[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla

Áfangamarkmið í íslensku við lok 4. bekkjar

Í þessum áfanga liggur megináhersla í íslenskukennslu á grunnþjálfun í lestri og ritun. Á fyrsta námsári er líklegt að verulegur hluti tímans fari í að kenna stórum hluta nemenda undirstöðuatriði lestrar. Þeir sem koma læsir í grunnskóla þurfa að fá verkefni við hæfi. Við lok þessa áfanga er ætlast til þess að nemandinn hafi náð tökum á undirstöðuatriðum lestrar og geti lesið viðeigandi texta sér til ánægju og létta texta sér til gagns og upplýsingaöflunar. Lestrarkennslan og þjálfunin tengist bókmenntaþætti móðurmálsins með lestri bókmennta og upplestri. Um leið kynnist nemandinn grundvallarhugtökum á bókmenntasviði. Þá fer einnig fram þjálfun í hlustun og áhorfi þegar nemandi fær tækifæri til að hlusta á sögur og ljóð sér til skemmtunar og afþreyingar og taka þátt í og fylgjast með leikrænni tjáningu, leikritum og jafnvel kvikmyndum eða myndböndum. Æskilegt er að tengja bókmenntakynningu við beina málþjálfun, bæði með því að nemendur fái tækifæri til að flytja texta munnlega með upplestri, endursögn, söng, flutningi á efni sem hefur verið lært utan að, leikrænni tjáningu og að búa til bækur, blöð og veggspjöld. Einnig má nýta bókmenntalesturinn til að auðga orðaforða, ræða um orðafar og texta með einföldum málfræðilegum hugtökum.

Á fyrsta námsári felst ritunarnámið að mestu leyti í því að draga til stafs, þekkja skriftaráttina og þjálfa fínhreyfingar. Hvetja skal nemanda til að semja texta sem hann fær aðstoð við að skrá þangað til hann er orðinn fær um slíkt sjálfur. Þegar nemandi er orðinn fær um að skrifa samfelldan texta er rétt að hann fái sem fyrst tækifæri til að skrifa texta sem er áhugaverður á einhvern hátt fyrir hann og jafnframt þjálfast í að skrifa þá skriftargerð sem honum hefur verið kennd og að skrifa rétt. Þetta geta verið textar sem lýsa atburðum, hlutum eða öðru sem tengist nemandanum sjálfum, heimili hans, fjölskyldu eða skólanum, lýsingar á eigin myndum eða annarra.

Í málfræðiþætti þessa áfanga ber fyrst að leggja mesta áherslu á þau atriði sem nýtast beinlínis í öðrum þáttum íslenskukennslu, einkum hugtök sem koma við sögu í sambandi við lestur og ritun, svo sem bókstafur, orð, málsgrein, efnisgrein, greinaskil og síðar hljóð, sérhljóð og samhljóð. Síðar má fara að nýta hugtök eins og nafnorð og skiptingu þeirra í sérnöfn og samnöfn í tengslum við ritun og stafsetningu. Mikilvægt er á þessu stigi að vekja áhuga og skilning nemenda á tungumálinu sem fyrirbæri, skoða það og leika sér með málið með margvíslegum hætti. Brýnt er að hafa í huga að markmið málfræðikennslu er annars vegar að kynna nemandanum hugtök sem hann getur nýtt sér í umfjöllun um málið í tengslum við aðra þætti þess, t.d. lestur og ritun, og hins vegar að auka skilning hans á málinu og þjálfa hann í að beita því og gera hann að betri málnotanda.
 

Við lok 4. námsárs á nemandi að

Lestur Talað mál og framsögn Hlustun og áhorf

Ritun

Bókmenntir Málfræði  
[Til baka]

EAN 1999