Til baka

Aðalnámskrá Grunnskóla
ALMENNUR HLUTI
1999


INNGANGUR

Menntun er auður sem aldrei verður frá neinum tekinn. Hún yfirgefur engan en gerir öllum kleift að njóta sín og lífsins. Fyrsta menntunin er veitt í fjölskyldunni. Kærleikur og góð menntun eru bestu gjafir handa hverju barni.

Tugir þúsunda Íslendinga á öllum aldri stunda nám. Þeir eiga rétt á því að inntak námsins fullnægi afdráttarlausum kröfum. Námstímann ber að nýta vel og stefna að góðum árangri með aga og skýrum markmiðum.

Endurskoðun aðalnámskráa grunnskóla og framhaldsskóla hófst haustið 1996. Nokkru síðar var hafist handa við að endurskoða námskrá leikskóla. Meira en tvö hundruð kennarar og aðrir sérfræðingar hafa lagt hönd á plóginn í þessu mikla verki. Við verklok eru þeim öllum færðar einlægar þakkir. Samráð var haft við fulltrúa stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka. Skólastefnan að baki námskránum var kynnt með því að senda fræðslurit á hvert heimili og með fundum um land allt.

Skólastefnan á að styrkja og móta heilsteypt starf í einstökum skólum og skólakerfinu í heild. Nýr kafli hefst í íslenskri skólasögu þegar í fyrsta sinn er unnið samhliða að námskrárgerð fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Stefnt er að eðlilegri samfellu og stígandi á námsleiðinni. Leitað er úrræða til að bregðast við þörfum hvers nemanda. Valfrelsi nemenda er aukið og þar með ábyrgð þeirra á eigin námi. Samræmd próf úr grunnskóla eru ekki skylda eins og verið hefur en þeir sem taka samræmd próf fá hins vegar meiri rétt í framhaldsskóla en hinir sem sleppa prófum.

Við framkvæmd skólastefnunnar ber að halda í heiðri gildin sem hafa reynst okkur Íslendingum best. Skólarnir hafa vaxið úr jarðvegi kristninnar og þær rætur mega aldrei slitna.

Nýrri aðalnámskrá fyrir grunnskóla er fylgt úr hlaði með ósk um að allir, sem nema eftir henni, komist til nokkurs þroska.

Björn Bjarnason
menntamálaráðherra
 
 

GRUNNSKÓLINN

Samkvæmt lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, er grunnskólinn 10 ára skóli. Almennt er gert ráð fyrir að nemendur hefji nám árið sem þeir verða sex ára. Lögin heimila þó að í vissum tilvikum geti nemendur byrjað fyrr eða seinna. Af þessu leiðir að langflestir nemendur ljúka grunnskólanámi á því ári sem þeir verða sextán ára.

Frá árinu 1996 hafa sveitarfélög borið meginábyrgð á skólahaldi og framkvæmd grunnskólalaga. Grunnskólinn er skyldunám og er hverju sveitarfélagi skylt að sjá öllum börnum á aldrinum 6-16 ára, sem þar eiga lögheimili, fyrir skólavist. Lögin kveða á um það að skólaárið skuli ná yfir 9 mánuði og að nemendur skuli njóta 170 kennsludaga að lágmarki.

Foreldrar bera ábyrgð á því að nemendur innritist í grunnskóla og sæki skólann og skólanefnd fylgist með því að öll skólaskyld börn njóti lögboðinnar fræðslu. Verði misbrestur á skólasókn skólaskylds barns án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, ber skólanefnd að hafa afskipti af málinu.

Lög um grunnskóla gefa sveitarfélögum og skólum verulegt svigrúm til að skipuleggja nám í samræmi við þarfir og aðstæður á hverjum stað en meginstefnan, sem kemur fram í lögum og aðalnámskrá, er sú að allir nemendur eigi þess kost að stunda nám í heimaskóla sínum.

Uppbygging grunnskólanáms
Kennsla í grunnskólum er í flestum tilvikum skipulögð þannig að nemendum á sama aldri er skipað saman í bekki. Í fjölmennum skólum skiptast bekkir í bekkjardeildir. Í fámennum skólum er samkennsla í námshópum nemenda á mismunandi aldri. Meginreglan er sú að nemendur færast á milli bekkja eftir því sem aldur þeirra segir til um. Í vissum tilvikum er þó unnt að flýta eða seinka nemanda.

Aðalnámskrá grunnskóla skilgreinir og lýsir sameiginlegum námsmarkmiðum sem grunnskólum ber að stefna að og segir til um þann lágmarkstíma sem skólum ber að bjóða nemendum í einstökum námsgreinum og námssviðum. Sveitarfélög og skólar geta ráðstafað frjálst hluta þess lágmarkstíma sem nemendur eiga rétt á og geta auk þess boðið lengri skólatíma en lögboðið lágmark segir til um. Í 9. og 10. bekk er þetta svigrúm um 30% af þeim tíma sem námskráin tiltekur. Gert er ráð fyrir að í þessum bekkjum fái nemendur tækifæri til að velja milli námsgreina og námssviða.

Námsgreinar eru áberandi í skipulagi kennslu í grunnskólum þótt erfitt sé að greina skýr mörk milli námsgreina í yngstu bekkjunum þar sem einn og sami kennarinn kennir flestar námsgreinar. Eftir því sem á skólagönguna líður eykst sérhæfing kennslunnar og í efstu bekkjum er kennslan að mestu í höndum faggreinakennara.

Í 4. bekk, 7. bekk og í lok 10. bekkjar eru haldin samræmd próf. Menntamálaráðuneytinu ber samkvæmt lögum skylda til að sjá til þess að samræmd próf séu haldin. Öllum nemendum í 4. og 7. bekk er skylt að gangast undir samræmd próf í íslensku og stærðfræði með vissum undantekningum. Þetta á t.d. við um nýbúa og heyrnarlausa. Samræmdu prófin í 10. bekk eru valfrjáls. Sérstök stofnun annast framkvæmd samræmdra prófa, samningu, yfirferð og úrvinnslu þeirra.
 

Tengsl leikskóla og grunnskóla

Meginhlutverk leikskóla er að skapa umhverfi og aðstöðu til uppeldis og þroska þar sem hlúð er að líkamlegri og andlegri vellíðan barna.

Langflest börn hafa notið þess að vera í leikskóla um lengri eða skemmri tíma áður en grunnskólagangan hefst. Leikskólinn býr börnin undir hina formlegu skólagöngu á ýmsan hátt. Í leikskólum hafa börnin lært og þroskast gegnum leik og annað skipulagt uppeldisstarf. Þau hafa styrkt sjálfsmynd sína, öðlast sjálfstæði og lært að vinna saman. Ýmis viðfangsefni í leikskólum, sem tengjast íslensku, stærðfræði, náttúruskoðun, tónlist, myndlist og hreyfingu, hafa gildi í sjálfu sér sem þroskandi glíma við daglegt líf og umhverfi en stuðla jafnframt að undirbúningi undir formlegt nám í grunnskóla.

Mikilvægt er að leikskólar og grunnskólar efli tengsl sín í milli og komi á sambandi og samstarfi milli leikskólakennara sem hafa umsjón með elstu börnunum í leikskóla og grunnskólakennara sem taka við þeim í fyrsta bekk grunnskóla. Það er augljóslega hagur barnanna að kennarar á báðum þessum skólastigum séu kunnugir viðfangsefnum, starfsháttum og vinnuskipulagi hver annars. Því færra sem kemur börnunum og foreldrum þeirra á óvart þegar skipt er um skóla og vinnustað, því betri samfella sem er á milli skólastiganna, því meiri líkur eru á farsælu upphafi grunnskólagöngunnar. Brýnt er að foreldrum sé ljóst á hvern hátt grunnskóli er frábrugðinn leikskóla, hvaða nýjar kröfur eru gerðar til barna og foreldra, hver er réttur þeirra og hvaða vinnubrögð og skyldur mæta börnunum á nýjum vinnustað.

Auk samvinnu skólastjóra og kennara leikskóla og grunnskóla, geta gagnkvæmar heimsóknir barnanna stuðlað að hnökralausri færslu milli skólastiga. Leikskólabörn geta haft mikið gagn af að heimsækja væntanlegan grunnskóla þar sem þau fá tækifæri til að kynnast skólastofu, leikvelli, kennurum og nemendum. Á sama hátt getur heimsókn sex ára barna í gamla leikskólann sinn orðið til þess að styrkja tengsl leikskóla og grunnskóla. Ekki er síður gagnlegt fyrir foreldrafélög eða foreldrahópa á báðum skólastigum að hafa samvinnu og samráð sín á milli.

Grunnskólinn þarf einnig að huga að skólabyrjun barna sem ekki eru í leikskólum. Skólinn þarf að kynna sig fyrir þeim og foreldrum þeirra, útskýra hvers er að vænta, hvaða kröfur eru gerðar í upphafi skólagöngu og hvernig skólinn hyggst styðja við uppeldi og sinna námi og kennslu.
 

Tengsl grunnskóla og framhaldsskóla

Langflestir nemendur hefja nám í framhaldsskóla strax að loknum grunnskóla. Um ýmsa kosti er að velja. Nemendur, sem hyggja á bóknám, eiga kost á námi á málabrautum, félagsfræðabrautum eða náttúrufræðabrautum framhaldsskólanna. Þeir sem hyggja á starfsnám geta valið úr fjölda starfsnámsbrauta sem leiða til starfsréttinda í ýmsum starfsgreinum.

