[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Íslenska

Inngangur

Traust kunnátta í íslensku er ein meginundirstaða haldgóðrar menntunar. Íslenskukennsla er einn hornsteina grunnskólanáms og íslenska er ásamt stærðfræði kjarnagrein grunnskóla. Í aðalnámskrá grunnskóla er námsgreinin íslenska skipulögð sem heildstæð námsgrein auk þess sem þjálfun í íslensku er felld inn í allar námsgreinar grunnskóla. Í námskránni er einnig lögð mikil áhersla á öflugt samstarf við heimilin um þjálfun í íslensku á öllum stigum grunnskóla.

Móðurmál eða íslenska er í eðli sínu flókin og margbrotin námsgrein. Þjóðtungan, íslenska, gegnir mikilvægu hlutverki í því að efla þjóðernislega samkennd, ekki síst þegar um er að ræða fámenna þjóð eins og Íslendinga. Námsgreinin fjallar m.a. um þau menningarlegu verðmæti sem felast í móðurmálinu og íslenskum bókmenntum. Þar er líka fjallað um málið sem félagslegt fyrirbæri þar sem meðal annars er nauðsynlegt að átta sig á breytileika í máli, til dæmis eftir landshlutum eða kynslóðum, og nauðsyn þess að temja sér ákveðið umburðarlyndi í þessum efnum. Móðurmálið er samskiptatæki sem er notað bæði í hagnýtu og listrænu skyni, til að tjá tilfinningar eða vekja þær, tjá skoðanir eða leita eftir þeim, afla og miðla upplýsingum. Loks er í móðurmáli verið að fjalla um eitt megineinkenni hvers einstaklings, persónulegt málfar, sem er hluti af honum og sjálfsmynd hans. Því telst þekking á móðurmálinu, eðli þess, sögu og sérkennum, nauðsynlegur þáttur í almennri menntun. Góð þekking á máli gefur og færi á að beita því af listfengi og að meta gott og vandað mál. Gildi móðurmáls er mikið fyrir hvern einstakling og þroska hans. Í móðurmálskennslu er bæði fengist við mál fyrirmyndanna (bókmennta, kennara og foreldra) og mál nemenda.

Markviss öflun og miðlun upplýsinga með aðstoð tölvu- og upplýsingatækni er vaxandi þáttur í nútímasamfélagi. Þáttur tölvutækni í hvers konar ritun og ritvinnslu verður einnig æ mikilvægari. Traust undirstaða í móðurmáli og íslensku gerir nemendur hæfari til þess að tileinka sér þessa tækni, vega og meta á gagnrýninn hátt þær upplýsingar sem nálgast má með tölvutækni og margvíslegum öðrum miðlum nútímans.

Mikilvægt er að grunnskólanemendur öðlist skilning á sögulegu, menningarlegu og félagslegu gildi máls og bókmennta, átti sig á eðli móðurmálsins og lögmálum þess og fræðist um málnotkun í fjölmiðlum. Mikilvægt er að nemendur nái góðri færni á öllum sviðum málnotkunar bæði í ræðu og riti, geti tjáð skoðanir, hugmyndir og tilfinningar og öðlist traust á eigin málnotkun. Þá er einnig mikilvægt að þeir læri að virða og meta móðurmálið og temji sér umburðarlyndi gagnvart málnotkun annarra.
 
 

Nám og kennsla

Með íslenskukennslu í grunnskólum eiga nemendur að öðlast jákvætt viðhorf til íslensku og kynnast áhrifamætti málsins og margbreytileika. Þeir eiga að nýta móðurmálskunnáttu sína við lausn skólaverkefna og í félags- og tómstundastarfi og þjálfast í notkun handbóka og gagnabanka á íslensku. Þeir eiga að fá ríkuleg tækifæri til að leika sér með tungumálið með margvíslegum hætti, fá tækifæri til túlkunar, tjáningar og sköpunar, fá viðfangsefni í samræmi við þroska, hæfileika og áhugamál, þjálfast í sjálfstæðum vinnubrögðum og öðlast hæfni í að leysa verkefni í samstarfi við aðra.

