AÐALNÁMSKRÁ FRAMHALDSSKÓLA

Inngangur

Allar breytingar kalla á viðbrögð. Sumir hræðast þær og leggja hendur í skaut, flestir sjá tækifæri í breytingum og grípa þau. Ég vona að allir sjái hin nýju tækifæri í námskránni og nýti sér þau. Nám og skólastarf verður að taka mið af hraðri þróun í tækni og vísindum, nýjum atvinnu- og þjóðfélagsháttum. Menntun auðveldar nemendum að takast á við breytingar. Hún sameinar virðingu fyrir reynslu hins liðna og áræði til að glíma við hið óþekkta.

Almennur hluti námskrár framhaldsskóla fjallar bæði um bóknám og starfsnám. Menntamálaráðuneytið hefur forgöngu um gerð námskrár fyrir bóknáms- og listnámsbrautir. Fjórtán starfsgreinaráð hafa frumkvæði að námskrám fyrir starfsnám og gera tillögur um efni þeirra til ráðuneytisins. Í ýmsum starfsnámsgreinum er stuðst við nýlegar námskrár, í öðrum eru námskrárnar að mótast í fyrsta sinn.

Aðalnámskrá er ætlað að styrkja og móta heilsteypt skólastarf bæði innan hvers skóla og almennt í landinu. Námskröfur eru skýrar og eiga að vera skiljanlegar öllum sem að skólastarfi koma. Við gerð námskrár framhaldsskóla hefur verið tekið mið af lögum um skólana og rétti nemenda til að ákveða sjálfir hvernig námsleiðir þeir velja sér innan hinna mörkuðu námsbrauta.

Ný aðalnámskrá gerir ráð fyrir sveigjanleika í starfi einstakra skóla. Á milli skóla og ráðuneytis gildir skólasamningur þar sem innra starf hvers skóla er skilgreint. Allar ákvarðanir um áfanga og námsbrautir eru að lokum staðfestar með skólasamningi. Skólanámskrár skipta einnig miklu um framkvæmd aðalnámskrárinnar en litið er á landið í heild sem skólasvæði á framhaldsskólastigi. Þá er fjarkennsla til þess fallin að auðvelda verkaskiptingu milli skóla.

Unnið hefur verið að endurskoðun aðalnámskráa leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla síðan haustið 1996. Meginatriðin voru kynnt almenningi undir kjörorði nýju skólastefnunnar, Enn betri skóli. Samráð hefur verið haft við stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök. Meira en tvö hundruð kennarar hafa lagt hönd á plóginn. Við verklok eru öllum þátttakendum í verkinu færðar einlægar þakkir.

Við aldarlok hefst nýr kafli í íslenskri skólasögu. Skólarnir ganga inn í nýja öld á nýjum og traustum grunni. Nemendur geta treyst því að í skólagöngu þeirra verður samfella og stígandi.

Með því að halda í heiðri gildin, sem hafa reynst okkur Íslendingum farsælust, getum við nýtt okkur tækifæri breytinganna best. Skólarnir hafa vaxið úr jarðvegi kristins siðgæðis og sögu okkar, þær rætur mega aldrei slitna. Minnumst þess að menntun er auður sem aldrei verður frá neinum tekinn. Markmiðið er að sem flestir Íslendingar hljóti sem besta menntun.

Björn Bjarnason
menntamálaráðherra