Til þess að komast inn á tilteknar brautir þarf að standast þær kröfur sem gerðar eru um undirbúning. Inntökuskilyrði segja til um lágmarksárangur sem þarf í lykilgreinum einstakra brauta. Inntökuskilyrðin miðast bæði við frammistöðu á samræmdum prófum og einnig einkunnir sem skólinn gefur.

Það er afar mikilvægt að nemendum sé ljóst strax í 9. bekk hvað tekur við að loknum grunnskóla til þess að þeir geti nýtt sér valkosti sem þeim bjóðast í 9. og 10. bekk. Aðalnámskráin gerir ráð fyrir að í þeim bekkjum fái nemendur að ákveða sjálfir í samráði við foreldra og kennara og með tilliti til framtíðaráforma á hvað þeir leggja áherslu í námi sínu. Nemandi, sem t.d. hyggst fara á málabraut, á að geta lagt aukna áherslu á erlend mál með því að leggja stund á 3. erlenda málið í grunnskóla. Hann á líka að eiga þess kost að velja t.d. náttúrufræði eða listgreinar til að breikka menntun sína og reynslu áður en kemur að sérhæfingu framhaldsskólans. Aðalnámskráin gerir ráð fyrir að nemendur geti varið allt að þriðjungi námstímans í 9. og 10. bekk í valfrjálst nám.

Með auknu valfrelsi nemenda í 9. og 10. bekk er stuðlað að því að nemendur taki meiri ábyrgð á námi sínu. Þeir þurfa að horfa fram á veginn, gera upp við sig hvert þeir vilja stefna og meta af raunsæi hvað þeir þurfa að gera til að ná takmarki sínu. Aukið valfrelsi þýðir að nemendur geta lokið grunnskóla með mismunandi áherslum. Um leið er horfið frá því að skylda alla til að gangast undir öll samræmd próf í lok 10. bekkjar. Mismunandi inntökuskilyrði í framhaldsskóla og val í 9. og 10. bekk leiðir til þess að nemandinn ákveður sjálfur hvaða samræmd próf hann tekur, allt eftir því hvert hann stefnir í framhaldsnámi.
 

Inntökuskilyrði í framhaldsskóla

Inntökuskilyrði fela í sér að nemandi þarf að hafa náð tilteknum lágmarksárangri í vissum greinum til að geta innritast á námsbrautir framhaldsskóla aðrar en almenna braut. Við ákvörðun inntökuskilyrða er tekið tillit til námsárangurs bæði á samræmdum prófum og skólaprófum. Miðað er við að einkunnir á samræmdum prófum séu í formi staðaleinkunna, þ.e. að árangur nemanda sé settur fram með hliðsjón af frammistöðu annarra nemenda. Við mat á umsóknum er miðað við svokallaða viðmiðunareinkunn í einstökum greinum, sem er meðaltal staðaleinkunnar á samræmdu prófi og skólaeinkunnar.

Á þessum forsendum eru sett eftirfarandi inntökuskilyrði:

 

Hlutverk og markmið Grunnskóla

Í grunnskólanum skal unnið að því í samvinnu við heimilin að búa nemendur undir líf og starf. Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum. Hlutur grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Þetta sameiginlega verkefni heimila og skóla kallar á náin tengsl, gagnkvæmt traust, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu.

Menntakerfið á að vera sveigjanlegt til að mæta nýjungum og breyttum kröfum. Höfuðskylda þess er þó að veita nemendum góða, alhliða menntun. Almenn menntun er besta veganesti sérhvers einstaklings í þekkingar- og upplýsingasamfélaginu. Einstaklingurinn verður strax á ungum aldri að búa sig undir þá staðreynd að menntun er æviverk. Námskrá verður heldur aldrei sett í eitt skipti fyrir öll. Þarfir og aðstæður breytast. Breytingar á fjölskyldu- og heimilislífi og í atvinnulífi kunna að gera nýjar og breyttar kröfur til skólanna.

Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. Grunnskólar eiga að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Þetta á við um fötluð börn og ófötluð, afburðagreind og greindarskert og allt þar á milli, börn úr afskekktum byggðarlögum, börn úr minnihlutahópum sem skera sig úr hvað varðar mál, þjóðerni eða menningu. Grunnskólum er skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt.

Samkvæmt lögum eiga allir nemendur rétt á námi við hæfi í grunnskólum og sveitarfélögum er skylt að sjá öllum nemendum fyrir viðeigandi námstækifærum. Stefna stjórnvalda er sú að fatlaðir nemendur stundi nám með öðrum nemendum eftir því sem kostur er. Á grunnskólastigi eiga allir nemendur rétt á að stunda skyldunám í heimaskóla nema foreldrar og sérfræðingar skóla meti aðstæður nemandans þannig að honum sé fyrir bestu að vera í sérskóla eða heilsu hans sé þannig farið að ekki verði komist hjá vistun fjarri heimili. Aðalnámskrá grunnskóla lýsir helstu áhersluatriðum í menntun barna og unglinga á skólaskyldualdri.
 

Almenn menntun

Almenn menntun er ein meginstoð lýðræðis. Hún er undirstaða menningar og almennrar velferðar. Almenn menntun á að efla gagnrýna, sjálfstæða hugsun hjá einstaklingum og hæfileika til þess að bregðast við nýjum aðstæðum. Í síbreytilegu umhverfi samtímans reynir á hæfni til þess að bregðast við nýjum aðstæðum, takast á við og tileinka sér nýjungar og framfarir á öllum sviðum. Í grunnskólum ber að efla með nemendum sjálfstraust og heilbrigðan metnað. Nemendur þurfa að fá tækifæri til þess að tjá skoðanir sínar í rituðu og mæltu máli í námi. Þeir þurfa að geta látið skoðanir sínar í ljós, vera óhræddir við breytingar og geta borið ábyrgð á gerðum sínum.

Almenn menntun á að stuðla að umburðarlyndi, virðingu fyrir náunganum og umhverfinu. Í grunnskólum ber að efla heilbrigða dómgreind, umburðarlyndi, náungakærleik og verðmætamat. Fjölbreytni í kennsluháttum og heilbrigt félagslíf stuðlar m.a. að þessum markmiðum. Í grunnskólum ber að efla menningarvitund Íslendinga og virðingu fyrir menningu annarra þjóða. Almenn menntun á að skapa tækifæri til listnáms. Auk þess að vera þáttur í að stuðla að alhliða þroska nemenda er með listnámi lagður grunnur að skapandi þætti lista og að rækta hæfileika til þess að njóta menningar og lista.

Almenn menntun felur í sér að leggja í samvinnu við heimilin rækt við heilbrigði og hollar lífsvenjur, að efla siðferðisvitund og stuðla að ábyrgri umgengni við allt líf og umhverfi.

Almenn menntun á að styrkja einstaklinga til þess að átta sig á eigin stöðu í samfélaginu og að geta tengt þekkingu og færni við daglegt líf og umhverfi. Þessar skyldur skólans falla m.a. undir hugtakið lífsleikni og miða að því, í samvinnu við heimilin, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðislegu þjóðfélagi og að dýpka skilning þeirra á samfélaginu og hlutverki einstaklingsins í því. Þar má nefna skilning á sögulegum forsendum samfélagsins, atvinnuháttum, menningu, náttúru, fjölskylduábyrgð, fjármálaskyldum, skyldum einstaklingsins og rétti hans. Undir þetta falla einnig skyldur skólans til þess að stuðla að forvörnum gegn hvers konar vá með fíknivörnum, slysavörnum og umferðarfræðslu.
 
 

Jafnrétti til náms

Eitt grundvallarviðmið í skólastarfi er jafnrétti til náms sem er fólgið í því að bjóða nemendum nám og kennslu við hæfi og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Í þessu felast ekki endilega sömu úrræði fyrir alla heldur sambærileg og jafngild tækifæri. Verkefnin skulu höfða jafnt til drengja og stúlkna, nemenda í dreifbýli sem þéttbýli og fatlaðra og ófatlaðra óháð uppruna, trú og litarhætti. Aðalnámskrá grunnskóla leggur áherslu á að skólar búi bæði kynin undir þátttöku í atvinnulífi, fjölskyldulífi og í samfélaginu. Eitt mikilvægasta úrlausnarefni skóla og skólayfirvalda í þessu sambandi er að finna leiðir til að koma til móts við ólíka getu og ólík áhugamál nemenda, þ.e. að veita nemendum menntun við hæfi hvers og eins.

Grunnskólinn skal stuðla að menntun hvers og eins. Veita skal nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Jafnframt skal leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til heilbrigðs samstarfs og samkeppni við aðra.

Skólinn þarf að búa nemendur undir ævilangt nám og síbreytilegar kröfur með því að leggja áherslu á vinnubrögð sem þroska félagslega færni og skipulags- og samskiptahæfni. Einnig er mikilvægt að nemendum lærist að þekkja og tjá eigin tilfinningar og kunni jafnframt að virða tilfinningar annarra og tjáningu þeirra, óháð uppruna, kyni, búsetu, trú eða fötlun.
 
 

Starfshættir í grunnskólum

Til að standa undir þeim skyldum sem markmiðsgrein grunnskólalaganna (2. gr.) setur, þ.e. að búa nemendur undir líf og starf, verður skólinn að bjóða fram metnaðarfull námstækifæri við hæfi allra nemenda. Í því felst m.a. að skólar verða að leggja áherslu á að byggja sérhvern nemanda upp sem heilsteyptan einstakling með trausta menntun og þjálfun til að takast á við frekara nám og búa hann undir þátttöku í atvinnulífi, fjölskyldulífi og félagslífi. Í þessu skyni verður skólinn að bjóða margvísleg en jafngild námstækifæri þannig að komið sé til móts við sérstöðu einstaklinga. Hver nemandi á að geta fundið nám við sitt hæfi sem eflir hann og þroskar.

