[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
ÍSLENSKA SEM ANNAÐ TUNGUMÁL 

Inngangur

Íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir nemendur sem hafa ekki nægilegt vald á íslensku til að geta stundað nám í íslenskum skólum til jafns við aðra nemendur. Þetta á jafnt við um nemendur af íslenskum og erlendum uppruna. 

Samkvæmt annarri grein laga um grunnskóla, nr. 66/1995, er hlutverk grunnskóla m.a. að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Þessi lagagrein á líka við um nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku og stunda nám í íslenskum skólum. 

Reglugerð nr. 391/1996 gefur öllum nemendum í grunnskólum, er hafa annað móðurmál en íslensku og hafa fasta búsetu hér á landi, rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Skólanefnd þess skóla, sem slíkur nemandi stundar nám í, skal sjá til þess að hann fái þá kennslu í íslensku sem skólastjóri og sérfræðiþjónusta skóla telur þörf á meðan hann stundar þar nám. Framkvæmd og eðli slíkrar kennslu í íslensku tekur einnig mið af alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland er aðili að, s.s. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 29. gr., sem segir að menntun allra barna skuli stuðla að því að móta virðingu fyrir foreldrum barnsins, menningararfleifð þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands sem það býr í og þess lands er það kann að vera upprunnið frá og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs. 

Með tilvísun í reglugerð nr. 391/1996 geta þeir sem hafa annað móðurmál en íslensku fengið kennslu í og á móðurmáli sínu í samráði við forráðamenn með samþykki viðkomandi sveitarstjórnar. Með kennslunni skal stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda. 

Með kennslu í íslensku sem öðru tungumáli er stefnt að því að nemendur verði hæfir til að taka fullan þátt í íslensku samfélagi sem tvítyngdir einstaklingar með rætur og innsæi í tvo eða fleiri menningarheima og auðgi með því íslenskt mannlíf. Markmiðin fela í sér að íslenska sem annað tungumál sé lykill að

Námsgreinin íslenska sem annað tungumál er meira en tungumálakennsla. Saman fara markmið þar sem leitast er við að þjálfa nemendur í íslensku máli og menningarfærni, viðhalda og þróa þekkingargrunn og læsi og örva námsgetu og námstækni og stuðla að félagslegri vellíðan nemandans. Með því að huga að öllum þáttum þroska barnsins eru minni líkur á að nemandi með annað móðurmál verði á eftir í náminu meðan hann leitast við að læra íslenskt mál og öðlast menningarfærni. Með því að taka mið af þessum markmiðum samhliða markmiðum annarra námsgreina verður kennslan markvissari og betur er hugað að öllum þáttum sem áhrif hafa á framvindu í námi barna sem læra á öðru máli en móðurmálinu.

Markmiðunum má ná með því að

 

Sérstaða barna með önnur móðurmál en íslensku

Nemendur með annað móðurmál en íslensku hafa ólíkan menningarlegan, mállegan og námslegan bakgrunn. Þessir nemendur hafa því misjafnar forsendur til að takast á við nám í íslenskum skólum. Þeir koma í skólann með mismikla undirstöðu í íslensku, eigin móðurmáli, læsi og námi og eru misjafnlega í stakk búnir til að takast á við almennt nám. 

Kennsla í íslensku sem öðru tungumáli þarf að taka mið af stöðu nemenda í námi og þeirri staðreynd að málleg og menningarleg reynsla þeirra og þekking er önnur en nemenda sem hafa alist upp í íslenskri menningu. Íslenska sem annað tungumál felur því í sér þjálfun í íslensku og þátttöku í íslenskri menningu, viðhald læsis og þekkingar í öllum námsgreinum og eflingu námsþroska. Íslenska sem annað tungumál er því í eðli sínu námsgrein sem nær yfir allt skólastarfið. 

Viðfangsefni íslenskukennslunnar eru samræmd og samhæfð öllum öðrum námsgreinum. Allir kennarar verða því íslenskukennarar og allir kennarar í íslensku sem öðru tungumáli stuðla að því að markmiðum annarra námsgreina verði náð. Markmiðin lúta því ekki eingöngu að íslenskukennslu, heldur tengjast þau þekkingar-, færni-, viðhorfa- og sköpunarmarkmiðum annarra námsgreina og skólastarfinu í heild. 

