sinnar og einnig skýrslur sem birtar voru í fréttabréfum Perkins skólans. Bréf og skýrslur Annie Sullivan eru mjög merkileg lesning því þau eru nokkurs konar leiðarbók um kennsluhætti og samvinnu þeirra Helen. Í raun má segja að The Story of My Life sé ekki síður ævisaga Annie Sullivan því líf þessara tveggja kvenna er svo samtvinnað að vart er hægt að tala umaðra án þess að hin komi líka við sögu. Helen Keller kallar daginn sem hún hitti Kennara (en það kallaði hún Annie ævinlega) mikilvægasta dag ævi sinnar. Hún var þá tæpra sjö ára og hafði verið blind og heyrnarlaus frá því hún veiktist illa þegar hún var á öðru ári. Þann 3. mars 1887, þegar Annie kom, urðu þáttaskil í lífi Helen því Annie opnaði henni dyr að samskiptum við annað fólk og dásemdum lífsins. Helen náði litlu sem engu vitsmunalegu sambandi við umhverfi sitt áður en Kennari kom og fjölskylda hennar var ráðalaus. Ef hún fékk ekki vilja sínum framgengt í einu og öllu þá fékk hún æðiskast og eirði þá engu, beit og sló. Annie Sullivan sá strax að hún þyrfti að byrja á því að temja telpuna áður en hún gæti farið að kenna henni nokkuð. Hún var sannfærð um að kennslan yrði að byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu en ekki síst samvinnu milli kennara og nemanda. Annie hafði ekki kennaramenntun og engan til að hjálpa sér eða leita ráða hjá um það hvernig hægt væri að kenna barni sem hvorki hafði sjón né heyrn. Hún varð því að treysta á hyggjuvitið.

Það sem mér finnst áhugaverðast og lærdómsríkast að lesa í bókinni er hvernig Annie tókst að móta barnið Helen og koma henni til þess þroska sem við kynnumst í hinni stórkostlegu konu, Helen Keller. Án Annie hefði ekkert beðið Helen annað en vist á hæli alla ævi. Faðir Helen hafði lagt mjög að konu sinni að senda Helen á hæli í Birmingham en hún streittist á móti því. Engan hefði í upphafi samvinnu þeirra Annie og Helen getað grunað að Helen Keller myndi útskrifast úr háskóla eins og reyndin varð, og það með láði.

Frá fyrsta degi var Annie sannfærð um að hún þyrfti að kenna Helen með því að leyfa henni að upplifa raunverulega hluti og lifandi umhverfi. Hún hafnaði gildandi kennsluaðferðum samtíma síns þar sem allt nám fór fram innan kennslustofunnar og nemendur fengu lítil sem engin tengsl við raunverulega hluti. Hún vildi að Helen lærði með því að upplifa og prófa sjálf. Kennslan fór að miklu leyti fram utan dyra þar sem Helen komst í snertingu við náttúruna og allt umhverfið. Í dag tala kennslufræðingar fjálglega um að nemendur verði að upplifa raunverulegar aðstæður („learning by doing") og telja sig vera að finna upp hjólið! Annie Sullivan uppgötvaði þetta „hjól" suður í Alabama fyrir margt löngu!

Annie greip alltaf aðstæður augnabliksins og notaði þær til að fræða nemanda sinn. Þegar þær voru úti að ganga lét hún vatn renna yfir hendurnar á Helen úr vatnsdælunni. Helen tengdi hreyfinguna sem Kennari gerði í lófann á henni við það sem hún fann &endash; hún skildi fyrsta orðið, fyrsta hugtakið, vatn. Á því augnabliki rann upp fyrir henni að allir hlutir hafa nafn. Helen lærði um mismunandi landslag með því að búa til líkön úr leir og sandi. Þannig uppgötvaði hún að til er hálendi og láglendi. Annie lét einskis ófreistað í viðleitni sinni til að mennta Helen og gera hana sjálfbjarga. Það var alltaf markmið hennar að hún gæti fengið að blómstra sem einstaklingur, ekki sem „aumingja litla blinda og heyrnarlausa stúlkan" .

Hún taldi mikilvægt að Helen fengi að alast upp eins og önnur börn og læra málið í gegnum leik og störf eins og önnur börn gera. Við kennum ekki heyrandi börnum mál í eiginlegum skilningi þess orðs. Þau læra það með því að heyra það í umhverfi sínu. Annie sá að hún yrði að bjóða Helen sömu aðferð en í stað þess að nema málið með því að heyra það urðu hendur hennar að koma í stað eyrna. Annie stafaði sleitulaust í hendurnar á Helen og reyndi alltaf að tengja það sem hún stafaði við eitthvað sem Helen hafði lært áður þannig að hún fengi tengingu við fyrri reynslu. Smám saman lærði Helen málið á þennan hátt. Annie bjó á heimili Keller hjónanna og sá um Helen dag og nótt. Það sér því hver maður í hendi sér að hún hefur haft ærinn starfa. Bókin lýsir því hvernig samband þeirra þróaðist í einlæga vináttu og væntumþykju.