Grunnskólinn skal stuðla að því að nemendur temji sér víðsýni og efli skilning sinn á mannlegum kjörum og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum, skyldum einstaklingsins við samfélagið og rétti hans innan þess.

Forsenda lýðræðis er meðvitaður og ábyrgur einstaklingur sem er fær um þátttöku í opnu og frjálsu þjóðfélagi. Hin siðferðilegu gildi samfélagsins verða að endurspeglast í öllu skólastarfi. Umfjöllun um siðfræðileg gildi og forsendur þeirra á heima í öllum námsgreinum.

Starfshættir í grunnskóla skulu mótast af gildum lýðræðislegs samstarfs, kristins siðgæðis og umburðarlyndis. Helstu gildi lýðræðislegs samstarfs eru: jafngildi allra manna, virðing fyrir einstaklingum og samábyrgð. Helstu gildi kristins siðgæðis, sem skólinn á að miðla og mótast af, eru: ábyrgð, umhyggja og sáttfýsi. Umburðarlyndi tengist lýðræðinu og kristnu siðgæði og byggist á sömu forsendum. Það verður að ætla öllum rétt til sjálfstæðra skoðana og tækifæri til að tjá þær og reyna að vinna þeim fylgi, að því tilskildu að það sé gert á heiðarlegan hátt og réttur annarra til hins sama virtur.

Í samvinnu við heimilin ber að leggja áherslu á það í grunnskólum að efla siðferðisvitund og ábyrga hegðun nemenda. Með því er átt við hvers kyns framkomu, verknað og orðræðu sem snertir samskipti við aðra nemendur, kennara, annað starfsfólk skóla og aðra sem nemendur umgangast. Á sama hátt ber kennurum og öðrum starfsmönnum skóla að vera nemendum fyrirmynd um þessi atriði.

Áhersla er lögð á að notkun upplýsingatækni verði sjálfsagt hjálpartæki í öllum námsgreinum. Stórstígar framfarir á þessu sviði hafa breytt ýmsum samfélagsháttum og atvinnuháttum. Í sérhverri námsgrein verður að nýta þau tækifæri sem upplýsingatæknin gefur til að ná markmiðum greinarinnar.

Allir kennarar eru íslenskukennarar, hvaða grein sem þeir kenna. Leggja ber áherslu á að þjálfun í notkun íslensku er lykill að árangri í öllu námi.

Þau grundvallaratriði, sem fjallað er um í þessum kafla, fela í sér að lögð skal rækt við ýmis almenn, uppeldisleg markmið í skólastarfinu. Almenn uppeldis- og menntunarmarkmið grunnskólans ná ekki fram að ganga nema hugað sé sérstaklega að þeim markmiðum sem ganga eins og rauður þráður gegnum allt skólastarf en eru ekki flokkuð undir einstakar námsgreinar eða námssvið. Allar námsgreinar og kennsla verða að stuðla að því að þessum markmiðum verði náð. Ekki þarf síður að hafa þessi markmið að leiðarljósi á öðrum sviðum skólastarfsins svo sem í frímínútum og skólaferðum, í starfi nemendaráða og félags- og tómstundastarfi og samskiptum umsjónarkennara við nemendur sem hann hefur umsjón með.
 
 
 

AÐALNÁMSKRÁ GRUNNSKÓLA

Hlutverk aðalnámskrár

Í aðalnámskrá grunnskóla er að finna nánari útfærslu á ákvæðum laga og reglugerða um nám og kennslu í grunnskóla. Aðalnámskrá tekur til allra nemenda og setur sameiginleg markmið náms og kennslu í öllum grunnskólum landsins. Í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um uppeldis- og menntunarhlutverk grunnskólans og sett fram meginstefna um kennslu og kennsluskipan. Aðalnámskrá útfærir nánar ákvæði laga um kjarnagreinar og aðrar skyldunámsgreinar og segir til um áherslur og vægi. Viðmiðunarstundaskrá, sem sýnir hlutfallslegt vægi milli námsgreina og námssviða, er hluti af aðalnámskrá.

Aðalnámskrá er sett af menntamálaráðherra með sama hætti og reglugerðir og gegnir margvíslegu hlutverki. Hún er allt í senn, stjórntæki til að fylgja eftir ákvæðum laga, fyrirmæli fræðsluyfirvalda um að ákveðinni skólastefnu sé framfylgt og safn sameiginlegra markmiða skólastarfs í landinu. Aðalnámskrá er ætlað að samræma nám og kennslu að því marki sem þörf er talin á og tryggja rétt allra nemenda til tiltekinnar lágmarksmenntunar.

Aðalnámskrá er ætlað að þjóna mörgum aðilum. Hún lýsir sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um alla nemendur og starfsmenn grunnskóla. Hún er jafnframt viðmiðun við mat á skólum og skólastarfi, leiðarljós fyrir þá sem fást við námsefnisgerð og kennaramenntun og grundvöllur skólanámskrárgerðar og sjálfsmats skóla. Aðalnámskrá er einnig upplýsing og viðmiðun fyrir foreldra til þess að þeir geti fylgst grannt með vinnubrögðum og árangri skólastarfsins og velferð og líðan nemenda.
 

Sömu markmið fyrir alla

Aðalnámskrá grunnskóla gerir ráð fyrir að þorri nemenda eigi að geta náð flestum markmiðum námskrárinnar á sama tíma. Ljóst er þó að einhver hluti nemenda ræður vel við fleiri og flóknari markmið en aðrir þurfa lengri tíma og laga þarf námið sérstaklega að þeim. Markmið aðalnámskrár eiga því hvorki að skoðast sem hámark né lágmark. Það er skylda hvers skóla að laga námið sem best að nemendum hverju sinni. Nemendur eiga rétt á viðfangsefnum sem henta námsgetu þeirra og hæfni.

Athygli manna beinist í vaxandi mæli að nemendum með sértæka námsörðugleika. Margir þessara nemenda eiga í erfiðleikum við að ná tökum á lestri. Til að koma til móts við þennan vanda og aðra námsörðugleika er nauðsynlegt að meta sérþarfir nemenda með öflugri skimun og greiningu sem allra fyrst á skólagöngunni. Í ljósi slíkrar greiningar getur skólinn, í samvinnu við forráðamenn nemandans, brugðist við á markvissan hátt. Í aðalnámskrá grunnskóla eru settar fram skýrar kröfur til skóla um greiningu á lestrarörðugleikum. Þessir nemendur eiga einnig rétt á því að tekið sé tillit til lestrarörðugleika þeirra við próf og annað námsmat.

Mjög duglegir nemendur, afburðanámsmenn og nemendur, sem búa yfir sérhæfileikum á vissum sviðum, eiga líka rétt á að fá námstækifæri við sitt hæfi. Þeir eiga að fá tækifæri til að þroska sérhæfileika sína og nýta tímann til hins ítrasta með því að glíma við fleiri og flóknari markmið og krefjandi nám.

Nemendur með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausir nemendur
Í aðalnámskrá grunnskóla eru í fyrsta sinn sett ákvæði um sérstaka íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Einnig eru ný ákvæði um sérstaka íslenskukennslu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta nemendur og táknmálskennslu fyrir heyrnarlausa. Markmið fyrir íslenskukennslu nýbúa og heyrnarlausra og táknmálskennslu falla undir námssvið íslensku í grunnskóla.

Nemendur með annað móðurmál en íslensku hafa ólíkan menningarlegan, mállegan og námslegan bakgrunn. Þessir nemendur hafa því misjafnar forsendur til að takast á við almennt nám í íslenskum skólum. Nemendurnir eiga rétt á því að fá sérstaka íslenskukennslu í grunnskólum með það að markmiði að þeir verði hæfir til að taka fullan þátt í skólastarfi og íslensku samfélagi.

Heyrnarlaus börn læra ekki íslensku á sama hátt og heyrandi börn. Þau heyra ekki málið í umhverfinu og þurfa því að reiða sig á tilbúnar aðstæður til að eignast sitt fyrsta mál. Í aðalnámskránni eru kröfur um að skólar bjóði heyrnarlausum börnum að læra og þroskast á eigin forsendum til að þau geti tileinkað sér íslensku. Táknmál hefur grundvallarþýðingu fyrir þroska máls, persónuleika og hugsunar heyrnarlausra nemenda. Hjá heyrnarlausum er táknmálið mikilvægasta uppspretta þekkingar og leið til að taka þátt í íslenskri menningu og menningu heyrnarlausra. Táknmálið hefur mikla þýðingu fyrir alla vinnu í skólanum og fyrir líf og starf nemendanna.

Sérstök íslenskukennsla fyrir nýbúa og heyrnarlausa þarf að taka mið af stöðu nemenda almennt í námi og mállegum og menningarlegum bakgrunni þeirra. Af þeim ástæðum er eðlilegt að þessir nemendur eigi þess kost að fá undanþágur frá því að stunda tilteknar námsgreinar, undanþágur frá því að taka samræmd próf og möguleika á frávikum frá prófreglum.
 

Markmið og markmiðssetning

Skýr markmið eru grundvallarþáttur skólastarfs. Markmið eru leiðarvísir í öllu skólastarfi og forsenda áætlanagerðar um nám og kennslu. Þau stýra kennslunni og námsmatinu og eru grundvöllur mats á gæðum skólastarfs.

