[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla 
ÍÞRÓTTIR LÍKAMS- OG HEILSURÆKT

FORMÁLI

Í þessari námskrá er að finna upplýsingar um greinasviðið íþróttir líkams- og heilsurækt í grunnskóla. Námskrárheftið skiptist í 3 hluta. Í fyrsta hluta er fjallað um greinasviðið í heild, skólaíþróttir og skólasund, annar hluti fjallar um skólaíþróttir, þ.e.a.s. þann hluta íþróttakennslunnar sem fram fer að jafnaði í íþróttasal eða utanhúss og í þriðja hluta er fjallað um skólasund.

Í báðum greinasviðum, skólaíþróttum og skólasundi, er komið inn á hlutverk greinanna, fjallað um atriði sem snúa að námi og kennslu og námsmati. Sett eru fram markmið í þremur flokkum, lokamarkmið, áfangamarkmið og þrepamarkmið.

Eðli lokamarkmiða er að gefa heildarmynd af því sem stefnt er að í kennslu skólaíþrótta annars vegar og skólasunds hins vegar. Lokamarkmið skýra almennan tilgang náms og lýsa því sem skólar eiga að stefna að og því sem nemendur eiga að hafa tileinkað sér að loknu lögbundnu skyldunámi. Áfangamarkmiðum er deilt niður á þrjú stig, þ.e. 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Þau eru meginviðmið í öllu skólastarfi. Þrepamarkmiðin eru sett fram sem safn markmiða eða viðfangsefna til að ná settum áfangamarkmiðum og eiga að mynda eðlilega stígandi í náminu, allt frá upphafi til loka grunnskóla.

Ólíkir nemendur eiga að fá viðfangsefni eftir því sem þroski, hæfni og áhugamál leyfa. Því geta nemendur á sama aldri verið staddir á mismunandi þrepum í námi. Skólar geta raðað þrepamarkmiðum á annan hátt en aðalnámskrá gerir og birt þau í skólanámskrá. Nánar er fjallað um markmiðasetningu í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla.
 

ÍÞRÓTTIR líkams- og heilsurækt

Inngangur

Námssviðið íþróttir líkams- og heilsurækt greinist í tvo hluta, annars vegar skólaíþróttir og hins vegar skólasund. Samkvæmt gildandi viðmiðunarstundaskrá er skylt að veita hverjum nemanda að lágmarki 3 kennslustundir í íþróttum í hverri viku skólaársins. Það er síðan val stjórnenda skóla hvort þeir nýta sér þann möguleika að bæta við kennslustundum í íþróttum.

Hlutverk íþróttakennslu í skólum er að stuðla að því að grunnskólinn nái þeim markmiðum sem sett eru fram og höfða til líkams- og heilsuræktar í gildandi lögum um grunnskóla. Markmiðin fyrir skólaíþróttir og skólasund eru sett fram á grundvelli þessara laga og skýrslu forvinnuhóps á námssviði skólaíþrótta. Mikilvægt er að líta á greinasviðið eða greinarnar tvær, skólaíþróttir og skólasund, sem eina heild þar sem lokamarkmið þeirra er m.a. að stuðla að alhliða þroska hvers nemanda, efla heilsufar hans og afkastagetu.

Markvisst íþrótta- og hreyfinám hefur ekki aðeins góð áhrif á líkamlega heilsu hvers nemanda, heldur hefur það einnig jákvæð áhrif á andlega og félagslega líðan. Eitt það mikilvægasta, sem hver skóli getur veitt nemendum sínum, er að styrkja sjálfsmynd hans og vellíðan. Slíkt er hægt að gera með markvissum æfingum og leikjum þar sem þroskaþættir eru hafðir að leiðarljósi.

Jákvæð upplifun íþróttakennslu í skólum getur lagt grunninn að heilsusamlegum lífsstíl hvers nemanda. Með jákvæðri upplifun af íþróttum, þar sem gleði og ánægja ríkir, eykst einnig vinnugleði og vellíðan sem hefur áhrif á allt skólastarfið. Þá getur góð og markviss kennsla einnig styrkt stoðkerfi líkamans og bætt líkamsreisn.

Það er ekki einungis hagur hvers nemanda að fá markvissa kennslu í íþróttum heldur getur það einnig ráðið miklu um heilbrigði þjóðarinnar. Alhliða hreyfing og leikir, sem höfða til beggja kynja og allra aldurshópa, eru þættir sem góð íþróttakennsla byggist á. Einnig er mikilvægt að jákvætt andrúmsloft og öryggi nemenda sé haft að leiðarljósi við skipulag kennslunnar. Nemendur þurfa að fá tækifæri til tjáningar og sköpunar þar sem verkefnin höfði til þeirra og skapi áhuga á áframhaldandi iðkun leikja og hreyfináms.