Með kennslunni þarf að brúa bilið milli málþroska í móðurmáli og íslensku. Málumhverfi barns hefur mikil áhrif á máltöku, hvort sem um er að ræða móðurmál eða seinna mál. Traust undirstaða í móðurmáli er forsenda færni í seinni málum. Börn virðast hafa meðfæddan hæfileika til máltöku upp að 11-12 ára aldri. Fram að þeim aldri eru börn að treysta málfærni í móðurmáli og víkka hana m.a. með því að læra að lesa og skrifa. Ef börn skipta um málumhverfi á viðkvæmu máltökuskeiði er farsælast að þróun móðurmáls haldi áfram og að seinna málinu sé bætt við, þ.e. að stuðlað sé að viðbótarmáli og virku tvítyngi en ekki málskiptum. Ef móðurmáli er aldrei haldið við er hætta á að tjáning og samskipti milli foreldra og barna geti orðið takmörkuð.

Tvítyngi hefur jákvæð áhrif á vitsmunaþroska þegar báðum tungumálunum er viðhaldið en getur haft neikvæð áhrif þegar skipt er um tungumál. Reynsla barna hefur áhrif á uppbyggingu vitsmunaþroska sem aftur hefur áhrif á þróun námsgetu. Börn, sem alast upp við tvö tungumál samtímis eða læra nýtt tungumál á grunnskólaaldri og viðhalda jafnframt móðurmálinu, lestri, ritun, tali o.s.frv., eru vel í stakk búin til að takast á við nám á hvoru máli um sig.

Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn rétt á að viðhalda móðurmáli sínu þrátt fyrir flutning frá heimalandi. Með því að styrkja móðurmálskunnáttu innan eða utan skólans er stuðlað að jafnrétti til náms fyrir alla nemendur. Æskilegt er að hvetja foreldra til að viðhalda móðurmálinu á heimilum en í skólum má aðstoða nemendur við að styðja hver annan og nýta kosti fjarkennslu og Netsins til að efla samskipti við nemendur með sama menningar- og tungumálagrunn.
 

Skýringar

Móðurmál: Með móðurmáli er átt við það tungumál sem barnið lærir fyrst, er því tamast og talað er á heimili þess, stundum aðeins af öðru foreldri. 

Tvítyngi: Nemandi er tvítyngdur ef hann hefur færni í tveimur tungumálum. Hér er þó sérstaklega átt við nemendur sem stunda nám í skólum á öðru máli en móðurmálinu. Fæstir eru jafnvígir á bæði málin og getur þar munað miklu.

Virkt tvítyngi: Með virku tvítyngi er átt við það að nota tvö tungumál í daglegu lífi og lifa í tveimur menningarheimum, t.d. getur annað málið verið notað heima en hitt í skólanum og meðal félaga.
 

Nám og kennsla

Íslenska sem annað tungumál nær til allra námsgreina, þ.e. markmið allra námsgreina og skólastefnan í heild nær einnig til tvítyngdra barna. Samkvæmt því skal sníða nám að þörfum hvers og eins nemanda. Í íslensku sem öðru tungumáli er brýnt að samin sé einstaklingsnámsáætlun fyrir hvern einstakan nemanda sem ekki hefur íslensku að móðurmáli og að í henni sé lögð jafnmikil áhersla á eflingu málfærni, menningarfærni, læsis og námsþroska og undirstöðu í einstökum námsgreinum eins og eftirfarandi dæmi sýnir:
 

Dæmi um einstaklingsáætlun

Markmið í íslensku sem öðru tungumáli Hluti af einstaklingsnámskrá nemanda með annað móðurmál snýr að markmiðum þeirra námsgreina sem hann leggur stund á hverju sinni. Nemendur með annað móðurmál en íslensku skulu fylgja jafnöldrum sínum í öllum námsgreinum eins og unnt er. Hafa verður samstarf við umsjónarkennara um að greina hvað nemandinn kann fyrir og hvað megi búast við að nemandi geti skilið af því efni sem fyrir hann er lagt. Til þess að fá upplýsingar um þekkingargrunn nemenda í ýmsum námsgreinum er oft nauðsynlegt að fá aðstoð túlks svo að skipuleggja megi kennsluna með markvissum hætti.