Skýr framsetning markmiða er undirstaða þess að allir leggi í þau sama skilning þannig að þau dugi sem viðmið í skólastarfi. Markmið aðalnámskrár eru sett fram með þetta að leiðarljósi. Í þeim felst skólastefna, þau eru nemendamiðuð og segja til um hvað nemendum er ætlað að geta og kunna við ákveðin skil í grunnskólanáminu, þau taka til alhliða þroska nemandans, allra þátta námsgreina og einnig til þverfaglegra þátta sem eru sameiginlegir öllum námsgreinum. Markmið námsgreina eða skyldra námssviða eru flokkuð saman og gefin út í sérstökum heftum. Almennur hluti myndar ásamt öllum heftunum aðalnámskrá grunnskóla. Í heftum um einstakar námsgreinar eða námssvið er að finna rök fyrir nauðsyn greinarinnar í grunnskóla og lýst stöðu hennar og hlutverki. Sett eru fram lokamarkmið greinarinnar sem eiga að lýsa í meginatriðum hvaða kunnáttu, skilnings og færni er krafist af nemendum almennt að loknu grunnskólanámi í greininni og sett eru fram markmið við ákveðin skil í náminu.

Markmið aðalnámskrár grunnskóla eru sett fram í þremur flokkum:

Lokamarkmið

Eðli lokamarkmiða er að gefa heildarmynd af því sem stefnt er að í kennslu einstakra námsgreina í grunnskólanum. Lokamarkmið skýra almennan tilgang náms og lýsa því sem skólar eiga að stefna að og því sem nemendur eiga að hafa tileinkað sér að loknu lögbundnu skyldunámi. Í námskránni eru lokamarkmið greind niður í áfangamarkmið sem aftur eru greind í þrepamarkmið. Þessi undirmarkmið eru sett fram sem nákvæmari útlistun á einstökum markmiðum eftir aldursstigum. Áfanga- og þrepamarkmið eru þannig í beinu samhengi við lokamarkmið. Til þess að ná áfangamarkmiðum þarf að ná þrepamarkmiðunum. Til þess að lokamarkmiðum verði náð þarf að ná áfangamarkmiðum.
 
 

Áfangamarkmið

Aðalnámskráin gerir ráð fyrir því að áfangamarkmið verði meginviðmið í öllu skólastarfi. Áfangamarkmiðum er deilt niður á þrjú stig. Í fyrsta lagi er um að ræða áfangamarkmið eftir nám í 1.-4. bekk, í öðru lagi eftir nám í 5.-7. bekk og að síðustu áfangamarkmið eftir nám í 8.-10. bekk. Áfangamarkmiðin gefa heildarmynd af því sem ætlast er til að nemendur hafi almennt tileinkað sér við lok áfanganna. Áfangamarkmiðin eru þannig orðuð að tiltölulega auðvelt á að vera að mæla eða meta hvort eða að hvaða marki þeim hefur verið náð. Áfangamarkmið mynda einnig grundvöll lögboðinna samræmdra prófa í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk og samræmdra prófa við lok grunnskóla.
 
 

Þrepamarkmið

Þrepamarkmiðin eru safn markmiða/viðfangsefna til að ná áfangamarkmiðum. Þau eiga að lýsa skipulagi, samfellu og stígandi í kennslu hverrar námsgreinar og sýna hvernig unnt er að útfæra áfangamarkmiðin nánar og raða þeim á einstök þrep eða lotur sem geta verið námsár grunnskólans. Aðalnámskráin setur þrepamarkmið fram kennurum, foreldrum og nemendum til leiðsagnar. Skóli getur ákveðið að raða þrepamarkmiðum með öðrum hætti og birt það skipulag í skólanámskrá.
 
 

SKÓLANÁMSKRÁ

Samkvæmt lögum skal árlega gefa út skólanámskrá í hverjum skóla og er skólastjóri ábyrgur fyrir því að hún sé unnin, gefin út og kynnt. Skólanámskrá skal vera nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla en jafnframt gefur hún kost á að laga fyrirmæli aðalnámskrár að sérstöðu hvers skóla og staðbundnum aðstæðum, draga þessi sérkenni fram og nýta þau til eflingar námi og kennslu.

Í aðalnámskrá grunnskóla er lögð megináhersla á að námsmarkmið séu sett fram á skýran hátt þannig að hvorki kennarar, nemendur né foreldrar velkist í vafa um hvaða kröfur eru gerðar til nemenda og skóla. Sömu kröfur eru gerðar til skólanámskrár. Aðalnámskrá setur skólum almenn viðmið en það er hins vegar hvers skóla að útfæra þau nánar í skólanámskrá bæði með tilliti til þess nemendahóps sem stundar nám í skólanum sem og þeirra kennsluhátta sem skólinn aðhyllist. Í skólanámskrá útfærir skólinn t.d. ýmis almenn og fagbundin markmið aðalnámskrár og birtir þær verklagsreglur sem í gildi eru í skólanum, t.d. varðandi umgengni, aga og aðgang að ráðgjöf og stuðningi af ýmsu tagi. Þar kemur m.a. fram hvernig skólinn skipuleggur kennsluna, hvaða kennsluaðferðum er beitt og hvernig staðið er að námsmati í skólanum.

Brýnt er að skóli rækti tengsl við ýmsa aðila utan skólans. Því þarf að lýsa í skólanámskrá hvernig skólinn hyggst vinna með heimilum, fyrirtækjum, félögum, stofnunum og öðrum aðilum utan skólans að því sameiginlega verkefni að veita öllum nemendum haldgóða menntun. Í skólanámskrá þarf m.a. að koma fram áætlun skólans um tengsl við atvinnulífið og áætlun um starfsfræðslu og starfs- og námskynningar.

Við framsetningu markmiða í aðalnámskrá er miðað við að þorri nemenda nái þeim markmiðum á svipuðum tíma. Hins vegar er ljóst að sumir nemendur ná settum markmiðum á mun skemmri tíma, aðrir þurfa lengri tíma. Þessum nemendum þarf að finna verkefni við hæfi og lýsa þeim úrræðum í skólanámskrá.

Aðalnámskrá segir ekki fyrir um röðun eða blöndun í bekki. Bekkjaskipting og röðun í bekki er ákvörðun hvers skóla. Í skólanámskrá þarf því að koma fram lýsing á bekkjaskipan og samsetningu námshópa og rök skólans fyrir þeirri skipan. Vönduð skólanámskrá er ein forsenda þess að markmiðum aðalnámskrár verði náð og skólar njóti trausts foreldra og almennings.

Í skólanámskrám þarf m.a. að gera grein fyrir:

Skylt er að leggja skólanámskrá fyrir skólanefnd og foreldraráð til umsagnar ár hvert. Til þess að umsagnaraðilar geti nýtt umsagnarrétt sinn er augljóst að leggja verður skólanámskrá fram til umsagnar svo tímanlega að unnt sé að taka tillit til athugasemda áður en til framkvæmda kemur.
 
 

KENNSLUTÍMI

Grunnskólalög segja til um þann lágmarkstíma sem nemendur eiga að vera í skóla. Sá tími er jafnframt skilgreining á lágmarkskennslu sem nemandi á rétt á. Samkvæmt lögum um grunnskóla eiga nemendur í 1.-4. bekk rétt á 30 kennslustundum á viku miðað við níu mánaða skólatíma og fjörutíu mínútna kennslustundir, nemendur í 5.-7. bekk eiga rétt á 35 kennslustundum á viku og nemendur í 8.-10. bekk 37 kennslustundum. Þetta á við frá og með skólaárinu 2001-2002 þegar ákvæði grunnskólalaga um kennslutíma verða að fullu komin til framkvæmda. Sveitarfélög geta boðið nemendum lengri viðveru í skóla utan daglegs skólatíma.

Skóladagar nemenda skulu eigi vera færri en 170 á skólaári.

Heildartímanum, sem er til ráðstöfunar í hverjum bekk, er skipt niður á skyldunámsgreinar í svokallaðri viðmiðunarstundaskrá. Hún segir til um vægi námsgreina innbyrðis og sýnir lágmarkskennslu sem hver nemandi á rétt á í einstökum námsgreinum.
 
 
Bekkir 1.b. 2.b. 3.b. 4.b. 5.b 6.b. 7.b 8.b. 9.b. 10.b. Alls % af bundnum stundum
Námssvið                        
Íslenska
6
6
6
6
5
5
5
5
5
5
54
19
Stærðfræði
5
5
5
5
5
5
5
5
5
5
50
17
Danska            
3
3
4
4
14
5
Enska        
2
2
2
3
3
4
16
6
Heimilisfræði
1
1
1
1
2
2
2
2
   
12
4
Íþróttir
3
3
3
3
3
3
3
3
3
3
30
10
Listir
4
4
4
4
4
4
4
4
   
32
11
Lífsleikni      
1
1
1
1
1
1
1
7
2
Náttúrufræði
2
2
2
2
3
3
3
3
3
3
26
9
Samfélagsgreinar og kristinfr.
3
3
3
3
4
4
3
3
2
2
30
10
Upplýsinga- og tæknimennt
2
2
2
2
2
2
2
2
   
16
6
                         
Bundnarstundir
26
26
26
27
31
31
33
34
26
27
287
100
Val
4
4
4
3
4
4
2
3
11
10
49
 
Vikustundir alls
30
30
30
30
35
35
35
37
37
37
336
 

Í viðmiðunarstundaskránni fá íslenska og stærðfræði mestan tíma eða um 36% heildartímans í grunnskólum. Þessar námsgreinar eru skilgreindar sem kjarnagreinar vegna mikilvægis þeirra sem undirstöðu náms í öðrum greinum. Einnig er lögð áhersla á þjálfun í íslensku í öllum námsgreinum og öllu starfi nemenda í skóla.

