[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Íslenska fyrir heyrnarlausa

Áfangamarkmið í íslensku fyrir heyrnarlausa við lok 7. bekkjar

 
Í íslenskunámi heyrnarlausra er táknmálið grundvöllur allrar vinnu, bæði við kennslu og sem það mál sem nemendur tengja íslenskukunnáttu sína við. Eftirfarandi umfjöllun um nám og kennslu miðast við 5.-10. bekk.

Málfræði táknmáls er meginforsenda þess að nemendur geti lært íslenska málfræði. Þar með hafa þeir þann grunn sem þarf til að byggja á og hægt er að vísa í til samanburðar. Æskilegast er að nota merkingarríkan texta sem nemendur þekkja og skilja og hafa jafnvel samið sjálfir til að leiða þeim fyrir sjónir að málfræðin er órjúfanlegur hluti ritmáls og kunnátta í henni eykur færni í ritmáli.

Í bókmenntum eru markmiðin mjög svipuð og í almennri námskrá í íslensku. Leiðirnar hljóta þó alltaf að vera frábrugðnar, þ.e. byrjað er á að leggja innihaldið fyrir á táknmáli, góðum tíma er eytt í umræður um efnið til að dýpka skilning og ýta undir gagnrýna hugsun. Þá er tekið til við lesturinn og þess gætt að lesskilningur sé ávallt fyrir hendi og að lokum hefst sjálft ritunarferlið. Þar er að mörgu að hyggja, nemendur þurfa að koma hugsunum sínum í orð og hér skal enn og aftur bera saman uppbyggingu íslensks ritmáls og táknmáls. Námsþættirnir áhorf og ritun eru vel til þess fallnir að tengja saman íslensku og táknmál undir handleiðslu bæði táknmáls- og íslenskukennara.

Leggja ber áherslu á að nemendur nái viðunandi færni í ritmáli þar sem framtíðarnám og -starf getur krafist þess að þeir geti skrifað skýrslur, ritgerðir, bréf, atvinnuumsóknir, lesið námsbækur, fræði- og menningarrit.

Mikilvægt er að lesnir séu textar frá ýmsum tímum og með merkingarríku innihaldi. Með aðstoð kennara geta bókmenntir aukið víðsýni og upplifun nemenda og mætt þörf þeirra fyrir gott mál, ýtt undir forvitni og áhuga á lífi fólks í gegnum aldirnar. Kennarar þurfa að ráða miklu um val lesefnis en jafnframt að hvetja nemendur til að velja bækur. Markmiðið með frjálsum lestri er einkum að örva lestrargleði nemenda og glæða máltilfinningu þeirra. Veita skal nemendum innsýn í bókmenntasögu Íslendinga, m.a. smásögur og ljóð en auk þess sýnishorn fornbókmennta, þjóðsagna, ævintýra, gamansagna og þýddra bókmennta. Verk eftir heyrnarlausa höfunda geta aukið áhuga og vídd í bókmenntanámi. Einnig ber að sinna myndefni og efla skilning nemenda á boðskap þess og áhrifamætti. Eins og áður segir getur bókmenntavinna auðveldlega fléttast inn í táknmálskennslu, bæði í umræðum um verk og persónulega túlkun á því.

Í ljóðakennslu ber fyrst og fremst að leggja áherslu á innihald og túlkun ljóðsins en kynna lítillega fyrir nemendum reglur bragfræðinnar og þróun í íslenskri ljóðlist.

Mikilvægt er að tengja bókmenntakynningu við aðra þætti íslenskukennslunnar á markvissan hátt. Í því felst m.a. að nemendur fái þjálfun í mismunandi lestri með því að lesa suma texta af nákvæmni en aðra hraðar, endursegja texta á táknmáli, fara með ljóð á táknmáli sem þeir hafa lært, að nemendur þjálfist í ritun með því að reyna að skrifa texta af svipaðri gerð og þeir lesa, bæði með útdrætti og með því að semja sjálfir bókmenntalega texta og setja upp stutta leikþætti úr innihaldi textans.

Persónuleg ritun er einnig veigamikill þáttur í að auka orðaforða og lesskilning. Markvisst má auka orðaforða nemenda með því að nota reynsluheim og áhugasvið þeirra. Auk frumsaminna ritverka er nauðsynlegt að nemendur æfist í að skrifa endursagnir þar sem reynir á athygli þeirra og úrvinnsluhæfni sem og að þeir öðlist innsýn í heimildavinnu með notkun handbóka, uppflettirita, gagnasafna og Netsins.
 

Við lok 7. námsárs á nemandi að

Lestur

  Tjáning, umræður, rökræður og endursögn   Áhorf   Ritun   Bókmenntir   Málfræði  
[Til baka]

EAN 1999