[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Íslenskukennsla

FORMÁLI

Í aðalnámskrá grunnskóla er íslenskukennslu skipt í fjögur svið. Auk almennrar móðurmálskennslu í grunnskólum er sérstök námskrá fyrir nýbúa, þ.e. þau börn sem hafa annað móðurmál og íslensku sem annað tungumál. Einnig má telja íslensku fyrir heyrnarlausa sem sérstakt svið og loks táknmálskennslu heyrnarlausra. Er þetta í fyrsta sinn sem sett eru ákvæði í aðalnámskrá grunnskóla um sérstaka íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku, heyrnarlausa nemendur og táknmálskennslu fyrir heyrnarlausa.

Íslenskunámi er skipt í nokkra þætti, þ.e. lestur, talað mál og framsögn, hlustun og áhorf, ritun, bókmenntir og málfræði. Innbyrðis tengsl þessara þátta eru mikilvæg en einnig er lögð áhersla á að nemendur þjálfist í íslensku í öllum námsgreinum grunnskóla. Áherslurnar geta verið mismunandi eftir námsgreinum en einkum skal leggja áherslu á þjálfun í töluðu máli, lestri og lesskilningi og ritun, þ.m.t. réttritun. Námsgreinin íslenska í grunnskóla á því að vera heildstæð þar sem lögð er áhersla á innbyrðis tengsl þátta og viðfangsefna, innbyrðis jafnvægi allra þátta og eðlilega stígandi í náminu. Íslenska er viðamesta námsgrein grunnskóla, með 6 kennslustundir að lágmarki í 1.-4. bekk og 5 stundir að lágmarki í 5.-10. bekk grunnskóla. Samræmd próf eru haldin í íslensku í 4., 7. og 10. bekk samkvæmt grunnskólalögum.

Nemendur með annað móðurmál en íslensku hafa ólíkan menningarlegan, mállegan og námslegan bakgrunn. Þessir nemendur hafa því misjafnar forsendur til að takast á við almennt nám í íslenskum skólum. Þeir eiga rétt á því að fá íslenskukennslu við hæfi í grunnskólum með það að markmiði að þeir verði hæfir til að taka fullan þátt í skólastarfi og íslensku samfélagi. Íslenskukennslan þarf að taka mið af stöðu nemenda almennt í námi og mállegum og menningarlegum bakgrunni þeirra.

Heyrnarlaus börn læra ekki íslensku á sama hátt og önnur börn. Þau heyra ekki málið í umhverfinu og þurfa því að reiða sig á annars konar aðstæður til að eignast sitt fyrsta mál. Í aðalnámskránni eru kröfur um að skólar bjóði heyrnarlausum börnum að læra og þroskast á eigin forsendum til að þau geti tileinkað sér íslensku. Táknmál hefur grundvallarþýðingu fyrir málþroska, persónuleika og hugsun heyrnarlausra nemenda og fyrir líf og starf nemenda síðar. Hjá heyrnarlausum er táknmálið mikilvægasta uppspretta þekkingar og leið til að taka þátt í íslenskri menningu og menningu heyrnarlausra.

Í námskránni eru sett lokamarkmið fyrir alla námsþætti íslensku í grunnskóla. Sérstök lokamarkmið eru einnig sett fyrir íslenskunám nýbúa, þ.e. um íslensku sem annað tungumál fyrir nemendur sem hafa annað mál að móðurmáli. Einnig eru sett lokamarkmið fyrir íslenskunám heyrnarlausra og táknmálsnám heyrnarlausra. Áherslur á einstökum skólastigum koma fram í áfangamarkmiðum eftir 4., 7. og 10. bekk. Loks eru sett þrepamakmið fyrir hvern þátt íslenskunáms í grunnskóla fyrir 1.-10. bekk. Ekki eru þó sett sérstök þrepamarkmið fyrir íslenskunám heyrnarlausra og íslenskunám nýbúa en gert ráð fyrir að áfangamarkmiðin séu útfærð fyrir nemendur og eftir því sem kostur er einnig tekið mið af þrepamarkmiðum sem skilgreind eru almennt fyrir íslensku.

Litið er á þrepamarkmiðin sem nánari útfærslu á áfangamarkmiðum þar sem fram kemur eðlileg stígandi í náminu allt frá upphafi grunnskóla til loka. Ólíkir nemendur eiga að fá viðfangsefni eftir því sem þroski, hæfni og áhugamál leyfa. Því geta nemendur á sama aldri verið staddir á mismunandi þrepum í námi. Skólar geta raðað þrepamarkmiðum á annan hátt en aðalnámskrá gerir og birt þau í skólanámskrá.
 
[Til baka]