Í viðmiðunarstundaskrá er gert ráð fyrir að einstakir skólar geti ráðstafað hluta þess lágmarkstíma sem lög ákveða. Í 1.-8. bekk er þetta svigrúm um 12% og er ætlast til að skólar geri grein fyrir því í skólanámskrá hvernig þeir hyggjast verja þessum tíma. Heimilt er að nota hann til að auka kennslu í kjarnagreinum eða öðrum skyldunámsgreinum. Einnig má nýta hann til að ná staðbundnum markmiðum skólans eða til kennslu efnis sem ekki er í aðalnámskrá grunnskóla.
 

Val og valgreinar

Í 9. og 10. bekk er gert ráð fyrir að einstakir skólar skipuleggi tæplega 30% heildartímans. Ætlast er til að í þessum bekkjum sé nemendum gefinn kostur á að velja námsgreinar og námssvið. Tilgangurinn með auknu valfrelsi nemenda er að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa.

Með þessu vinnst einkum þrennt. Í fyrsta lagi er ekki horfið frá sjónarmiðum um nauðsyn almennrar menntunar á grunnskólastigi, samanber ákvörðun um kjarnagreinar og viðmiðunarstundaskrá. Í annan stað er nemendum gefinn kostur á því með vali að nálgast tiltekin greinasvið eftir áhuga eða fyrirætlunum um framhaldsnám. Í þriðja lagi gefst nemendum kostur á að velja sig frá greinum eða námssviðum sem ekki höfða til þeirra eða minni þörf er á miðað við framtíðaráform.

Inntak valnáms í 9. og 10. bekk má fella í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi er um að ræða val sem miðar að skipulegum undirbúningi fyrir nám á bóknámsbrautum framhaldsskóla. Í öðru lagi er val sem miðar að skipulegum undirbúningi undir starfsmenntun, list- eða tækninám. Í þriðja lagi eiga nemendur að geta valið um viðfangsefni sem einkum miða að því að víkka sjóndeildarhring þeirra eða stuðla að lífsfyllingu.

Valgreinar eru hluti af skyldunámi. Grunnskólar skulu skilgreina og skýra markmið valgreina sem boðnar eru fram, leggja fram kennsluáætlanir, yfirlit yfir námsefni og ákvarðanir um námsmat og kynna nemendum og foreldrum að fengnu samþykki sveitarstjórnar.

 
 

KENNSLA OG KENNSLUHÆTTIR

Kennsla beinist að því að hjálpa nemendum að tileinka sér þekkingu og skilning, að móta sér skoðanir og viðhorf og ná leikni og færni á tilteknum sviðum. Kennsla miðar að því að nemendur nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Kennsla er því leið að fyrir fram settu marki.

Í skólastarfi á að ríkja fjölbreytni í vinnubrögðum og kennsluaðferðum. Kennarar bera faglega ábyrgð á að velja heppilegustu og árangursríkustu leiðirnar til að ná markmiðum aðalnámskrár og skólanámskrár. Við val á kennsluaðferðum og vinnubrögðum verður að taka tillit til markmiða sem stefnt er að, aldurs, þroska og getu nemenda sem í hlut eiga hverju sinni og eðlis viðfangsefnisins. Vönduð kennsla, sem lagar sig að markmiðum og nemendum, eykur líkur á árangri.

Kennsluaðferðirnar og vinnubrögðin í skólanum verða að þjóna þeim markmiðum sem stefnt er að hverju sinni. Markmiðum, sem lúta að eflingu félagsþroska, verður t.d. því aðeins náð að nemendur fái tækifæri til samvinnu. Markmiðum, sem lúta að því að þjálfa nemendur í lýðræðislegum vinnubrögðum, verður best náð með því að skipuleggja nám og kennslu og önnur samskipti út frá þeim.

Markmið skólastarfs eru margvísleg, allt frá markmiðum, sem varða afmarkaða þætti kunnáttu, leikni og viðhorfa, til langtímamarkmiða sem skólum er ætlað að sinna og einstaklingar halda áfram að vinna að eftir að skólagöngu lýkur. Grunnskólinn á að skila af sér sjálfstæðum nemendum sem hafa öðlast sjálfstraust og öryggi. Þeir eiga að kunna að læra, hafa kjark til frumkvæðis og sjálfstæðra vinnubragða, geta unnið með öðrum og kunna að tjá sig skýrt og skilmerkilega í töluðu og rituðu máli. Á þessa þætti ber að leggja áherslu í öllu starfi skólans allt frá upphafi skólagöngu. Val á kennsluaðferðum og skipulag skólastarfs verður að miðast við þá skyldu grunnskóla að sjá hverjum nemanda fyrir bestu tækifærum til náms og þroska. Kennslan verður að taka mið af þörfum og reynslu einstakra nemenda og efla með nemendum námfýsi og vinnugleði. Kennsluaðferðir mega ekki mismuna nemendum eftir kynferði, búsetu, uppruna, litarhætti, fötlun, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu.
 
 

NÁMSGÖGN

Námsgögn, kennsluaðferðir og vinnubrögð sem skólar kjósa að viðhafa, skipulag skólastarfsins og námsmatið á allt að taka mið af settum markmiðum og vera þannig útfært að möguleikar nemenda á að ná þeim séu nýttir til hins ítrasta. Námsgögn gegna því mjög þýðingarmiklu hlutverki sem leið að markmiðum aðalnámskrár og skóla. Sem dæmi um námsgögn má nefna prentað efni, s.s. námsbækur, handbækur og leiðbeiningarrit af ýmsu tagi, myndefni ýmiss konar, s.s. ljósmyndir, kvikmyndir, myndbönd, veggspjöld, hljóðefni eins og hljómbönd og hljómdiska, tölvuforrit, efni á Netinu, margmiðlunarefni, efni til verklegrar kennslu o.fl.

Samkvæmt lögum eiga grunnskólanemendur að fá námsgögn til afnota sér að kostnaðarlausu í þeim námsgreinum sem aðalnámskrá grunnskóla kveður á um. Óheimilt er að krefja nemendur í skyldunámi um greiðslu fyrir kennslu, námsgögn eða annað sem þeim er gert skylt að nota í náminu samkvæmt aðalnámskrá.

Námsgögn eru til að ná markmiðum. Aðalnámskráin verður því leiðarljós námsgagnahöfunda og viðmiðun við val á námsgögnum. Jafnframt er aðalnámskráin viðmiðun fyrir mat og úttektir á gæðum og notagildi námsgagna.

Námsgögn, sem sérstaklega eru gerð eða valin til notkunar í grunnskólum, verða að höfða til nemenda, vera aðlaðandi, efni þeirra skýrt og skipulega fram sett og taka mið af því sem ætla má að nemendur hafi áður tileinkað sér. Námsgögn eiga að vera fjölbreytt og vönduð, auka þekkingu nemenda, dýpka skilning þeirra á sjálfum sér og umheiminum, þjálfa þá í margvíslegum vinnubrögðum og stuðla að því að þeir móti sér heilbrigð og holl lífsviðhorf. Námsgögn, sem nýta nýjustu upplýsingatækni, gera hvorttveggja í senn að miðla þekkingu og þjálfa nemendur í vinnubrögðum sem nýtast þeim í lífi og starfi.

Við gerð námsgagna og val á þeim skal þess gætt að mismuna ekki einstaklingum eða hópum vegna kynferðis, búsetu, uppruna, litarháttar, fötlunar, trúarbragða eða félagslegrar stöðu.
 
 

NÁMSMAT

Hverjum kennara og skóla ber að fylgjast vandlega með því hvernig nemendum gengur að ná þeim námsmarkmiðum sem aðalnámskrá og skólinn setja þeim. Námsmat miðar að því að afla sem öruggastrar vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstökum nemendum eða hópum gengur að ná settum markmiðum. Megintilgangur námsmats er því sá að afla upplýsinga sem hjálpa nemendum við námið, örva þá og hvetja til að leggja sig enn betur fram.

Námsmat á að veita nemendum og foreldrum þeirra, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi nemenda sem m.a. má hafa að leiðarljósi við frekari skipulagningu náms.
 

Aðferðir við námsmat

Námsmat í grunnskóla skal að jafnaði framkvæmt af kennurum skólans og skulu nemendur og forráðamenn þeirra fá sem gleggstar upplýsingar um námsárangur.

Námsmat fer ekki eingöngu fram í lok námstímans heldur er það einn af föstum þáttum skólastarfs, órjúfanlegt frá námi og kennslu. Mat á námi og framförum er því hluti skólastarfsins. Með námsmati er reynt að komast að því hvort nemandi hefur náð þeim markmiðum sem að er stefnt eða hversu vel hann hefur nálgast þau. Þar sem markmiðin eru margvísleg og hægt að fara ýmsar leiðir til að ná þeim, er augljóst að matsaðferðir verða að vera fjölbreytilegar. Þær verða að hæfa markmiðunum og endurspegla áherslur í kennslu. Þess er enginn kostur að meta námsgengi og framfarir eingöngu með prófum og öðrum formlegum aðferðum. Mörg markmið eru þess eðlis að einungis óformlegum aðferðum verður við komið. Niðurstöður námsmats verða því að byggjast jöfnum höndum á óformlegu mati kennara og á formlegum aðferðum, s.s. prófum og könnunum. Hafa verður hugfast að sum markmið eru þess eðlis að ekki kemur fram fyrr en seinna í lífinu hvort þeim varð náð eða ekki. Þau verða því ekki alltaf metin með venjulegu námsmati í skóla.

