[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Heimilisfræði

FORMÁLI

Heimilisfræði er skyldunámsgrein í 1.-8. bekk grunnskóla en valgrein í 9. og 10. bekk. Í þessu námskrárhefti eru sett fram markmið heimilisfræðinnar, greint frá hlutverki hennar, fjallað um tengsl við aðrar greinar og greint frá kennslu og námsmati. Markmiðin eru af þrennum toga eins og á öðrum greinasviðum: lokamarkmið, áfangamarkmið og þrepamarkmið.

Lokamarkmið gefa heildarmynd af því sem stefnt skal að í kennslu námsgreinarinnar í grunnskóla. Þau skýra almennan tilgang náms og lýsa því sem skólar eiga að stefna að og nemendur eiga að hafa tileinkað sér að loknu skyldunámi.

Áfangamarkmið teljast meginviðmið fyrir nám og kennslu í hverri grein. Þau eru sett fram fyrir þrjú stig grunnskólans, yngsta stig (1.-4. bekk), miðstig (5.-7. bekk) og unglingastig (8.-10. bekk). Áfangamarkmið gefa heildarmynd af því sem ætlast er til að nemendur hafi almennt tileinkað sér að öllum áfanganum loknum.

Þrepamarkmið eru safn markmiða og viðfangsefna til að ná áfangamarkmiðunum. Þau eiga að lýsa skipulagi, samfellu og stígandi í kennslu námsgreinarinnar og sýna hvernig unnt er að útfæra áfangamarkmiðin nánar og raða þeim á einstök þrep.

Nánar er fjallað um markmiðssetningu í almennum hluta aðalnámskrár.
 

INNGANGUR

Heimilisfræði fjallar um manninn, líf hans og lífsskilyrði, líkamlegar og andlegar þarfir. Greininni er ætlað að stuðla að góðu heilsufari, hagsýni og verndun umhverfis. Stefnt er að því að auðvelda nemendum að takast á við daglegt líf og gera þá meðvitaða neytendur. Í heimilisfræði tengjast margir þættir sem snerta daglegt líf nemenda og þátt þeirra sem neytenda í nútímasamfélagi. Nemendur fá þjálfun í undirstöðuþáttum heimilisstarfa svo að drengir og stúlkur geti tekið þátt í störfum heima fyrir og orðið sjálfbjarga um heimilisrekstur þegar þau yfirgefa foreldrahús. Með breyttum þjóðfélagsháttum hefur stærri hluti af þessu verkefni færst frá heimilum til skóla þó að heimili og fjölskylda sé áfram burðarásinn í lífi nemenda.

Samkvæmt 2. grein grunnskólalaga er það hlutverk skólans að stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins nemanda.

Samkvæmt 29. grein sömu laga, um námskrá og kennsluskipan, á skólinn meðal annars að leggja áherslu á að stuðla að líkamlegri og andlegri velferð nemenda, heilbrigðum lífsháttum og ábyrgri umgengni við líf og umhverfi. Einnig á hann að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélagi, fjölskyldu- og atvinnulífi.

Markviss heimilisfræðikennsla í grunnskóla stuðlar að því að þessum markmiðum grunnskólalaga verði náð. Það er þjóðhagslega mikilvægt að nemendur fái þá undirstöðumenntun sem nýtist þeim til að takast á við líf í margslungnu þjóðfélagi sem tekur stöðugum breytingum og að auki leggja grunn að frekara námi.

Fjölskyldan er hornsteinn þjóðfélagsins. Því þarf að mennta sérhvern einstakling til þess að taka þátt í samstarfi fjölskyldunnar og geta borið ábyrgð á eigin lífi og annarra. Innan veggja heimilisins eru unnin margvísleg störf sem krefjast kunnáttu og skilnings sem hverjum einstaklingi er nauðsynlegt að hafa á valdi sínu. Hver og einn þarf einnig að þekkja þarfir sínar og vita hvernig þeim er best borgið. Samstarf og samheldni fjölskyldunnar hefur mikla þýðingu fyrir velferð hvers einstaklings. Í grunnskólalögum er ætlast til að bæði kynin séu fær um að annast heimili.

Námsþættir heimilisfræðinnar eru fjölbreyttir. Þeir fela í sér mikla möguleika til að þjálfa færni nemenda á ýmsum sviðum, meðal annars að tengja næringu og hollustu við kunnáttu í matargerð. Þekking hvers einstaklings í næringarfræði og færni hans og vilji til að beita þeirri kunnáttu getur skipt sköpum í nægtaþjóðfélagi nútímans. Erfitt getur verið að velja og hafna þar sem allt er falt og auglýsendur keppast um fjármuni fólks.

Íslendingar hafa sett sér manneldismarkmið sem ber að virða í öllu skólastarfi. Kannanir Manneldisráðs á neyslu landsmanna hafa leitt í ljós að neysla fitu og sykurs er of mikil hér á landi. Við þessu þarf að bregðast með markvissum hætti, til dæmis með því að nemendur og almenningur verði vel upplýstur í manneldismálum og hafi jákvætt viðhorf til heilbrigðra neyslu- og lífshátta. Það ætti að skila sér í bættu heilsufari þjóðarinnar.

Það er hagur hvers einstaklings að geta valið sér holla og góða næringu. Ætla má að kennsla í heimilisfræði, þar sem áhersla er lögð á holla næringu og góðar lífsvenjur, geti minnkað útgjöld til heilbrigðismála í náinni framtíð.

Þekking og leikni í heimilisstörfum veitir öryggi og lífsfyllingu. Að kunna til verka sparar tíma og varnar slysum og óhöppum.

