[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla

Áfangamarkmið í íslensku við lok 10. bekkjar

Á unglingastigi er áfram haldið lestrarþjálfun nemenda og lögð áhersla á kynningu bókmennta frá ýmsum tímum. Á þessum aldri eru gerðar auknar kröfur um skilning nemenda á grunnhugtökum í málfræði og bókmenntum. Hugtakanám og greining má þó aldrei verða markmið í sjálfu sér heldur verður að tengjast þeim markmiðum sem sett eru í öllum þáttum íslensku. Á unglingastigi er eðlilegt að nemendur fái nokkurt yfirlit yfir bókmenntasögu og málkerfi í því skyni að þeir geti betur gert sér grein fyrir samhengi bókmennta, uppbyggingu málsins og eigin málnotkun. 

Lögð er áhersla á innihaldsrík viðfangsefni sem tengjast hvers konar textum, málnotkun fjölmiðla og málefnum líðandi stundar. Unglingar eiga að fá tækifæri til að fjalla um eigin málnotkun og málnotkun ólíkra hópa í samfélaginu og ræða um stöðu og gildi móðurmálsins og hlutverk þess í samfélaginu og samfélagi þjóða. 

Gerðar eru auknar kröfur um að nemendur geti greint skipulega frá ýmsum viðfangsefnum bæði í mæltu máli og rituðu. Þeir eiga að fá markvissa þjálfun í framburði og framsögn og umræðum um margvísleg málefni í stórum og litlum hópum. 

Nemendur eiga að þjálfast í stafsetningu, ritun fjölbreytilegra verkefna og frágangi þeirra, bæði með persónulegri rithönd og með aðstoð tölvu- og upplýsingatækni. Leggja skal áherslu á að nemendur vinni verkefni í anda ferliritunar, þ.e. skrifi í skrefum, og fái þjálfun í að umrita texta og bregðast við athugasemdum annarra. Einnig eiga þeir að fá tilsögn og þjálfun í notkun heimilda. Nemendur eiga að fá ríkuleg tækifæri til að nýta tölvutæknina til upplýsingaöflunar og -miðlunar og þjálfast í gagnaleit á skólasafni og víðar.
 
 

Við lok 10. námsárs á nemandi að

Lestur   Talað mál og framsögn   Hlustun og áhorf   Ritun   Bókmenntir   Málfræði [Til baka]