Námsmat á að vera óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt gagnvart nemendum. Það þýðir að meta verður alla þætti námsins, framfarir, þekkingu, skilning og leikni og láta þá vega í samræmi við áherslur í náminu. Ekki er t.d. nægilegt að meta eingöngu hvaða þekkingu nemandi hefur tileinkað sér þar sem hluti kennslunnar beinist óhjákvæmilega einnig að öðrum tegundum markmiða. Mikilvægt er að meta bæði verklega og bóklega þætti og prófa ýmist skriflega, verklega eða munnlega eftir því sem við á.

Með því að meta stöðu nemenda í upphafi námstímabils má fá gagnlegar upplýsingar sem auðvelda skipulag kennslu og gera námið markvissara. Námsmat þarf einnig að fara fram jafnt og þétt á námstímanum. Kennarar þurfa að hjálpa nemendum til raunhæfs sjálfsmats, gera þeim grein fyrir markmiðum náms og hvernig miðar í átt að þeim. Upplýsinga um námsgengi verður því að afla jöfnum höndum með mati sem fram fer í hverri kennslustund og mati sem nær til lengri tímabila, t.d. skólaárs.
 

Samræmd og stöðluð próf

Auk óformlegra matsaðferða eins og huglægs mats kennara og formlegra mælinga, t.d. með skólaprófum, könnunum og skipulegum athugunum, eru gerðar samræmdar mælingar á námsárangri í stærðfræði og íslensku í 4. og 7. bekk og í nokkrum námsgreinum í 10. bekk. Samræmdum prófum í þessum bekkjum er einkum ætlað að mæla hvort áfangamarkmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og gefa nemendum, foreldrum og starfsmönnum skóla og fræðsluyfirvöldum upplýsingar og viðmiðanir á landsvísu.

Niðurstaða skólamats og niðurstaða samræmdra prófa geta bætt hvor aðra upp og saman lagt til heildstæðar upplýsingar sem auðvelda nemendum að leggja mat á frammistöðu sína og árangur, veikar hliðar og sterkar og auðvelda skólum að skipuleggja kennslu við hæfi.

Í vaxandi mæli eiga skólar og einstakir kennarar aðgang að greinandi prófum og öðrum mælitækjum sem auðvelda könnun á tilteknum þáttum náms og kennslu. Stöðluð lestrarpróf, stærðfræðipróf, hreyfiþroskapróf, lesskimunarpróf sem spá fyrir um hugsanlegan lestrarvanda, staðlaðir spurningalistar og fleiri slík mælitæki geta reynst afar gagnleg hjálpartæki til að greina vandamál snemma á skólagöngunni og auka líkur á að ráðin verði bót á þeim með skipulegum aðgerðum.
 

Notkun niðurstaðna

Starfsmönnum skóla ber að gera nemendum og foreldrum/forráðamönnum vandlega grein fyrir því mati sem fram fer í skólanum.

Færa ber einkunnir nemenda og annan vitnisburð um skólagöngu þeirra reglulega, ekki sjaldnar en árlega, inn í sérstakar vitnisburðarbækur sem nemendur hafa heim með sér.

Vitnisburð verður að setja fram á skýran og ótvíræðan hátt þannig að nemendur og foreldrar skilji hvað við er átt. Nota má tölur, bókstafi, orð eða aðra framsetningu en ljóst þarf að vera hvaða markmið eiga í hlut og hvaða viðmiðun um frammistöðu var notuð. Einnig er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir takmörkunum námsmats. Einkunn í tölustöfum segir t.d. lítið ef ekki fylgir skrifleg eða munnleg skýring á því hvernig hún er fengin og hvað hún þýðir. Lögð er áhersla á munnlegan vitnisburð auk skriflegs vitnisburðar, einkum á fyrstu námsárunum.

Skólum er frjálst að ákveða sjálfir með hvaða hætti niðurstöður námsmats skólans eru birtar nemendum og foreldrum þeirra. Samræmi er æskilegt í framsetningu vitnisburðar í hverjum skóla. Nauðsynlegt er að gerð sé rækileg grein fyrir námsmatsreglum skóla og vitnisburðarkerfi í skólanámskrá þannig að nemendum, foreldrum og öllum starfsmönnum skóla sé ljóst hvaða kröfur eru gerðar, hvernig skólinn hyggst mæla eða meta hvort þær eru uppfylltar og hvers konar vitnisburðarkerfi eða einkunnaskali er notaður.

Þeir sem í hlut eiga, nemendur, foreldrar og starfsmenn skóla, verða allir að geta skilið niðurstöður námsmats á sama hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að nýta upplýsingarnar til að bæta nám og kennslu. Það er í þágu nemenda og forráðamanna þeirra að sem skýrastar upplýsingar liggi fyrir um hvar nemandi stendur í námi, bæði út frá eigin getu og einnig í samanburði við aðra nemendur.

Þegar mat er lagt á framfarir eða frammistöðu nemenda með hliðsjón af markmiðum grunnskóla er nauðsynlegt að hafa tvennt til viðmiðunar. Annars vegar þann nemanda sem í hlut á; þá er lagt mat á framfarir hans, ástundun og árangur miðað við eigin forsendur. Hins vegar samanburð við aðra, t.d. jafnaldra í skólanum eða landinu öllu. Til þess að upplýsingar þær sem námsmat gefur verði trúverðugar, réttlátar og heiðarlegar og byggi upp raunhæft sjálfsmat nemenda, verður að nota báðar þessar viðmiðanir.

Þegar um samræmd próf er að ræða gefur sá aðili, sem falin er framkvæmd prófanna, út yfirlit yfir heildarniðurstöður prófanna og dreifir til grunnskóla, foreldraráða við grunnskóla, framhaldsskóla og fræðsluyfirvalda. Þar skulu koma fram meðaltöl einstakra skóla eftir prófum, meðaltöl allra skóla og aðrar upplýsingar sem þarf til að skýra niðurstöðurnar og túlka þær. Heimilt er að láta öðrum í té upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa en ætíð skal gæta trúnaðar gagnvart einstökum nemendum.
 

Mat á skólastarfi

Mati á skólastarfi er yfirleitt skipt í innra og ytra mat. Með innra mati er átt við sjálfsmat stofnunar, unnið af starfsmönnum hennar. Með ytra mati er átt við úttekt á starfsemi stofnunar sem unnin er af utanaðkomandi aðilum.

Í gildandi lögum um grunnskóla er í fyrsta skipti að finna ákvæði um mat á skólastarfi. Þar er megináhersla lögð á sjálfsmat skóla en jafnframt ber menntamálaráðuneytinu að sjá til þess að fram fari ytra mat á starfsemi einstakra skóla eða á einstökum þáttum skólastarfs og jafnframt að úttekt sé gerð á sjálfsmatsaðferðum skóla.
 

Sjálfsmat

Sjálfsmat er leið til þess að vinna kerfisbundið að gæðum og umbótum í skólastarfi. Sjálfsmat er einnig leið til þess að miðla þekkingu og upplýsingum um skólastarf. Í sjálfsmati skal koma fram stefna og markmið skóla, skilgreining á leiðum til þess að ná þeim, greining á sterkum og veikum hliðum skólastarfs og áætlun um úrbætur. Megintilgangur þess er að gera starfsfólki skóla auðveldara að vinna að framgangi markmiða skólans, meta hvort þeim hafi verið náð, endurskoða þau og stuðla að umbótum. Þetta á jafnt við um markmið og áherslur í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá og staðbundin markmið sem skólarnir setja fram í skólanámskrám. Um leið skapar sjálfsmat faglegan grundvöll fyrir umbætur. Með sjálfsmati fer fram víðtæk gagnaöflun um skólastarfið sem veitir upplýsingar um í hve miklum mæli árangur skólastarfsins er í samræmi við markmið. Sjálfsmat er ekki unnið í eitt skipti fyrir öll heldur þarf stöðugt að vinna að því. Það er langtímamiðað en ekki einangruð aðgerð. Í sjálfsmatsskýrslu skóla þarf að vera ítarleg lýsing og greining á markmiðum og starfi skólans. Jafnframt er mikilvægt að í sjálfsmatsskýrslu skóla komi fram tillögur um úrbætur.

Í gildandi lögum um grunnskóla eru skýr ákvæði um að skólar skuli innleiða sjálfsmat. Samkvæmt lögunum er skólum í sjálfsvald sett hvaða aðferðum þeir beita við sjálfsmat. Í lögunum eru einnig ákvæði um að á fimm ára fresti skuli menntamálaráðuneytið láta fara fram úttekt á þeim sjálfsmatsaðferðum sem skólar nota.
 

