[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Íslenska fyrir heyrnarlausa

Inngangur

Heyrnarlaus börn læra ekki íslensku (þjóðtunguna) á sama hátt og heyrandi börn, þau hafa ekki heyrn og heyra því ekki málið (íslensku) í umhverfinu. Hafi heyrnarlaust barn táknmálsfyrirmyndir strax frá upphafi, byggir það upp málþroska sinn á sama hátt og heyrandi barn. Í 90-95% tilvika fæðist heyrnarlaust barn inn í heyrandi fjölskyldu. Barnið þarf því að reiða sig á tilteknar aðstæður til að eignast sitt fyrsta mál. Því er afar brýnt að samfélagið grípi strax inn í og skapi þær aðstæður fyrir heyrnarlaust barn að það eignist sitt fyrsta mál og læri síðan þjóðtunguna á þeim grunni. Samfélagið verður að bjóða heyrnarlausum börnum upp á aðstæður í leikskóla og grunnskóla sem henta þeim best, þ.e. að fá að læra og þroskast á eigin forsendum. Eins þurfa foreldrar að eiga greiðan aðgang að táknmálsnámi. Mikilvægt er að traust samstarf sé á milli heimila og skóla um sérstaka íslenskukennslu heyrnarlausra og táknmálskennslu.

Á undanförnum árum hefur hér á landi verið fylgt svokallaðri tvítyngisstefnu. Forsenda tvítyngisstefnunnar er að ganga út frá táknmáli, þ.e. að öll kennsla fari fram á táknmáli og nemendur læri síðan önnur mál á þeim grunni. Vænta má betri árangurs þessara barna fái þau að læra annað mál á táknmáli. Það er mjög mikilvægt að borin sé jöfn virðing fyrir báðum málunum, þ.e. táknmálinu og íslensku.

Í íslensku samfélagi, þar sem langflestir eiga íslensku sem móðurmál og allar almennar upplýsingar eru gefnar á íslensku (sbr. dagblöð, tímatöflur strætisvagna, skilti hvers konar o.fl.), verður hinn heyrnarlausi að geta tileinkað sér þjóðtunguna. Skapa verður skilyrði til þess.

Skólinn verður að sjá fyrir metnaðarfullri íslenskukennslu sem hentar heyrnarlausum nemendum.

Hinn heyrnarlausi verður að læra annað tungumál í gegnum sjón en ekki heyrn og tal eins og þeir sem hafa fulla heyrn. Hann mun aldrei nota málið á sama hátt og hinir heyrandi, samskiptin byggjast á ritun og lestri, þ.e. á ritmálinu.

Kennsla heyrnarlausra í íslensku í grunnskólum á að veita nemendum möguleika til að þróa þekkingu sína á því hvernig íslenska ritmálið er upp byggt og hvernig það er notað. Einnig þarf að auka kunnáttu þeirra í að lesa, tjá sig og skrifa, veita þeim tækifæri til að lesa bókmenntir, tileinka sér góðar lestrarvenjur og kynnast íslenskri menningu.

Í íslensku ritmáli má finna ýmis menningarleg auðæfi þjóðarinnar. Ritmálið er samskiptamiðill manna og milli manna og samfélags. Þess vegna verður skólinn að ábyrgjast að nemendur læri ekki einungis að nota íslenskt mál í ritun, nemendur verða líka að öðlast öryggi í málnotkun sinni.
 
 

Nám og kennsla

Kennsla í íslensku fyrir heyrnarlaus börn verður að taka mið af því að börnin eru að læra sitt annað mál og aðaláherslan verður að vera á ritmálið því að sá heyrnarlausi lærir íslensku í gegnum sjón en ekki heyrn.

Forsenda þess að heyrnarlausir geti tekið virkan þátt í samfélaginu er að þeir geti notað íslenskt ritmál til viðbótar við táknmálið. Hlutverk skólans er að stuðla að því að nemendur verði tvítyngdir við lok grunnskóla, þ.e. með táknmál sem fyrsta mál og íslensku sem annað mál.

Í þessari námskrá eru sett sérstök lokamarkmið fyrir íslenskukennslu heyrnarlausra. Lokamarkmiðin eru sett í nánum tengslum við lokamarkmið táknmálskennslu fyrir heyrnarlausa og lokamarkmið íslensku almennt. Einnig eru sett áfangamarkmið fyrir þrjú stig grunnskóla, þ.e. 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Ekki eru sett sérstök þrepamarkmið fyrir þessa kennslu en ætlast er til þess að áfangamarkmiðin verði útfærð í skólum í ljósi áfangamarkmiða og þrepamarkmiða námskrár í íslensku eftir því sem kostur er miðað við þroska og aðstæður nemenda. Þrepamarkmið námskrár í íslensku gilda einnig fyrir heyrnarlausa eftir því sem við verður komið, en í þessari námskrá eru einkum sett sérstök markmið í íslensku fyrir heyrnarlausa nemendur.
 

Námsmat

Námsmat heyrnarlausra í íslensku byggist á símati á verkefnavinnu og frammistöðu nemenda og formlegum prófum í 5.-10. bekk í samræmi við markmið og inntak námsins og skal taka til sem flestra þátta í námi nemandans.

Æskilegt er að leggja fyrir greinandi próf af ýmsu tagi í byrjun skólagöngu og oftar ef þurfa þykir. Mat á stöðu barns í upphafi skóla á að miklu leyti að byggjast á athugun og persónulegu mati kennara og annarra sérfræðinga.

Í 1.-4. bekk er hægt að meta

 • lestur, lesskilning, orðaforða
 • tjáningu
 • ritun
 • áhorf
 • Í 5.-7. bekk er hægt að meta
 • lestur, lesskilning, orðaforða, lestraráhuga, myndlestur
 • bókmenntir
 • ritun, skrift, frágang, stafsetningu og frjálsa ritun
 • málfræði
 • tjáningu
 • áhorf
 • Í 8.-10. bekk er hægt að meta
 • lestur, lesskilning, orðaforða, lestraráhuga, myndlestur, nákvæmnis- og leitarlestur
 • ritun, stafsetningu, greinarmerki, frjálsa ritun og sérstök ritunarverkefni þar sem fara á eftir ákveðnum fyrirmælum
 • bókmenntir
 • málfræði
 • tjáningu
 • áhorf
 • [Til baka]


  EAN 1999