Ingvar Sigurgeirsson:

Agavandi í skólum. Hvað vitum við? Ávarp flutt á fundi fræðslunefndar Sjálfstæðisflokksins 22.2. 1999.

Ágætu gestir,

Fyrir nokkru höfðu þeir samband við mig þeir Jónmundur Guðmarsson og Helgi Árnason og báðu mig um að segja nokkur orð um agavanda í grunnskólum.

Ég ákvað að taka þetta að mér; ekki endilega vegna þess að ég hafi eitthvert sérstakt vit á agamálum - ég er enginn sérfræðingur í þeim efnum - en mig langaði til að leggja hér eitthvað af mörkum. Ástæða þess er líklega einkum tvíþætt. Annars vegar hefur mér mislíkað sú neikvæða umræða sem skapast hefur um þessi mál að undanförnu. Hins vegar líklega vegna þess að atvik hafa hagað því þannig að ég er líklega í þeirri stöðu að hafa séð - með eigin augum - meira af skólastarfi á Íslandi en flestir aðrir.

Í rúman aldarfjórðung hef ég all reglulega heimsótt skóla og setið í kennslustundum. Þær kennslustundir sem ég hef fylgst með skipta orðið einhverjum þúsundum.

Í fjögur ár var ég námstjóri í menntamálaráðuneytinu og fór þá talsvert á milli skóla og fylgdist með kennslu. Það var í kringum 1980.

Á árunum 1987-1988 - í tvö heil skólaár - ferðaðist ég á milli skóla í tengslum við rannsóknarverkefni sem ég var þá að glíma við og fylgdist með kennslu. Ég sá um 150 kennara spreyta sig við kennslu og fylgdist með vel á annað þúsund kennslustundum. Oft sat ég í hálfan mánuð í sömu bekkjardeild.

Síðan 1993, eða undarfarin sex ár, hefur það orðið hlutskipti mitt „að taka út skóla" eins og það er kallað. Ég hef unnið við að meta skólastarf, ýmist að ósk starfsfólks, foreldra eða sveitarstjórna. Ég og samstarfsfólk mitt höfum heimsótt fjölda skóla og átt trúnaðarsamtöl við nemendur, fulltrúa foreldra, kennara, skólastjóra og annað starfslið, skólanefndarmenn, hreppsnefndarmenn, starfsfólk sveitarfélaga, sveitarstjórnarmenn, lögreglumenn og ótal einstaklinga. Við höfum setið í kennslustundum og fylgst með því sem fram fer. Við höfum oft komið fyrirvaralaust. Í einu tilviki gekk ég í hálft ár með lykil að skóla úti á landi. Við höfum einnig lagt nafnlausa spurningalista fyrir nemendur, kennara og foreldra. Við höfum m.a. spurt talsvert um agamál, vinnufrið í kennslustundum, samskipti og einelti.

Þeir skólar sem ég hef sjálfur tekið beinan þátt í að meta með þessum hætti eru nú að nálgast tuttugu.

Þessi reynsla hefur vakið mig mjög til umhugsunar, m.a. um aga og skólabrag.

Það er vandi að tala um agamál. Það er sérstakur vandi að gera það á 15 til 20 mínútum. Agi er viðkvæmt mál. Það er líka vandi vegna þess að öll þykjumst við vita heilmikið um þetta efni. Öll höfum við gengið í skóla og eigum mörg okkar eða þekkjum börn sem ganga eða hafa gengið í skóla.

Það fyrsta sem mig langar til að undirstrika er að það er e.t.v. ekki allt sem sýnist og að þetta mál hefur margar hliðar.