Viðmið fyrir sjálfsmat

Þau atriði, sem menntamálaráðuneytið telur mikilvæg sem viðmið fyrir vinnu við sjálfsmat, eru að sjálfsmatið sé:
  1. Formlegt. Lýsing á aðferðum við sjálfsmat þarf að liggja fyrir í sjálfsmatsskýrslu, skólanámskrá og hugsanlega í fleiri skriflegum gögnum frá skólanum. Fram þarf að koma hvort um er að ræða viðurkennda sjálfsmatsaðferð eða samsetta og aðlagaða aðferð. Gera þarf grein fyrir því hvernig að sjálfsmatinu er staðið í heild. Í lýsingunni þarf að koma fram hverjir stjórna verkinu, hverjir vinna það á hverjum tíma og til hverra það nær.
  2. Altækt. Sjálfsmatið skal ná til allra helstu þátta skólastarfsins, þ.e. markmiða, stjórnunar, náms, kennslu, námsmats, nemenda, starfsfólks, aðbúnaðar og ytri tengsla. Ekki er þó gert ráð fyrir að skólar geti tekið jafn ítarlega á öllum þáttum á hverju ári.
  3. Áreiðanlegt. Mikilvægt er að sjálfsmatið byggist á traustum gögnum og áreiðanlegum mælingum. Gögn úr bókhaldi skólans, t.d. námsferilsskrá og fjarvistaskrá, þurfa að vera tiltæk. Skólar geta þó ekki í öllum tilvikum byggt á skráðum gögnum en þurfa þá að meta starf sitt með öðrum hætti, eins og viðhorfakönnunum meðal ólíkra hópa, t.d. meðal nemenda, starfsfólks, foreldra, viðtökuskóla, almennings, atvinnulífs og brautskráðra nemenda.
  4. Samstarfsmiðað. Allt starfsfólk þarf með einum eða öðrum hætti að koma að vinnu við sjálfsmatið. Við skipulagningu og undirbúning sjálfsmatsins þarf að kynna öllum starfsmönnum umfang verkefnisins. Jafnframt þarf að nást sátt um framkvæmd þess. Verkaskipting þarf að vera skýr og sömuleiðis stjórnun og ábyrgð. Á þessu stigi þarf að hafa í huga þátttöku nemenda, foreldra og annarra hagsmunaaðila í sjálfsmatinu.
  5. Umbótamiðað. Í sjálfsmatsskýrslu þarf að birta aðgerða- og starfsáætlun um þær umbætur í skólastarfinu sem vinna þarf að í kjölfar sjálfsmats. Einnig þarf að birta upplýsingar um hvernig markmiðum umbótaáætlunar verði náð. Viðmið um hvað bættur árangur felur í sér þurfa að vera skilgreind.
  6. Árangursmiðað. Skólinn skal vinna að því að meta hvort markmiðum skólans hafi verið náð og hvaða árangri skólastarfið hefur skilað út frá viðmiðum sem hann hefur sett sér. Þetta geta t.d. verið viðmið um námsárangur, vellíðan, umgengni, fjarvistir og brottfall.
  7. Stofnana- og einstaklingsmiðað. Sjálfsmatið þarf að beinast bæði að stofnuninni sjálfri og einstaklingum innan hennar. Sem dæmi um þetta má nefna mat á frammistöðu skólans í samanburði við aðra, t.d. á samræmdum prófum, og mat á stjórnun og kennslu.
  8. Lýsandi. Í sjálfsmatsskýrslu þarf að vera stutt, hnitmiðuð lýsing á starfsemi skólans (texti, myndir, töflur). Lýsingin þarf að hafa tengsl við markmiðssetningu.
  9. Greinandi. Í sjálfsmatsskýrslu þarf að birta styrkleika- og veikleikagreiningu sem sett er fram kerfisbundið við hvern þátt matsins og síðan í samantekt í lokin.
  10. Opinbert. Fyrir fram þarf að ákveða hverjir hafa aðgang að tilteknum þáttum sjálfsmatsins en sjálfsmatsskýrslu þarf að birta opinberlega. Hér þarf að tryggja að haldin séu í heiðri ákvæði gildandi laga, m.a. um meðferð persónuupplýsinga.

Ytra mat

Megintilgangur ytra mats á skólum er að fá heildarmynd af skólastarfinu eða einstökum þáttum þess eins og það er á hverjum tíma. Sjónum er beint að ýmsum þáttum í innra starfi skólanna, svo sem stjórnun, kennslu, þróunarstarfi, samstarfi og samskiptum í skólanum, námsárangri og tengslum skólans við samfélagið.
 

Úttektir á sjálfsmatsaðferðum

Úttektum á sjálfsmatsaðferðum skóla er ætlað að veita upplýsingar um hvernig grunnskólar uppfylla ákvæði laga um mat á skólastarfi. Þessar úttektir fela ekki í sér að fjalla eigi efnislega um einstaka þætti skólastarfsins eða bera saman skóla heldur er þeim ætlað að kanna hvort þær aðferðir, sem beitt er við sjálfsmat, uppfylli faglegar kröfur og styðji umbætur í skólum.

Úttektir á sjálfsmatsaðferðum skóla byggjast m.a. á mati á sjálfsmatsskýrslu viðkomandi skóla, heimsókn í skólann og viðtölum við stjórnendur og fulltrúa starfsmanna og nemenda. Til að fá sem skýrasta mynd af sjálfsmatsferlinu þurfa úttektaraðilar að kynna sér hvaða gögn skólinn hefur lagt til grundvallar sjálfsmatinu, úrvinnslu þeirra gagna og þær aðferðir sem skólinn hefur notað við sjálfsmatið. Sem dæmi um gögn skóla má nefna upplýsingar um nýtingu tíma, árangur á prófum, foreldrasamstarf og menntun og endurmenntun starfsmanna. Þau viðmið fyrir vinnu við sjálfsmat, sem fjallað er um hér að ofan, liggja einnig til grundvallar úttektum á sjálfsmatsaðferðum.

Úttektir á skólastarfi
Sem hluta af almennri eftirlitsskyldu menntamálaráðuneytisins getur það látið gera úttektir á skólastarfi. Slíkar úttektir geta tekið til ákveðinna þátta í skólastarfi, t.d. kennslu í ákveðinni faggrein, en geta einnig falið í sér heildarmat á starfi einstakra skóla.
 
 

TENGSL HEIMILA OG SKÓLA

Þrír hópar mynda skólasamfélagið í hverjum skóla, þ.e. nemendur, starfsfólk skólans og foreldrar. Mikilvægt er að þessir hópar vinni vel saman að mótun þessa samfélags og þeirra umgengnishátta sem eiga að einkenna samskipti innan skólans og utan. Til þess að það gangi vel þarf að ræða reglulega um áherslur og koma sér saman um meginviðmið.

Foreldrar/forráðamenn bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna. Á þeim hvílir sú skylda að börnin sæki skóla og að þau séu eins móttækileg fyrir þeirri menntun sem skólinn annast og framast er unnt. Skólinn aðstoðar foreldra í uppeldishlutverkinu og býður fram menntunartækifæri. Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, gagnkvæmu trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Mesta áherslu ber að leggja á samstarf heimila og skóla um hvern einstakling, nám hans og velferð og heimili og skóla sem vettvang menntunar. Einnig ber að leggja áherslu á samstarf í einstökum bekkjardeildum eða samkennsluhópum og árgöngum bæði um nám, velferð nemenda, bekkjaranda og meginviðmiðanir í uppeldisstarfi skólans.

Loks er mikilvægt að traust samstarf sé milli heimila og skóla um skólastarfið í heild, t.d. hvað varðar meginviðmiðanir í hegðun og umgengni, skólabrag, áhersluatriði í skólastefnu hvers skóla eða sveitarfélags. Gert er ráð fyrir að foreldrar taki þátt í mótun skólasamfélagsins og vinni að því með kennurum og öðrum starfsmönnum skóla að koma markmiðum skólastarfs í framkvæmd. Einnig að foreldrar taki í auknum mæli höndum saman til að tryggja börnum sem best uppeldisskilyrði og almenna velferð. Reynslan sýnir að öflugt foreldrastarf og sterk samstaða um grundvallarviðmið er besta forvörnin gegn hvers kyns vá, t.d. fíkniefnum. Ef foreldrar nemenda í bekk eða skóla ná að stilla saman strengi hvað varðar meginviðmiðanir í uppeldismálum, aukast líkur á árangri í skólastarfinu.
 

Upplýsingamiðlun

Fjölskylda, skóli og nánasta umhverfi eru sterkustu áhrifavaldar í mótun einstaklingsins. Gagnkvæm og virk upplýsingagjöf milli foreldra og starfsfólks skóla stuðlar að gagnkvæmu trausti milli aðila. Með auknum kynnum foreldra af daglegu starfi í skólanum og skipulegri samvinnu um skólastarfið, t.d. í tengslum við heimanám, aukast líkur á vellíðan nemenda og árangri. Það er mjög mikilvægt að foreldrar fylgist vel með skólagöngu barna sinna, líðan þeirra í skóla, námsárangri og framförum. Brýnt er að skólar gefi reglulega skýrar og góðar upplýsingar um skólastarfið og áætlanir sem liggja fyrir um starfsemi skólans. Þetta má gera með ýmsum hætti, t.d. í foreldraviðtölum, á sameiginlegum kynningarfundum með foreldrahópum, í skólanámskrá og á vefsíðu skólans.
 

Foreldrafélög

Starfsemi foreldrafélaga í grunnskólum er í stöðugri þróun. Við flutning grunnskólans til sveitarfélaga færðist ákvarðanataka í skólamálum nær foreldrum sem undirstrikar þörf fyrir formlegan samstarfsvettvang þeirra. Tilkoma foreldraráða við grunnskóla gefur tilefni til að endurskoða starfsemi foreldrafélaga og styrkja undirstöðuna enn frekar. Vel rekin og virk foreldrafélög við hvern skóla eru tvímælalaust af hinu góða. Foreldrar hafa þar vettvang til að ræða saman um skólagöngu barnanna og hvað eina sem varðar uppeldi og menntun. Til að ná sem bestum árangri er nauðsynlegt að þeir sem tengjast stjórnun og rekstri slíks félags velti fyrir sér markmiðum félagsins og hvernig sé hægt að skipuleggja starfið svo að þau markmið náist.
 