Öflug samvinna við heimilin um móðurmálskennslu og móðurmálsuppeldi er lykilatriði á öllum stigum grunnskóla. Leggja þarf áherslu á að móðurmálskennsla sé samstarfsverkefni heimila og skóla og að foreldrar gegni veigamiklu hlutverki í að styrkja og rækta móðurmálið og viðhalda áhuga nemenda, ekki síst hvað varðar lestrarþjálfun, meðferð talaðs máls og almenna málrækt. Mikilvægt er að foreldrar taki virkan þátt í að treysta kunnáttu barna sinna í móðurmáli á öllum sviðum í nánu samstarfi við skólann, m.a. með stuðningi við heimanám og heimaverkefni sem krefjast þátttöku foreldra.

Í aðalnámskrá grunnskóla er íslenskunámi skipt í nokkra þætti, þ.e. lestur, talað mál og framsögn, hlustun og áhorf, ritun, bókmenntir og málfræði. Þessir þættir eiga að styðja hver annan, tengjast og skarast og fléttast þannig saman í eina heild. Í þessu felst til dæmis það að hugtakakerfi bókmenntafræði og málfræði verði ekki meginviðfangsefni í sjálfu sér heldur verði hugtökin kynnt, kennd og notuð í tengslum við umfjöllun um talað mál og ritað, til stuðnings og skilningsauka. Einnig er lögð áhersla á að nemendur þjálfist í íslensku í öllum námsgreinum í grunnskóla. Áherslurnar geta verið mismunandi eftir námsgreinum en einkum skal leggja áherslu á þjálfun í töluðu máli, lestri og lesskilningi og ritun, þ.m.t. réttritun. Íslenskukennsla á að vera heildstæð í grunnskóla þar sem lögð er áhersla á innbyrðis tengsl þátta og viðfangsefna, innbyrðis jafnvægi þeirra og eðlilega stígandi í náminu.
 

Lestur

Góð lestrarfærni er nauðsynleg til þess að menn geti tekið virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Lestrarkunnátta er undirstaða almennrar menntunar. Hún er einnig forsenda lestraráhuga og þess að njóta bókmennta til afþreyingar og skemmtunar. Lestur bókmennta er mikilvægur liður í almennri lestrarþjálfun. Lestur stuðlar að auknum orðaforða og betra valdi á máli, en hvort tveggja er mikilvægt í mannlegum samskiptum.

Mikilvægt er að vekja áhuga nemenda á lestri og gera þeim grein fyrir mikilvægi góðrar lestrarkunnáttu á öllum stigum grunnskólans. Nauðsynlegt er að lestrarkennslu og lestrarþjálfun sé haldið áfram allan grunnskólann. Í upphafi grunnskóla er einkum um það að ræða að ná tökum á undirstöðuatriðum í lestri, en á síðari stigum grunnskólans er áherslan á lestur til gagns og ánægju og þar tengist lestrarþjálfunin upplýsingaöflun, öðru námi og kynningu bókmennta af ýmsu tagi. Leggja skal áherslu á fjölbreytt lesefni, bæði prentað efni í bókum og hvers konar ritum og einnig lesefni á Netinu. Gera þarf nemendum jafnframt grein fyrir því að nauðsynlegt er að ná tökum á ólíkum tegundum lestrar, svo sem nákvæmnislestri, yfirlitslestri, leitarlestri, upplestri, hraðlestri, skimlestri og lestri stiklutexta. Lestrarkeppni, þar sem mest áhersla er lögð á að lesa sem flestar bækur eða texta á sem skemmstum tíma, getur verið þáttur í því að þjálfa nemendur í ákveðinni tegund lestrarfærni. Slík þjálfun getur líka vakið áhuga á bóklestri. Nemendur þjálfist einnig í að lesa vandlega með áherslu á skilning, listræna nautn og gagnrýnið hugarfar.

Við byrjendakennslu í lestri er mikilvægt að taka tillit til þess hve lestrarerfiðleikar eru útbreiddir og að hefðbundið lestrarnám sækist mörgum nemendum seint. Mikilvægt er að laga byrjendakennslu í lestri að þörfum beggja kynja.
 