Vissulega er agavandi víða í skólum og hann er sums staðar alvarlegur. Samt er ég þeirrar skoðunar að staðan sé ekki eins slæm og við viljum vera að láta. Ástandið er áreiðanlega betra en fjölmiðlaumræðan gefur til kynna. Það er eins með agavandann og ofbeldið í samfélaginu - þetta eru auðvitað eitthvað skyld mál - er það ekki? Við vitum að ofbeldi hefur ekki aukist. Það hefur á hinn bóginn fréttaflutningur af ofbeldi gert. Hann hefur stóraukist (Helgi Gunnlaugsson 1996, tilvísun í Þórólfi Þórlindssyni og Jóni Gunnari Bernburg 1996: 13). Við höldum öll að ofbeldi hafi aukist (sama tilvísun) en þegar gengið er í skýrslur lögreglu og slysadeilda kemur annað á daginn. Kannski hafa viðhorf okkar einnig breyst, t.d. þolmörk okkar. Taka má sem dæmi að það sem áður var kallað „að tuskast" og var talið eðlilegur hluti af lífi stráka heitir nú líklega slagsmál eða barsmíðar. Viðhorf okkar til þess sem er eðlilegt eða leyfilegt eru líka ólík. Ég átti um skeið börn í skóla í Toronto í Kanada þar sem snjóar gríðarlega yfir vetrarmánuðina. Það var brottrekstrarsök úr skóla að kasta snjóbolta. Það var vissulega vandi fyrir lítinn Íslending.

Auðvitað eru agavandamál í grunnskólum eins og alls staðar í samfélaginu. Við búum í agalitlu samfélagi. Hér nægir að nefna svarta markaðinn, skattsvikin, braskið, fjölmiðlafárið, umferðina, miðborgina um helgar, agaleysið í opinbera kerfinu. Það er agaleysi víða í skólum - en það er ekki - þegar á heildina litið alvarlegasta agaleysið sem við er að glíma í þessu samfélagi.

Af því að þetta ávarp er flutt á samkomu hjá stjórnmálaflokki langar mig að taka dæmi af vettvangi sem tengist stjórnmálunum - raunar úr miðju þeirra - af sjálfu Alþingi.

Ef við ættum að dæma af því sem okkur gæti sýnst af störfum Alþingis eins og það blasir við okkur er þar við verulegan agavanda að stríða. Ég hef margkomið á þingpalla og fylgst með umræðum - og að sjálfsögðu hef ég eins og aðrir séð beinar útsendingar í sjónvarpi (og oftar nákvæmlega tilsnyrt fréttaskot sem greinilega eru til þess ætluð að sýna okkur ósvinnuna!). Ég - eins og þið - hef séð ræðumenn flytja ræður yfir tómum bekkjum. Í gættinni nokkrir þingmenn að gantast. Eiga menn virkilega ekki að vera viðstaddir í salnum? Ég hef séð ráðherra í þessum sporum. Hann var að flytja mikilvæga skýrslu. Enginn þingmaður í salnum. Einn í dyragættinni. Sá var fyrrverandi ráðherra í sama málaflokki. Úr hliðarsal bárust hlátrasköll. Hvað höfum við ekki oft séð þingforseta reyna að hafa hemil á þingmönnum sem eru gjammandi frammí hver fyrir öðrum - farandi niðrandi orðum um náungann - og a.m.k. miðað við mínar kurteisisreglur - hafandi jafnvel hreinan dónaskap í frammi.

Auðvitað er þetta ekkert annað en agaleysi. Eða hvað - er kannski ekki allt sem sýnist.

Þrátt fyrir það sem við blasir vitum við mörg, að þegar grannt er skoðað kemur í ljós, að á Alþingi er unnið merkt starf. Þar vinna margir myrkranna á milli. Og hver sá sem t.d. heimsækir hið stórmerka vefsetur Alþingis á Netinu kemst að raun um hve afkastamikil og merkileg þessi stofnun er - þrátt fyrir allt. Það er ekki allt sem sýnist. Ætli það sé einhver regla í óreglunni? Og ætli það vanti ekki eitthvað upp á að við höfum alla myndina. Ég er ekki frá því að hið sama gildi um marga skóla. Skólar eru vissulega miklu opnari nú en áður var og almenningur kemur þar meir en áður. En við sjáum ekki allt sem þar fer fram. Og ekki er víst að við skiljum allt og túlkum með sama hætti og þeir sem þar lifa og hrærast.