Foreldraráð

Foreldraráð eru vettvangur sem grunnskólar hafa til að kynna áform sín og fá formleg viðbrögð foreldra við þeim. Hlutverk foreldraráðs er samkvæmt grunnskólalögum einkum að fjalla um og gefa umsögn til skólans og skólanefndar um skólanámskrá sem öllum skólum er skylt að gefa út árlega. Foreldraráð á einnig að fylgjast með því að áætlanir séu kynntar foreldrum svo og að fylgjast með framkvæmd þeirra. Brýnt er að foreldrar nýti þennan formlega vettvang til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Foreldraráðin geta með öflugri starfsemi veitt skólum og skólayfirvöldum virkt og uppbyggjandi aðhald og komið með raunhæfar tillögur til umbóta.
 

Velferð nemenda

Auk nemenda eru í skólasamfélaginu kennarar og aðrir starfsmenn skólanna og foreldrar. Samstarf og samábyrgð þarf að ríkja í skólasamfélaginu og kennarar og aðrir starfsmenn skóla jafnt og foreldrar þurfa að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni sem fyrirmyndir.

Umsjónarkennarar gegna í þessu sambandi veigamiklu hlutverki. Fyrir hverja bekkjardeild eða námshóp skal skólastjóri velja umsjónarkennara. Hann er öðrum fremur tengiliður skólans við heimilin og einnig fylgist hann náið með námi nemenda sinna og þroska. Hann leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar þá og ráðleggur þeim um persónuleg mál. Umsjónarkennarar og námsráðgjafar gegna að þessu leyti mjög mikilvægu hlutverki.

Mikilvægt er að nemendur geti leitað til hvaða starfsmanns skóla sem er með mál sem snúa að velferð sinni og líðan og að brugðist sé við strax og á viðeigandi hátt ef upp koma vandamál af einhverju tagi, t.d. stríðni, einelti, agabrot eða vanlíðan.

Mikilvægt er að allt skólasamfélagið, þ.e. starfsfólk skóla, foreldrar og nemendur, taki þátt í umræðum og komi að stefnumótun í þeim fjölmörgu málefnum sem snúa að því sem fram fer í skólanum, hvort heldur um er að ræða námið sjálft eða andlega og félagslega vellíðan nemenda. Í skólum starfa foreldraráð og kennararáð og nemendum grunnskóla er heimilt að stofna nemendaráð sem eiga m.a. að vinna að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum þeirra. Samkvæmt grunnskólalögum skal skólastjóri að lágmarki tvisvar á ári boða til sameiginlegs fundar kennararáðs, foreldraráðs og nemendaráðs til að veita upplýsingar um skólastarfið og fjalla um málefni þessara ráða. Börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós í öllum málum sem þau varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Því þarf að leita allra leiða í skólum til að treysta almenna velferð nemenda í samvinnu við foreldra og tryggja að nemendur hafi tækifæri til að tjá sig um mál sem þá varðar og taka þátt í mótun skólasamfélagsins í samræmi við aldur og þroska. Þó verður ætíð að hafa hugfast að grunnskólanemendur eru ósjálfráða og lúta forsjá fullorðinna.

Skólastjóri skal sjá til þess að skólareglur séu settar. Skólareglur varða allt skólasamfélagið, þ.e. starfsfólk skólans og stjórn hans, nemendur og foreldra. Því er afar mikilvægt að sjónarmið foreldra fái notið sín við setningu skólareglna hvers skóla og að foreldrar séu sáttir við reglurnar. Á sama hátt er nauðsynlegt að fulltrúar nemenda eða nemendaráðs komi að gerð skólareglna og geti túlkað reglurnar fyrir skólafélögum og beri þannig nokkra ábyrgð á þeim. Samfara skólareglunum ber að birta viðurlög við brotum á þeim þannig að öllum aðilum sé ljóst hvaða reglur gildi í skólanum og hvaða viðurlög séu við brotum á þeim.

Æskilegt er að allir grunnskólar komi sér upp forvarnaráætlun sem m.a. felur í sér aðgerðir til að koma í veg fyrir agabrot ásamt vinnureglum um hvernig staðið skuli að málum ef skólareglur eru brotnar. Slíkar aðgerðir geta falið í sér að skólar skilgreini í skólanámskrá hvernig skuli unnið gegn ofbeldi, þar með talið einelti. Áætlun um hvernig skuli brugðist við ef upp kemst um einelti í skólanum verður að vera til og öllum aðilum þarf að vera ljóst hver vinnur með slík mál innan skóla og hvernig. Umræða um einelti þarf bæði að ná til starfsfólks skóla, foreldra og einnig til nemendanna sjálfra sem eru oftast þolendur og gerendur þegar einelti er annars vegar. Því er mikilvægt að settar séu ákveðnar reglur um samskipti og hegðun jafnt í skólanum sem utan hans.

Ein af grundvallarréttindum nemenda eru þau að hafa vinnufrið í skólanum þannig að þeir geti náð sem bestum tökum á náminu og að kennslan nýtist þeim sem best. Því þarf að leggja mikla áherslu á að skapa góðan vinnuanda í hverjum skóla og í einstökum bekkjardeildum. Leggja þarf áherslu á námsaga og sjálfsaga nemenda, góða umgengni, jákvæð samskipti, umburðarlyndi, kurteisi og háttvísa framkomu. Einnig ber að leggja áherslu á að styrkja sjálfsvirðingu nemenda, sjálfsmynd, virðingu nemenda gagnvart öðrum og eigum annarra. Þá aukast líkur á því að skólabragur verði jákvæður og að nemendum líði sem best í skólanum.

Brýnt er að skólahúsnæðið, búnaður skólans, tækjakostur, skólalóð og leið barna í skólann sé örugg. Reglulega þarf að hafa eftirlit með tækjabúnaði skólans, slysavörnum, eldvörnum og almennum hollustuháttum.

Efla þarf vitund nemenda um viðhorf sín, áhuga og hæfileika þannig að þeir fái notið sín í námi og starfi. Leggja ber áherslu á að nemendur átti sig á sterkum og veikum hliðum sínum og auki sjálfsþekkingu til að geta betur tekist á við kröfur samfélagsins.

Í grunnskólalögum eru ákvæði um að í öllum grunnskólum skuli nemendum gefinn kostur á því að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi á vegum skólans. Í tómstundastarfi barna á að marka leiðir til að auka færni þeirra til að takast á við dagleg viðfangsefni, úrræði til að efla sjálfstraust þeirra, félagslegan og siðferðilegan styrk, andlegan, sálrænan og líkamlegan þroska. Í félagsstarfi skólanna skal m.a. stefna að því að nemendur verði færir um að taka að sér félagsleg störf og einnig skal leggja áherslu á jákvæð samskipti og fjölbreytt félagsstarf í samræmi við áhuga nemenda, aldur og þroska. Mikla áherslu skal leggja á heilbrigða og holla lífshætti.
 

UNDANÞÁGUR FRÁ AÐALNÁMSKRÁ

Grunnskólinn er lögboðinn og öllum nemendum á aldrinum 6-16 ára er skylt að sækja skóla. Námið samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er skyldunám og því ekki um undanþágur að ræða frá aðalnámskrá. Þó eru í grunnskólalögum nokkur ákvæði sem heimila undanþágur frá skyldunámi og fyrirmælum aðalnámskrár.

Meginreglan er sú að börn byrja í grunnskóla á því almanaksári sem þau ná sex ára aldri. Samkvæmt 2. málsgrein 35. gr. grunnskólalaga má þó flýta eða seinka skólabyrjun í sérstökum tilvikum. Skólastjóri getur heimilað að barn hefji skólagöngu fimm ára eða sjö ára ef foreldrar/forráðamenn fara fram á það og sérfræðiþjónusta skóla mælir með því.

Grunnskólalög heimila einnig að nemandi ljúki öllu námi grunnskóla á skemmri tíma en tíu árum. Hér er átt við að mjög dugmiklir nemendur geti útskrifast úr grunnskóla einu eða jafnvel tveimur árum fyrr en aldur þeirra segir til um. Eðlilegt er að leggja það í hendur skólans með aðstoð sérfræðiþjónustu skóla og að fengnu samþykki foreldra að meta hvenær og hvernig flýting að þessu tagi fer fram.

Í vissum tilvikum getur nemandi fengið að fresta námslokum í grunnskóla. Þetta á við um nemendur sem lokið hafa 9. bekk en eru ekki taldir geta nýtt sér skólaveruna að fullu. Skólastjóri getur heimilað, með samþykki foreldra, að nemandinn hverfi úr skóla í allt að eitt ár.

Samkvæmt 35. gr. grunnskólalaga er menntamálaráðherra heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því.

Einnig er menntamálaráðherra heimilt samkvæmt lögum að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi náms í skyldunámsgrein. Sem dæmi um þetta má nefna að viðurkenna kunnáttu í öðrum erlendum málum í stað ensku og dönsku.

Mikilvægt er að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir. Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum hvað varðar trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms. Skólinn og heimilið skulu sjá til þess í sameiningu að þessir nemendur fái jafnvæg tækifæri til menntunar og þroska.

Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn, er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu. Forráðamaður skal þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr í námi meðan á undanþágutímanum stendur.
 
Til baka


EAN 1999