[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
TÁKNMÁL FYRIR HEYRNARLAUSA

Inngangur

Táknmál hefur grundvallarþýðingu fyrir málþroska, persónuleika og hugsun heyrnarlausra nemenda. Það er bæði samskiptatæki og merki þess hvað nemandinn er. Hjá heyrnarlausum er táknmálið mikilvægasta uppspretta þekkingar og leið til að taka þátt í íslenskri menningu og í menningu heyrnarlausra. Kennslan í þessari grein miðar að því að nemendur þroski mál sitt þannig að þeir fái sterka sjálfsmynd og skýran skilning á sjálfum sér og stöðu sinni í lífinu sem heyrnarlausir einstaklingar í heyrandi íslensku meirihlutasamfélagi. Kennslan á að stuðla að þroska þeirra sem tvítyngdra einstaklinga með táknmál sem fyrsta mál og íslenskt ritmál sem annað mál.

Táknmál gegnir lykilhlutverki í skóla fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Það þroskar hugsun nemenda og sköpunargáfu. Í málinu verður þekking sýnileg og meðfærileg. Málið hefur mikla þýðingu fyrir alla vinnu í skólanum og fyrir líf og starf nemendanna síðar. Skólinn ber ábyrgð á því að uppfylla þörf nemenda fyrir ríkulegt málumhverfi og góðar fyrirmyndir í táknmáli.

Þar sem táknmál hefur ekki ritmál er samræðan mikilvægasta vinnuaðferðin. Nemendur þroskast málfarslega í samræðum um mismunandi málefni, við ólíkar persónur og við mismunandi aðstæður. Í samræðum geta nemendur líka út frá reynslu sinni byggt upp þekkingu á því hvernig málið virkar í samskiptum fólks og gert sér betur grein fyrir eigin færni í málinu. Myndbönd/tölvur eru mikilvæg tæki til að skrá, varðveita og greina texta. Þekking á byggingu málsins gefur málþroska nýjar víddir; málin tvö, íslenska ritmálið og táknmál, má skoða hvort út frá öðru. Vitneskja um eigin málnotkun, beiting þessarar vitneskju og ný þekking á málinu er allt samverkandi og stuðlar að auknum málþroska nemenda. Það styrkir líka vitundina um málið að gera sér grein fyrir að táknmál og raddmál eru að nokkru leyti háð sömu skilyrðum og að vita hvernig best er að notfæra sér táknmálstúlk. Nauðsynlegt er fyrir kennara að fylgjast stöðugt með þroska nemenda og vinnu þeirra. Miklu máli skiptir að bregðast fljótt við ef einhver nemandi þarf sérstaka aðstoð til að taka framförum.
 

Nám og kennsla

Aðalviðfangsefni greinarinnar er þekking á hlutverki, stöðu og byggingu táknmáls. Málþroski þýðir að hugtakaheimur nemenda víkkar, þeir verða öruggari í því að nota málið á tjáningarríkan hátt, en líka að ímyndunarafl þeirra þroskast. Táknmál er minnihlutamál á Íslandi en það miðlar fyrst og fremst íslenskri menningu. Íslenskar bókmenntir, sem nemendur kynnast ýmist í þýðingum eða í íslenskukennslunni, tilheyra einnig táknmálskennslunni. Bókmenntir í venjulegri merkingu eru ekki til á táknmáli. Mikilvægt er að nemendur fái aðgang að efni af ætt fagurbókmennta eða öðru efni þar sem lögð er áhersla á fræðslu því að slíkt efni hjálpar þeim að skilja heiminn og sjálfa sig og stuðlar að eigin þroska í notkun málsins.

Kennslan þarf að uppfylla þörf nemenda til að tjá hugsanir sínar og skynjun og til að fá hlutdeild í reynslu og upplifun annarra. Hún á líka að fræða um menningararfinn og umheiminn, um menningu heyrnarlausra og um þjóðleg og alþjóðleg samtök heyrnarlausra. Meginábyrgðin á málþroska nemenda hvílir á táknmálskennslunni, en þó bera allir kennarar sameiginlega ábyrgð og verða að vera sér meðvitaðir um þýðingu málsins fyrir námið. Nemendur, sem koma í skóla fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta, með áberandi galla í táknmáli, skulu fá einstaklingsbundinn stuðning við málþroska sinn. Markmiðin í kennslu táknmáls eru þó sameiginleg fyrir alla nemendur.

Mikilvægt er að traust samstarf sé milli heimila og skóla um táknmálskennslu.

Í þessari námskrá eru sett lokamarkmið fyrir táknmálskennslu fyrir heyrnarlausa í grunnskólum. Lokamarkmiðin eru síðan útfærð í sérstökum áfangamarkmiðum fyrir þrjú stig grunnskóla, þ.e. 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Loks eru sett sérstök þrepamarkmið sem miðast nokkurn veginn við hvert námsár grunnskólans. Þrepamarkmiðin eru nákvæmust og draga fram áhersluatriði í táknmálsnáminu á sviði munnlegrar samhæfingar, tungumála- og menningarþekkingar og bókmennta og textagerðar. Þrepamarkmiðin eru síðan útfærð nánar í skólanámskrám og einstaklingsnámskrám. Náin tengsl þurfa að vera milli táknmálskennslu og sérstakrar íslenskukennslu fyrir heyrnarlausa í grunnskóla sem nánar er skilgreind í sérstökum kafla.
 

Námsmat

Mat í táknmáli fer eftir því hversu langt nemandinn er kominn í málþroska, þ.e. hæfileika nemanda við að Námsmatið fer því eftir vaxandi færni nemandans í að beita táknmáli við að tjá sig, til að fá hlutdeild í því sem aðrir tjá og færni í að íhuga samhengi og skilja heiminn. Matið byggist einnig á því hvort nemandinn geri sér grein fyrir möguleikum táknmálsins. Það fer líka eftir því hversu sjálfstæður hann er í því að prófa og nota margvíslega tækni og því hversu örugglega hann nær málfarslegu valdi á ýmsum aðstæðum. Einnig skal taka tillit til þekkingar á sögu og menningu heyrnarlausra.

Með táknmálstexta er átt við samfellda röð af táknmáli á myndbandi eða öðrum miðli.

Nemandi

Viðmiðanir fyrir ágætiseinkunn

 
[Til baka]

EAN 1999