Í skólum eru flestir að leggja sig fram. Ekki allir. En yfirgnæfandi meirihluti kennara er mjög hæft fólk sem ræður vel við starf sitt. Það eru undantekningar - þar sem annars staðar. Af þeim 150 sem ég sá kenna á árunum 1987-1988 voru þrír til fimm sem ég hefði ráðlagt að finna sér eitthvað annað að gera. Það eru nokkrir sem ekki standa sig í stykkinu - og það virðast þeir fá þeir að gera áfram - árum og jafnvel áratugum saman. Hið sama virðist því miður einnig gilda um þá skólastjóra sem ekki reynast starfi sínu vaxnir. Þeir bara sitja áfram.

Einn vandi skólans eins og líklega flestra opinberra stofnana er að hann hefur sáralítið aðhald þegar kemur að innra starfi og afrakstri. Það þarf nánast saknæmt atferli - til að þar verði hreyft við nokkrum hlut. Það vantar nánast allt eftirlit með skólastarfi.

Mig langar að undirstrika að í lang flestum skólastofum þar sem ég hef fylgst með kennslu er ágætur bragur - oft mjög góður. Það er oftast notalegt andrúmsloft. Flest börn virða kennara sína - og hlýða þeim. Þykir jafnvel vænt um þá. Ég hef í viðtölum beðið nemendur að gefa kennurum sínum einkunnir. Þeir fá flestir háar einkunnir. Einkum hafa margir nemendur mætur á umsjónarkennurum sínum. Sá ágæti karl eða kona getur verið óvinsælastur kennara í öðrum bekkjum en í umsjónarhópnum sínum er hann oftast í miklum metum - talinn besti kennarinn. Það eru áreiðanlega þessi persónulegu tengsl sem þar ráða úrslitum. Þau þarf einmitt að styrkja í skólum og viðurkenna sem eðlilegan hluta skólastarfsins.

Ég veit að foreldrar hafa miklar áhyggjur af aga í skólum. Til umhugsunar vekur eftirfarandi dæmi.

Foreldrar í skóla nokkrum voru spurðir hver væri skoðun þeirra á á aga í skólanum?

(Fjöldi=287)

%

Skemmst er frá því að segja að þetta eru mestu áhyggjur foreldra af aga sem mælst hafa í könnunum okkar. Þessir sömu foreldrar voru einnig spurðir um skoðun sína á aga í bekknum hjá barninu sínu. Þá birtist talsvert önnur mynd.

%

Eins og sjá má eru þetta mun jákvæðari niðurstöður en þegar spurt var um mat á aga í skólanum (sjá hér næst á undan). En það er sem sagt miklu betri agi í bekkjunum heldur en í skólanum! Næsta mynd sýnir þennan samanburð betur:

 %

Mér finnst þessar niðurstöður renna nokkrum stoðum undir það sem ég er að leggja áherslu á - að agi sé eitthvað betri í skólum en við viljum oft vera að láta og að það komi í ljós þegar grannt er skoðað.

Anna Kristín Sigurðardóttir (1996) gerði á árunum 1994 til 1995 ítarlega athugun á agastjórnun í tveimur grunnskólum á Suðurlandi. Hún segir m.a. um niðurstöður sínar:

... alvarleg agabrot virðast fremur fátíð og bundin við fá fáa nemendur eða færri en ég og kennarar höfðu hefðu almennt talið fyrirfram. (bls. 8)