Sundnám í grunnskóla hefur notið nokkurrar sérstöðu í skólaíþróttum um árabil og verður svo áfram. Helsta breyting varðandi sundkennsluna er að reglugerð um sundnám fellur úr gildi við gildistöku þessarar námskrár en þess í stað verða sundnáminu nú gerð ítarlegri skil í námskránni. Rökin fyrir því að sundkennsla hefur þessa sérstöðu eru nokkur. Hin helstu eru þau að sundið er mikilvægur öryggisþáttur. Að teljast syndur er lykilatriði fyrir alla íbúa eylands þar sem fiskveiðar í sjó, ám eða vötnum eru mikið stundaðar. Þá er sundiðkun menningararfur sem mikilvægt er að hlúa að og leggja rækt við, en Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða í heiminum sem tóku upp sundskyldu í skólum. Íslendingar búa við mjög góðar aðstæður til sundiðkunar auk þess sem sundið er talið mjög ákjósanlegur líkams- og heilsuræktarþáttur sem flestir geta stundað. Slíkt ber að varðveita og leggja aukna rækt við á komandi árum.
 

Nám og kennsla

Kennslu- og aðferðafræði íþrótta líkams- og heilsuræktar snýst í aðalatriðum um að koma til móts við þarfir nemenda sem eru að vaxa úr grasi á viðkvæmu en síbreytilegu vaxtarskeiði. Til að slíkt megi takast skal sérstaklega hugað að líkamlegri virkni hvers og eins þó að aðrir þættir, eins og fræðileg innlögn, fléttist inn í kennsluna. Leikurinn er þungamiðja í kennslu á yngsta aldursstigi en er einnig ráðandi þáttur á öðrum stigum. Með markvissum og fjölbreyttum leikjum má ná markmiðum sem stefnt er að innan þroskaþátta. Aðferðafræðin skiptist sérstaklega milli frjálsrar vinnu í leik og starfi og verkefna sem leyst eru af hendi með frjálsri aðferð eða eftir ákveðnum fyrirmælum.

Börn og unglingar læra að nota líkamann þegar þau taka við áreiti frá umhverfinu. Því er mikilvægt að leikir og fjölbreytt hreyfinám skipi ekki aðeins veglegt rými í kennslu skólaíþrótta heldur einnig meðan á skóladegi stendur, í öðrum greinum eða í frímínútum. Leikurinn er oft talinn uppspretta náms, bæði hjá börnum og unglingum. Samspil íþróttakennslu við aðrar námsgreinar getur verið heppilegur vettvangur fyrir þverfagleg vinnubrögð í skólastarfi. Sem dæmi um slíka nálgun má nefna fræðilega umfjöllun náttúrufræðinnar um starfsemi hjarta, lungna og blóðrásar og verklega útfærslu íþróttakennslunnar á sömu atriðum.

Samvinna við foreldra er mikilvægur þáttur í starfi kennarans. Veita þarf foreldrum vitneskju um líðan barnsins, hreysti þess og félagslega aðlögunarhæfni í kennslustundum. Þá er einnig mikilvægt fyrir íþróttakennara að fá ýmsar upplýsingar um barnið frá foreldrum svo að koma megi til móts við þarfir þess eins og kostur er.

Við nálgun markmiða skólaíþrótta skal stefnt að því að námið verði:

Með framangreindri nálgun má ná þeim markmiðum sem stefnt er að í kennslunni. Fjölbreytileiki í verkefnavali og alhliða uppbyggjandi hreyfinám eru einnig mikilvægir þættir sem stefna skal að. Á þann hátt aukast líkurnar á að hver og einn fái verkefni við sitt hæfi.