Afkoma einstaklinga og heimila er að miklu leyti komin undir hagsýni, það er hæfileika til að meta neysluþarfir og haga innkaupum og kröfum í samræmi við þarfir og fjárhag. Því er mikilvægt að nemendur temji sér slík viðhorf ásamt sparsemi og útsjónarsemi í nýtingu verðmæta.

Mikilvægt er að heimilisfræðin taki mið af umhverfissjónarmiðum og veiti innsýn í vistfræði og glæði áhuga á umhverfisvernd. Hægt er að tengja umhverfis- og neytendasjónarmið á mjög áþreifanlegan hátt með verkefnum fyrir nemendur.

Fleiri þætti heimilisfræðinnar mætti telja, svo sem hreinlæti og þekkingu á meðferð matvæla sem snertir daglegt líf allra. Heimur örvera er ekki sýnilegur berum augum, það er því óhjákvæmilegt að þessum þætti í náminu séu gerð góð skil, vanræksla á þessu sviði getur skaðað heilsu fólks.
 

Nám og kennsla

Heimilisfræði er skyldunámsgrein í 1.-8. bekk grunnskóla en valnámsgrein í 9. og 10. bekk. Þar sem margir nemendur ljúka námi í greininni við lok 8. bekkjar verður að taka tillit til þess við val á viðfangsefnum í skyldunáminu.

Heimilisfræðin fæst við að auka þekkingu og leikni í heimilisstörfum og að stuðla að upplýstum og meðvituðum neytendum. Aðalinntaki heimilisfræðinnar má skipta niður í nokkra skylda námsþætti sem snerta daglegt líf nemenda. Þessir þættir eru næring og hollusta, matreiðsla og vinnubrögð, matvælafræði, hreinlæti, neytendafræði og umhverfisvernd og aðrir þættir þar sem einkum er fjallað um samstarf og samábyrgð innan fjölskyldunnar og ábyrgð einstaklingsins á heilbrigði og lífsháttum. Með framsetningu markmiða eru hverjum og einum þessara þátta gerð sérstök skil. Þættirnir eru skyldir svo að alltaf verður um nokkra skörun að ræða sem tengir þá saman og stuðlar að heilsteyptu námi.

Í heimilisfræði er fengist við bæði verklega og bóklega kennslu. Mikilvægt er að samþætta eins og kostur er bóklega og verklega þætti námsins með því til dæmis að kenna næringar-, matvæla- og neytendafræði í beinum tengslum við matargerð og innkaup. Verkleg kennsla fer aðallega fram í kennslueldhúsum en einnig er hægt að færa verklegu kennsluna út í náttúruna (grilla eða elda við bál), í tölvuver (næringarforrit, margmiðlunarefni), í matvöruverslanir í nágrenni skólans (vöruskoðun, umbúðamerkingar, vöruverð, auglýsingar og uppröðun vörunnar) og matvælafyrirtæki (vettvangsheimsókn). Bókleg kennsla fer fram ýmist í kennslueldhúsinu í tengslum við verklega kennslu, í öðrum kennslustofum skólans, tölvuveri eða á bókasafni.

Verkleg þjálfun liggur eins og rauður þráður í gegnum allt heimilisfræðinámið. En auk þess sem stefnt er að því að námið sé færnimiðað þarf það einnig að vera þekkingarmiðað, sköpunarmiðað og viðhorfamiðað.

Námið er hugsað í þrepum sem þyngjast stig af stigi þar sem farið er frá hinu einfalda til hins flókna, frá hinu nálæga og þekkta til hins fjarlæga og ókunna. Í upphafi náms er lögð áhersla á grundvallaratriði en með aukinni þjálfun og sjálfstæðum vinnubrögðum við verklegt og bóklegt nám þarf að gera auknar kröfur um skilning og leikni.

Heimilisfræðin býr yfir fjölbreytni í vinnubrögðum og tengist fjölmörgum öðrum greinum með margvíslegum hætti. Mikilvægt er að nýta þá möguleika til samþættingar sem bjóðast. Nálgun viðfangsefna frá mörgum hliðum ætti að stuðla að dýpri skilningi og auka heildarsýn nemenda. Við skipulag kennslu ættu kennarar að huga sameiginlega að þessum möguleikum og vinna saman að þeim.

Hér verða nefnd nokkur dæmi um tengsl heimilisfræði við aðrar námsgreinar grunnskólans. Eðli málsins samkvæmt er mál- og lesskilningur nemanda forsenda þess að hann geti tileinkað sér námsefni í heimilisfræði eins og í öðrum námsgreinum. Nemandinn þarf að skilja orð og hugtök sem unnið er með og geta farið eftir munnlegum og skriflegum leiðbeiningum. Við náttúrufræði eru margar tengingar. Má þar til dæmis nefna ræktun grænmetis, sveppatínslu, umhverfisvernd, efna- og eðliseiginleika matvæla, verkun sápu, blettahreinsun og meðferð stofuplantna. Stærðfræðinni tengjast meðal annars mál og vog, orkureikningar og útreikningar á næringargildi matvæla. Einnig að minnka og stækka mataruppskriftir. Matarmenning þjóðarinnar og annarra þjóða í gegnum tíðina tengist bæði sögu, landafræði og trúarbragðafræði. Það að vinna með erlendar mataruppskriftir tengist erlendum tungumálum. Og það að bera ábyrgð á eigin heilsu tengist meðal annars íþróttum.
 

Námsmat

Markmið námsins eru grundvöllur námsmats í heimilisfræði eins og í öðrum greinum. Þar sem verkleg þjálfun er stór hluti heimilisfræðinnar er nauðsynlegt að þar fari fram símat á framförum nemenda. Með verklegum og skriflegum prófum má ganga úr skugga um hvort nemendur hafi tileinkað sér þá færni og þekkingu sem stefnt er að. Þá eru einnig verkefni og vinnubækur nemenda metnar.

[Til baka]


EAN 1999