Þessi niðurstaða hennar kemur heim og saman við mínar. Þegar grannt er skoðað er sú mynd sem kemur í ljós heldur bjartari en sú sem blasir við fyrst. Flestir nemendur eru prúðir í skólanum, a.m.k. þegar þeir eru undir eftirliti fólks sem ræður við starf sitt. Vissulega er talsverður kynjamunur. Fleiri stúlkur en piltar hegða sér vel, og leggja sig meira fram. Ég hef orðið talsverðar áhyggjur af strákum í íslenskum skólum. Mjög algengt er að þeir séu lengi að koma sér að verki og eru allt of margir afkastalitlir. Mörgum kennurum reynist erfitt að fá þá til að koma sér að verki og í kringum það skapast oft leiðindi. En það kann hins vegar vel að vera að við þurfum að endurskoða eitthvað eðli þeirra viðfangsefna sem við erum að leggja hvað mesta áherslu á í skólum. Kannski þurfum við líka oftar að hugsa til þess að í skólum eru allir nemendur í sömu bekkjardeild oftast að gera það sama - á sama tíma. Sömu kröfur eru gerðar til allra og allir eru mældir á sömu stikunni. Viðfangsefnin eru einhæf. Vinnubækur, einnota eyðufyllingabækur, eru nú mjög í tísku. Nemendur glíma við að fylla í fyrirframgerða reiti blaðsíðu eftir blaðsíðu, eins og markmið skólastarfs sé öðru fremur að ala upp fólk sem á eftir að verja mest allri ævinni í að fylla út eyðublöð og skýrslur. Þáttur skapandi starfs, verklegra viðfangsefna, heimildaleitar, sjálfstæðra verkefna, verkefna sem reyna á skilning og hugsun, frjóa hugsun, innsæi - þáttur samstarfsverkefna, agaðra umræðna, leikja, vettvangsfræðslu, safnkennslu - þáttur starfs af þessu tagi er allt of rýr. Allt of stór hluti skólastarfs er fólginn í einæfum, skriflegum verkefnum. Við þurfum að fela nemendum meiri ábyrgð. Einstefnumiðlun og mötun gengur allt og langt á öllum skólastigum.

Þetta er mér sérstaklega hugleikið þegar um unglinga er að ræða. Ég hef komið í skóla og fylgst með kennslu á unglingastigi þar sem hópur nemenda var hættur að læra. Þau koma í skólann. Sum trufla - en önnur eru jafnvel til friðs - jafnvel búin að gera einhvers konar vopnahléssamninga við kennarana. Meðan þeir tala frá töflunni - hvíslast þessir nemendur á í hálfum hljóðum - lesa sunnlenska fréttablaðið eða Víkurfréttir, fletta Andrési Önd eða spila. Yfirgefa jafnvel skólastofuna og læðast fram - læðast inn aftur - óátalið - án þess að hafa beðið um leyfi. Virðast raunar sum hafa gengið slíkt rápleyfi ótakmarkað. Þetta er auðvitað undantekning. Þetta er lítill hópur, en af honum hef ég alvarlegar áhyggjur og tel að á vanda hans verði að taka. Þennan hóp hittum við fyrir í skólum út um allt land. Hér verða menn að taka höndum saman. Kannski eru það myndir eins og þessar sem gera það að verkum að fólki finnst að aga í skólum sé að stórfara aftur.

Ég er sem sagt afar vantrúaður á að agi sé að versna mikið í skólum þegar á heildina er litið. Ég kom í kaupstað einn á Norðurlandi fyrir tíu árum og átti þar skemmtilegt samtal við tvo lögreglumenn á staðnum. Þeir voru aldir upp í bænum og höfðu gengið þar í skóla. Heimur versnandi fer, sögðu þeir. Æskan er agalaus. Þetta var ekki svona hér áður fyrr. Og sögðu frá kennslukonum sem þeir höfðu haft, og voru forkar miklir og héldu uppi ströngum aga. Og létu þá engir ófriðlega, spurði ég. Jú, þeir könnuðust við það, það voru þarna nokkrir mjög erfiðir strákar. Og hvernig réðu þær við þá? Jú, þær bundu þá niður við bekkina með treflunum þeirra!

Ég veit auðvitað að í einhverjum skólum hefur agi versnað. Oft virðast það vera skólar þar sem yfirstjórn er veik eða samstaða kennara ófullnægjandi. En eftir því sem næst verður komist eru þeir skólar mun fleiri þar sem mat manna er að aga hafi ekki farið aftur og sums staðar hefur hann batnað. Oftast eru þá einmitt unglinganir nefndir. Og ég hef komið í marga skóla þar sem var afbragðs bragur, einnig á unglingastigi.