Í dag er mikið talað um að nemendur eigi að fá að læra á eigin forsendum (sjá t.d. nýútgefna Aðalnámskrá grunnskóla). Stundum læðist að manni sú hugsun að þessar yfirlýsingar séu einungis skraut í hátíðarræðum stjónrmálamanna. En Annie hvikaði aldrei frá þessari hugsjón. Hún lifði kenninguna í orðsins fyllstu merkingu þó engan hafi hún haft kennarann eða fræðinginn til að orða hana fyrir sig. Hún tók við Helen á hennar forsendum og leyfði forvitni hennar að miklu leyti að stjórna því í hvaða átt kennslan stefndi frá degi til dags. Hún skildi hve mikilvægt það var að viðhalda forvitni Helen og því var hún óþreytandi að svara endalausum spurningum hennar um lífið og tilveruna.

Kennsluaðferðir Annie Sullivan hafa verið í hæsta máta framúrstefnulegar og bera vott um mikið mannvit og mannskilning ungrar konu sem hafði enga möguleika á því að undirbúa sig undir það verkefni sem átti eftir að verða ævistarf hennar. Ef nokkur kennari efast um mikilvægi starfs síns ætti hann að kynna sér hvaða áhrif Annie Sullivan hafði á líf nemanda síns.

Annie Sullivan var trú skjólstæðingi sínum og helgaði líf sitt því að koma Helen til mennta og styrkja hana til sjálfstæðis. Hún gerði hins vegar lítið úr eigin þörfum, setti sjálfa sig reyndar alveg til hliðar. Helen var það eina sem skipti hana máli. Auðvitað má deila um slíka fórnfýsi en Annie talaði aldrei um ævistarf sitt sem fórn.

Ef við viljum freista þess að skilja konuna og kennaarann Annie Sullivan þurfum við að virða fyrir okkur barnið Annie Sullivan. Þá skilst hvað knúði hana. Annie ólst upp við ólýsanlega fátækt hjá berklaveikri móður og drykkjusjúkum föður. Þegar móðir hennar dó hvarf faðirinn og Annie var send ásamt bróður sínum, Jimmy á fátækrahæli ríkisins. Þar átti hún ömurlega vist. Stuttu eftir að þau komu á hælið dó bróðir hennar sem hún elskaði heitt. Hún fékk augnsjúkdóminn tracoma, sem leiddi til þess að hún missti nær alveg sjónina. Það varð henni til bjargað að eftirlitsmaður frá heilbrigðiseftirlitinu kom á hælið vegna kvartana frá nágrönnunum. Annie sat fyrir honum og fylgdarliði hans, stökk fram þegar hópurinn nálgaðist og grátbað hann um að hjálpa sér að komast í skóla. Hann kom því til leiðar að hún var send á Perkinsskólann í Boston sem var og er enn mjög virtur blindraskóli. Á þessum tíma var hann eingöngu fyrir yfirstéttarbörn. Annie var í skólanum, sem var heimavistarskóli, fram á fullorðinsár og ávann sér virðingu bæði kennara og nemenda. Þegar faðir Helen skrifaði Anagnos skólastjóra bréf og spurðist fyrir hvort hægt væri að útvega kennara fyrir Helen varð Annie fyrir valinu. Þá hafði verið gerð aðgerð á augunum sem gaf henni sjónina að nokkru leyti aftur. Sverð blindunnar hékk þó yfir henni alla ævi. Annie leit á kennsluna sem tækifæri lífs síns og var staðráðin í að standa sig. Helen auðsýndi hún allan þann kærleik sem bróðir hennar hefði fengið hefði hann lifað af þessar hörmungar. Samband Annie og Helen var því meira en samband nemanda og kennara, það var einstakt kærleikssamband tveggja kvenna sem báðar höfðu misst mikið. Þær voru hvor annarri í raun haldreipi.

Helen Keller bar mikla virðingu fyrir kennara sínum og þótti mjög vænt um hana. Þegar hún var orðin fullorðin auðnaðist henni að gera sér grein fyrir þeirri blessun sem Annie Sullivan var henni. Hún segir sjálf um Annie að „þegar hún kom fékk líf mitt innihald, gleði og kærleika" (bls.38-39).

Mig langar að vekja máls á því að ég tel að umfjöllun um kennsluaðferðir Annie Sullivan og viðhorf hennar til nemanda síns ættu fullt erindi í námsefni Kennaraháskóla Íslands. Ég fæ ekki séð að önnur eða betri „hjól" hafi verið fundin upp en „hjól" Annie Sullivan sem byrjaði ævistarf sitt fyrir um það bil einni öld.

Ég hef verið að fjalla um bókina „The Story of My Life" eftir Helen Keller. Hún aðeins ein af mörgum merkilegum bókum sem hafa verið skrifaðar um einstakt lífshlaup tveggja kvenna og samstarf kennara og nema sem entist meðan báðar lifðu (sjá t.d. bókina „Teacher, Annie Sullivan Macy " eftir Helen Keller og „Helen and Teacher" eftir Joseph P. Lash). Ævisaga Helen Keller ber einstökum kennara fagurt vitni og er holl lesning öllum sem hyggjast gera kennslu að ævistarfi sínu.

Heimild:

Keller, Helen. 1912. (John Albert Macy ritstj.). The Story of My Life. London: Hodder & Stoughton.


Aftur í yfirlit