Skapa þarf nemendum aðstæður og viðfangsefni þar sem þeir fá að glíma við verkefni upp á eigin spýtur, s.s. í fámennum eða fjölmennum hópum, í samvinnu við hitt kynið eða ýmsa aldurshópa. Samvinna og keppni er hluti af þeirri aðferðafræði sem beitt er til að markmiðum kennslunnar verði náð. Verkefni þar sem hópar eða bekkir keppa að ákveðnu marki eru dæmi um samvinnuverkefni þar sem keppnin er notuð sem tæki til að efla samtakamátt og samskiptatækni þeirra sem í hópnum vinna. Að kunna að taka sigri og ósigri í keppni eða leik er atriði sem hver nemandi þarf að læra. Keppnin getur þó haft sínar neikvæðu hliðar þar sem ýmsum óæskilegum ráðum er beitt til að ná fram sigri. Slíkt ber að forðast í kennslunni. Það er einnig mikilvægt hvernig valið er eða skipað í lið hverju sinni. Hér þarf að hafa í heiðri jákvæða sjálfsmynd hvers einstaklings.
 
 

Þroskaþættir

Markmið skólaíþrótta og skólasunds eru flokkuð innan fjögurra mismunandi efnisflokka:
  Skýr markmið innan efnisflokka þroskaþátta leggja grunn að skipan náms og kennsluháttum. Þau leggja einnig grunn að nánari útfærslu markmiða í skólanámskrám einstakra grunnskóla.

Við framsetningu markmiða skal gera ráð fyrir því að þorri nemenda nái þeim markmiðum sem sett eru. Við útfærslu þessara markmiða í skólanámskrám er nauðsynlegt að komið sé til móts við þá nemendur sem einhverra hluta vegna eru á eftir í náminu. Einnig þarf að koma til móts við þá nemendur sem skara fram úr í námi og finna þeim verkefni við hæfi. Þá skal einnig huga að afreksfólki í íþróttum og koma til móts við þarfir og óskir þess eins og mögulegt er.
 

Námsmat

Í almennum hluta námskrár segir eftirfarandi um námsmat: Ofangreind atriði, ásamt öðru því sem fram kemur í almennum hluta námskrár, eru bindandi fyrir íþróttakennsluna. Þá hefur námsmat mikið notagildi innan íþrótta líkams- og heilsuræktar og er ómissandi þáttur greinarinnar. Mismunandi markmið innan efnisflokka þroskaþátta gera kröfur um ólíkar matsaðferðir. Í hverjum efnisflokki áfangamarkmiða er fjallað um námsmat út frá séreinkennum hvers þroskaþáttar og dæmi tekið um mögulegar útfærslur.

Með námsmati skal reynt að afla sem öruggastrar og víðtækastrar vitneskju um árangur af kennslunni og fylgjast vandlega með því hvernig nemendum gengur að ná þeim markmiðum í námi sem skólinn hefur sett. Á þennan hátt getur kennarinn fylgst með framförum nemenda og gert sér grein fyrir áhrifum og þróun kennslunnar.

Sú vitneskja, sem námsmatið veitir, hjálpar hverjum kennara til nýrrar markmiðssetningar og gefur oft tilefni til breytinga á námsefni, niðurröðun þess á skólaárið og kennsluaðferðum. Þá getur námsmat í skólaíþróttum verið mikilvægt tæki til að hafa áhrif á nemendur svo að námsárangur þeirra verði betri. Námsmatið, hvort sem um er að ræða kannanir á færni (huglægt mat), kannanir á þreki eða skyn- og hreyfiþroska (hlutlægt mat), kannanir á líðan og upplifun nemenda (huglægt mat) eða kannanir á þekkingu nemenda, gefur bæði kennara og nemendum möguleika á því að fylgjast með árangri og afkastagetu. Slíkt leiðir í flestum tilvikum til aukins áhuga og bætts árangurs. Í íþróttakennslu eru margir möguleikar á því að kanna og meta námsárangur og afkastagetu nemenda. Því er æskilegt að kennarar nýti þann möguleika sem best.

Námsmat og einkunnagjöf í skólaíþróttum og skólasundi er vandmeðfarin og oft erfitt að finna einhlíta lausn á hvað ber að meta hverju sinni. Því er nauðsynlegt að matið tengist þeim markmiðum sem verið er að sækjast eftir og sett eru fram í áföngum og þrepum mismunandi efnisflokka. Á þann hátt er mögulegt að höfða til sem flestra þátta námsins, þ.e. líkamlegrar afkastagetu, líkamlegrar færni, fræðilegrar þekkingar og ekki síst framlags og virkni hvers nemanda í kennslustundum. Við uppbyggingu og framsetningu námsmats innan áfanga- eða þrepamarkmiða skal tekið mið af settum markmiðum. Í áfangamarkmiðum skólaíþrótta og skólasunds er að finna ábendingar eða dæmi um útfærslu námsmats innan mismunandi efnisflokka.

[Til baka]


EAN 1999