Talað mál og framsögn

Í lýðræðisþjóðfélagi er brýnt að geta tekið virkan þátt í umræðum af ýmsu tagi þar sem móðurmálið er mikilvægt samskiptatæki manna. Nauðsynlegt er að geta tjáð skoðanir sínar, hvort sem er við nám, atvinnu, í félagslífi eða einkalífi. Þeir sem hafa gott vald á töluðu máli, framsögn og samræðulist eiga auðveldara með að miðla fræðslu- og menningarefni til annarra og taka virkan þátt í félagslegum samskiptum. Samræðan gegnir því veigamiklu hlutverki í máluppeldi í skólum og á heimilum frá upphafi til loka grunnskóla.

Mikilvægt er að nemendur þjálfist á öllum skólastigum í að gera skipulega grein fyrir kunnáttu sinni og skoðunum. Góð framsögn og skýr framburður getur nýst í flestum námsgreinum. Í móðurmáli stuðlar þjálfun í töluðu máli að betra valdi á máli og festir orðaforða í sessi. Gott vald á munnlegri tjáningu í móðurmáli er einnig góð undirstaða undir tungumálanám.

Leggja skal áherslu á þjálfun í töluðu máli og framsögn á öllum skólastigum. Þrátt fyrir að talað mál og framsögn sé samofið í reynd má greina þjálfunina í tvo þætti, annars vegar framburðar- og framsagnarþátt og hins vegar frásagnar-, samræðu- og umræðuþátt. Æskilegt er að tengja þjálfun í töluðu máli og framsögn við bókmenntalestur.

Nauðsynlegt er að áherslur á einstaka þætti séu mismunandi eftir aldri og þroska nemenda og að eðlileg stígandi sé í náminu. Í upphafi er æskilegt að leggja mesta áherslu á skýran og eðlilegan framburð allra málhljóða, þjálfun í einföldum frásögnum, þátttöku í almennum samræðum og hlutverkaleikjum. Síðar bætist við kennsla um einkenni talmáls, fræðsla um mállýskur, frekari þjálfun í leikrænni tjáningu og rökræðum. Í þessari kennslu er kjörið að nýta málfræðiþekkingu nemenda við útskýringar.
 

Hlustun og áhorf

Veigamikill þáttur í almennri menntun er að kunna að hlusta og skoða með athygli á gagnrýninn hátt. Nauðsynlegt er að geta numið þær upplýsingar sem miðlað er með ýmiss konar hljóð-, mynd- og margmiðlum og túlkað og metið þær með gagnrýni í huga. Lestur á ýmiss konar myndrænu efni er einnig þáttur í lestrarkunnáttu. Hlustun er einnig stór þáttur í mannlegum samskiptum og hvers konar félagsstarfi. Þess vegna er brýnt að kunna að hlusta.

Mikill hluti upplýsingamiðlunar nútímans á sér stað um ýmiss konar hljóð- og myndmiðla, s.s. útvarp, sjónvarp, myndbönd, kvikmyndir, geisladiska og Netið. Nauðsynlegt er að geta numið þær upplýsingar sem þannig er miðlað og metið þær með gagnrýni í huga.

Námsefni er gjarnan miðlað með aðstoð hljóð- og myndefnis, auk þess sem kennsla og umræður í kennslustundum gera kröfur um nákvæma hlustun og úrvinnslu. Ýmiss konar myndir, línurit og töflur koma mikið við sögu í nytjatextum og mikilvægt er að geta túlkað slíkt efni og nýtt sér þessa tækni, en myndefni er einnig oft tengt bókmenntatextum þótt á annan hátt sé. Nauðsynlegt er að geta notið menningarefnis af ýmsu tagi sem miðlað er með hljóði, mynd eða á leikrænan hátt.

Hlustun og áhorf tengist ýmsum öðrum þáttum móðurmálskennslu, svo sem lestri, töluðu máli, ritun og kynningu bókmenntalegs efnis og er snar þáttur í flestum námsgreinum grunnskóla. Líkt og kennsla í töluðu máli og framsögn þarf kennsla í hlustun og áhorfi að ná frá upphafi til loka grunnskóla þótt viðfangsefnin breytist eftir því sem færni eykst.
 