Ég hef auðvitað lagt eyrun við því að mjög margir kennarar yngstu barnanna, reyndir kennarar, nefna að erfiðara sé að hemja þau nú en áður var. Mörgum verður tíðrætt um að munnsöfnuður yngsta fólksins sé oft nánast óbærilegur. Hér verða eðlilega engin dæmi gefin um þetta. Auðvitað verður að taka mark á þessu. Á þessu verður að taka. Hér þurfa kennarar og foreldrar að leggja saman. Og þegar þessir tveir aðilar, starfsfólk skólanna og foreldrar leggjast á eitt, þá er árangurs að vænta. Ég hef fylgst með því í nokkrum skólum þar sem gengið hefur verið að krafti í að taka á agamálum í samstarfi kennara og foreldra og það hefur borið verulegan árangur.

Ég tek líka mark á áhyggjum þeirra sem segjast sjá að ofvirkni og einbeitingarskortur sé að færast í vöxt. Vera kann að breytingar á ýmsum háttu okkar og neysluvenjum hafi sín áhrif. Breytt og aukin lyfjanotkun, reykingar á meðgöngu, aukin streita, minni tími hinna fullorðnu með börnum, skortur á vitsmunalegri ögrun, einhæfir tölvuleikir, ónóg hreyfing, kyrrseta fyrir framan sjónvarp, breytt mataræði, aukaefni í fæðu, röskun á svefntíma - allt kann þetta að hafa haft sín áhrif sem við höfum ekki lagað okkur að eða öllu heldur tekist á við (sjá um þetta t.d. Jensen 1996).

Ég held að það sé líka full ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri hörku og óvægni sem víða má sjá í framgöngu unglinga - hrottaskap - sem virðist ná til beggja kynja. En er þetta að vaxa? Eftir því sem ég ræð af þeim gögnum sem ég kynnti mér þegar ég var að undirbúa þetta framlag er það ekki svo - heldur e.t.v. frekar um það að ræða að þetta er orðið okkur sýnilegra. Það er jafn alvarlegt fyrir það. Ég er ekki að gera lítið úr þessum vanda þó ég sé að reyna að slá á „heimur versnandi fer" viðhorfið - sem er sígilt viðhorf á öllum tímum er skólunum skaðlegt.

Að undanförnu hafa orðið miklar umræður um agamál í skólum í kjölfar hörmulegrar uppákomu í skóla einum á höfuðborgarsvæðinu. Ég ber vissan ugg í brjósti um að umræða eins og þessi - úlfur - úlfur - skaði skólann.

Skólinn er afar viðkvæm stofnun. Hann nærist að vissu leyti á viðhorfum. Skólinn, eins og fjölskyldan, er einn af hornsteinum samfélagsins. Jákvæð umræða um fjölskylduna byggir upp, neikvæð brýtur niður. Hið sama gildir um skólann. Hvers er að vænta þegar barn fer í skólann með það veganesti sem það hefur fengið við kvöldverðarborðið heima hjá sér að skólinn sé ómögulegur, þar sé enginn agi, kennararnir viti ekkert í sinn haus og skólastjórinn sé ...!?

Börn verða að hafa trú á skólanum. Gagnrýnin og uppbyggjandi umræða um skólastarf á að fara fram í beinni samræðu foreldra og starfsliðs skólanna.

Eitt helsta forgangsverkefni í íslenskum skólum er einmitt að efla samstarf heimila og skóla. Kennarar og foreldrar þurfa að læra að vinna saman. Það tekur tíma. Foreldraaflið er sú orkulind sem nú er byrjað að virkja í skólunum og þar sjáum við stórvirkjanir framundan, ef við berum gæfu til þess að standa þar rétt að. Uppeldi og menntun er sameiginlegt verkefni heimila og skóla. Þar bera báðir ábyrgð. Gagnkvæm virðing og velvild er lykilatriði. Ef þessir aðilar leggja saman er auðvelt að ráða við agavandann.