Námsefnið skal vera í samræmi við þroska, málfærni og leshæfni nemandans og ávallt samhæft náms- og þekkingarkröfum námsgreina hvers skólastigs. Námsefni einstakra námsgreina verður því að aðlaga og nota sem inntak og efni í íslenskukennslu. Ef þekkingargrunnur nemanda er frábrugðinn þeim grunni sem íslenskt skólakerfi byggist á er nauðsynlegt að brúa það bil með aðstoð túlka.

Námsefni í öllum námsgreinum má laga að málfærni nemenda með annað móðurmál en íslensku á eftirfarandi vegu, t.d. að

Námsmat

Markmið námsmats í íslensku fyrir nýbúa eru margþætt. Skal m.a.   Matsaðferðir sem hafa reynst vel í kennslu nemenda með annað móðurmál   Tvítyngdir nemendur og námsmat í öllum námsgreinum

Áfangamarkmið í íslensku sem öðru tungumáli

Áfangamarkmiðunum er skipt í þrjú aldurssvið eins og markmiðum annarra námsgreina, þ.e. fyrir 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Innan hvers áfanga eru tvenns konar áfangamarkmið: áfangamarkmið 1 greina frá því hvað nemendur eiga að kunna í almennu máli og menningarfærni að loknum hverjum áfanga en áfangamarkmið 2 lýsa þeirri skólamálfærni í öllum námsgreinum sem stefnt er að. Áfangamarkmiðin eru að innihaldi mjög lík á öllum skólastigum en eru aðlöguð aldri, þroska, þekkingu, kunnáttu og áhuga á hverju aldursstigi og eiga að tryggja velgengni í námi í íslenskum skólum.

Markmið íslensku fyrir nýbúa eru annars eðlis en markmið annarra námsgreina þar sem námsgreinin nær í raun til allra námsgreina. Nemendur með annað móðurmál en íslensku geta hafið nám í íslenskum skólum á hvaða námsstigi sem er með mjög mismunandi íslenskukunnáttu og almennan menntunarbakgrunn. Nemendur með annað móðurmál en íslensku, sem koma t.d. í 5. bekk, geta verið á undan eða eftir í ýmsum námsgreinum, læsi og námsþroska en að auki með mjög mismunandi íslenskukunnáttu. Innan áfangamarkmiðanna þrennra eru því markmið sem lýsa hversu mikilli færni í íslensku máli og menningu, námsgreinum, læsi, námstækni o.s.frv. nemendur eiga að geta náð á hverju aldursstigi. Markmiðin byggjast á þeirri staðreynd að nemendur geta hætt í íslensku sem öðru tungumáli þegar markmiðunum er náð hvenær sem er á skólaferlinum en miðast ekki endilega við lok grunnskóla. Það getur tekið nemendur með annað móðurmál allt að 7 árum að ná skólamálfærni til jafns við íslenskumælandi nemendur.
 

Þrep í námi

Skipulag íslensku sem annars tungumáls á einstökum skólastigum grunnskóla tekur mið af aldri, þroska og þörfum nemenda á hverju stigi, þ.e. í 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Áföngunum er skipt niður í þrep sem miðast við kunnáttu í íslensku, þ.e. í fyrsta lagi miðað við byrjendur, svo lengra komna, lengst komna og loks svonefnda brú yfir í almennt nám. Nemendur geta verið staddir á ýmsum þrepum á hverju skólastigi óháð aldri og almennum þroska. Þrepin miðast við hvað nemandi, sem kemur í íslenskan skóla innan hvers áfanga, þarf að kunna sem byrjandi, lengra kominn o.s.frv. Áfangamarkmið allra námsgreina, þar á meðal í íslensku sem öðru tungumáli, má síðan laga að málfærni hvers hóps eða einstaklings.

Byrjendur

  Lengra komnir Lengst komnir   Brú yfir í almennt nám  
[Til baka]

EAN 1999