Ritun

Stöðugt aukast kröfur samfélagsins um að geta skrifað margvíslega texta og tjáð sig skriflega, bæði í námi, starfi, félagslífi og einkalífi. Þeir sem hafa gott vald á rituðu máli af ýmsu tagi hafa góð tök á að miðla fræðslu- og menningarefni til annarra. Þeir eru einnig líklegir til að njóta þess sem vel er gert á sviði ritaðs máls.

Nauðsynlegt er að nemendur þjálfist í að gera skipulega grein fyrir kunnáttu sinni og skoðunum í rituðu máli í flestum námsgreinum á öllum skólastigum. Því er ýmiss konar glósugerð, skýrslugerð og fleiri ritunarverkefni ríkur þáttur í öllu námi svo og samskipti við annað fólk, t.d. með tölvupósti. Í móðurmáli stuðlar þjálfun í ólíkum þáttum ritaðs máls að betra valdi á málinu. Leggja ber mikla áherslu á að nemendur nái tökum á að setja eigið efni skýrt og skipulega fram með ýmsum hætti fyrir ólíka hópa lesenda, bæði handskrifað, á tölvutæku formi og á vefsíðum.

Sinna þarf ritun á öllum skólastigum. Greina má þjálfun í ritun í tvo meginþætti, þótt þeir séu oft samofnir í reynd, annars vegar tæknileg atriði sem varða frágang, stafsetningu og uppsetningu og hins vegar efnisleg atriði sem tengjast framsetningu, málsniði, skipulagi og efnistökum. Góð framsetning, viðeigandi málsnið og gott skipulag á ekki eingöngu við um bókmenntalega texta, s.s. ljóð, sögur og frásagnir, og frumsamda nytjatexta heldur einnig endursagt efni, skýrslur og þess háttar. Þess vegna má ekki einskorða þjálfun og kennslu í slíkum _efnisþáttum" við þjálfun í því að skrifa ljóð, sögur eða viðamiklar ritgerðir heldur er mikilvægt að tengja þessi atriði við hvers konar efni og skrif, bæði í móðurmálstímum og í öðrum námsgreinum. Nauðsynlegt er að áherslur á einstaka þætti séu mismunandi eftir aldri og þroska nemenda þannig að eðlileg stígandi verði í náminu.
 

Bókmenntir

Lestur bókmennta er stór liður í almennri lestrarþjálfun. Bókmenntalestur getur stuðlað að betri skilningi á manninum og eðli hans. Almenn menntunar- og menningarrök vega þungt þegar hugað er að bókmenntakennslu. Bókmenntir og bókmenntaarfur skipa háan sess í menningarlífi þjóðarinnar. Þess vegna er mikilsverður þáttur í íslenskri menntun og menningu að þekkja íslenskar bókmenntir, geta notið þeirra og miðlað þeim og samið nýjar.

Bókmenntalestur er mikilvægur liður í mótun sjálfsmyndar barna og unglinga. Í bókmenntum leita ungir lesendur að fyrirmyndum og máta sig inn í aðstæður skáldsagnapersóna. Þannig getur bókmenntakennsla í skólum stuðlað að sterkari sjálfsmynd beggja kynja, aukið skilning hvors kyns á sérstöðu hins og búið nemendur undir virka þátttöku í síbreytilegu upplýsingasamfélagi framtíðar.

Sú lestrarþjálfun sem fæst við bókmenntalestur er veigamikil undirstaða alls náms. Þekking á undirstöðuhugtökum um bókmenntir er mikilvæg á ýmsum skólastigum, bæði í tengslum við móðurmálskennslu og umfjöllun um bókmenntir á öðrum tungumálum, auk þess sem umfjöllun um bókmenntasögu tengist almennri sögu, félagsfræði og menningarsögu. Bókmenntalestur auðgar orðaforða, eflir máltilfinningu og styrkir vald á máli, en þau atriði skipta miklu í námi.

Viðfangsefni í bókmenntum og bókmenntalestri verða að miðast við aldur og þroska nemenda. Í efri bekkjum grunnskóla er hægt að nýta bókmenntafræðileg hugtök og rýni til að skerpa skilning nemenda á bókmenntunum og eðli þeirra.