Ekki verður heldur hjá því komist að endurskoða starfshætti í skólum. Í þessum efnum má binda miklar vonir við nýja námskrá sem ræða á á næsta fundi ykkar. Vonandi tekst að auka fjölbreytni í náminu, virkja nemendur, efla sjálfstæð vinnubrögð, valgreinar og hvers konar skapandi starf.

Leggja þarf miklu meira upp úr góðum tengslum innan skólans og að skapa traust milli kennara og nemenda. Járnagi er einskis virði, eða öllu heldur beinlínis skaðlegur. Sanngjarn, jákvæður og uppbyggjandi agi þar sem áhersla er lögð á sjálfsaga, ábyrgð og skyldur er það sem ber árangur.

Þorgeir heitinn Ibsen, skólastjóri, sá ágæti skólamaður, lagði á dánardegi sínum síðustu hönd á grein sem birtist í Morgunblaðinu á s.l. laugardag. Þorgeir nefndi þessa síðustu grein sína Mesta og dýrmætasta auðlind þjóðarinnar.

Í þessari síðustu grein sinni ræðir Þorgeir m.a. fréttafárið undanfarið og nefnir að það hafi ekki bætt úr skák ...

„... þegar einhver stjórnandi skóla hélt því fram í opinberu viðali, að skólar væru fræðslustofnun, en ekki uppeldis. Hvílíkur misskilningur. Öðrum þræði, hvort sem okkur líkar betur eða verr, hlýtur skólinn undir öllum kringumstæðum að vera uppeldisstofnun sem fræðslustofnun. Þetta segir sig sjálft. Uppeldið er alls staðar. Börn ala sig ekki upp sjálf, hvorki á heimilum né í skólum. Bæði ósjálfrátt, og einnig sjálfrátt, líta börnin á hina fullorðnu sem fyrirmyndir. Börn gera það sem fyrir þeim er haft. Í raun vilja þau að agi og regla ríki í skólanum. Á því sviði kemur uppeldishlutverk skólans sterklega við sögu. Undan því verður aldrei vikizt. Þau vilja geta litið á kennara sinn sem sterka fyrirmynd, karl eða konu, sem hefur reglu á hlutunum, en á hann þó um leið að vera mildur og skilningsríkur, laus við smámunasemi, arg og þras. Því miður eru ekki allir kennarar færir um þetta. Ná ekki tökum á viðfangsefni sínu og því fer sem fer. Slíkir kennarar ættu ekki að gera kennslu að ævistarfi sínu."

Þessi orð Þorgeirs vildi ég geta gert að mínum um leið og ég vil árétta þá skoðun mína að meginþorri kennara er mjög gott starfsfólk sem yrði enn betra ef það fengi þann stuðning og hvatningu sem það það þarf og á skilið í þessu vandasama og ábyrgðarmikla starfi.

 

Tilvísanir

Anna Kristín Sigurðardóttir. 1996. Agastjórnun í grunnskóla. Meistaraprófsverkefni lagt fram til fullnaðar M.Ed.-gráðu.

Jensen, Eric. 1998. Teaching with the Brain in Mind. Alexandria: Association for Supervision and Curriculum Development.

Sigrún Aðalbjarnardóttir, Sigurlína Davíðsdóttir og Eyrún M. Rúnarsdóttir. Áhættuhegðun reykvískra unglinga. Tóbaksreykingar, áfengisneysla, hassneysla og neysla annarra vímuefna 1994-1996. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Þorgeir Ibsen. 1999. Mesta og dýrmætasta auðlind þjóðarinnar. Morgunblaðið, 20. febrúar 1999.

Þórólfur Þórlindsson og Jón Gunnar Bernburg. 1996 Ofbeldi meðal íslenskra unglinga. Reykjavík: Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála.


Heimasíða Ingvars Sigurgeirssonar