Söngur og ljóðlist hafa verið tengd órjúfanlegum böndum og mörg kvæði og ljóð er æskilegt að læra í söng og nemendur læra að njóta ljóðlistar í söng.
 

Málfræði

Færni í notkun tungumála, bæði móðurmáls og annarra mála, er grundvallaratriði í mannlegum samskiptum. Til þess að ná valdi á málinu og geta beitt því á markvissan hátt í ræðu og riti er nauðsynlegt að geta nýtt sér hjálpargögn, svo sem handbækur, orðabækur og gagnasöfn. Þar eru notuð málfræðileg hugtök af ýmsu tagi sem gagnlegt er að þekkja. Markmið málfræðikennslu í grunnskóla er bæði að gera nemendur viðræðuhæfa um mál og málfar og að betri málnotendum.

Málfræðileg hugtök eru notuð í umfjöllun um móðurmál og önnur mál í skólum, allt frá stafsetningarkennslu til stílfræði. Þess vegna er grundvallarþekking á þeim hugtökum forsenda þess að geta nýtt sér ýmiss konar hjálpargögn um mál og málnotkun, bæði talað mál og ritað. Kunnátta í málfræði auðveldar nemendum að ræða um ýmsa þætti, s.s. mál, málfar, stíl, málnotkun, málbreytingar, texta og mállýskur. Þekking í málfræði gerir nemendum kleift að ræða um málið, flétta þætti þess saman og jafnvel tengja saman kennslu í íslensku og erlendum málum.

Lögð er áhersla á að í grunnskóla, einkum í neðri bekkjum, er æskilegast að kenna málfræðileg hugtök með það meginmarkmið í huga að þau geri nemendum kleift að fjalla um móðurmálið og tengja það málþjálfun og leiðbeiningum um málfar. Í efstu bekkjum grunnskóla verður fyrst tímabært að gefa yfirlit yfir málkerfið og sérkenni íslensks nútímamáls. Lögð verði áhersla á þjálfun í notkun handbóka og annarra hjálpargagna, m.a. á tölvutæku formi, en þó er ákveðin grunnþekking nauðsynleg til þess að menn geti nýtt sér handbækur. Bein málfræðikennsla getur verið þáttur í móðurmálsþjálfun, svo sem kennsla í beygingu sjaldgæfra orða eða nafna, en tæknilegar aðferðir við málfræðilega greiningu mega ekki verða íþrótt í sjálfu sér.
 

Námsmat

Námsmat á að byggjast á stöðugu eftirliti með vinnu nemenda. Það þarf að vera í samræmi við þau markmið sem sett eru og í samræmi við innihald kennslunnar. Námsmat verður að taka til fjölbreyttra þátta námsins. Varast ber að miða eingöngu við þekkingarmarkmið í námsmati, einnig verður að horfa til færni- og skilningsmarkmiða. Námsmat skal útfæra í ljósi viðeigandi áfanga- og þrepamarkmiða fyrir alla námsþætti.

Mikilvægt er að námsmat sé leiðbeinandi og hvetjandi fyrir nemendur. Nauðsynlegt er að það sé greinandi fyrir kennarann til að hann viti á hvað hann á að leggja áherslu í kennslu hvers nemanda.

Námsmat þarf að vera upplýsandi fyrir foreldra og nemendur. Auk mats á stöðu nemandans þurfa að fylgja námsmatinu upplýsingar um leiðir sem nemandinn getur farið til að bæta stöðu sína.

Mikilvægt er að greinandi próf séu lögð fyrir nemendur á fyrstu árum grunnskólanáms til að fá vísbendingar um veikar og sterkar hliðar. Niðurstöður prófa skal nota til að veita nemendum leiðsögn og kennslu við hæfi.
 

Á fyrstu fjórum námsárunum má meta

Lestur


Talað mál og framsögn


Hlustun og áhorf


Bókmenntir


Ritun

Málfræði

Á fimmta til sjöunda námsári má meta

Lestur Talað mál og framsögn Hlustun og áhorf


Bókmenntir


Ritun


Málfræði

Á áttunda til tíunda námsári má meta

Lestur


Talað mál og framsögn


Hlustun og áhorf

Bókmenntir


Ritun

Málfræði  
[Til baka]