[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
SKÓLAÍÞRÓTTIR

Inngangur

Nemendur á grunnskólaaldri eru á því aldursskeiði sem einkennist af miklum vexti og örum þroska. Framvinda eðlilegs þroska, hvort heldur sem um er að ræða skyn- og hreyfiþroska, líkams- og fagurþroska eða félags-, tilfinninga- og siðgæðisþroska, er að miklu leyti háð hæfilegri áreynslu og samspili markvissra æfinga og leikja. Með kerfisbundinni þjálfun eða útfærslu leikja er hægt að auka starfsemi líkamans og sinna mismunandi þroskaþáttum. Á því aldursskeiði, sem grunnskólinn nær yfir, er t.d. unnt, betur en síðar á ævinni, að auka hæfni hjarta og blóðrásar með markvissri þjálfun. Hið sama á við um atriði sem ná til skyn- og hreyfiþroska. Því er það eitt meginmarkmið skólaíþrótta að örva skyn- og hreyfiþroska hvers nemanda, þrek hans og afkastagetu og stuðla þannig að heilbrigði einstaklingsins.

Hreyfingarskortur er talinn einn helsti áhættuþáttur sjúkdóma í nútímasamfélagi, einkum hjarta- og æðasjúkdóma. Reynslan hefur sýnt að þeir sem stunda íþróttir eða líkams- og heilsurækt í æsku eru líklegri en aðrir til að gera slíkt hið sama á fullorðinsárum. Það er því mikilvægt, með jákvæðri kennslufræðilegri nálgun, að vekja áhuga hjá nemendum á reglubundinni hreyfingu. Þessu samfara er einnig nauðsynlegt að auka þekkingu þeirra á starfsemi líkamans. Að vinna markvisst að eflingu þrekþátta, efla hreyfanleika og styrkja líkamsreisn eru markmið sem stefna skal að.

Mikilvægt er fyrir hvern nemanda að læra að þekkja eigin líkama og skynja möguleika hans til tjáningar og sköpunar. Nauðsynlegt er að fjölbreytt hreyfinám þar sem er samþætting námsgreina og vinna með tónlist og tjáningu fái ákveðið vægi í kennslunni. Þessir þættir efla sjálfstraust og styrkja sjálfsmynd hvers einstaklings. Börnum er eðlilegt að tjá sig með líkamanum. Leikur með söng og dansi, leikræn tjáning og sköpun þarf að vera hluti af kennslu skólanna, hvort sem þessi atriði eru tekin fyrir í kennslustundum skólaíþrótta, öðrum námsgreinum eða skipulögð sem samþætting tveggja eða fleiri námsgreina. Nánari umfjöllun um dans og danskennslu er að finna í námskrá um listir.

Íþróttir eru vel til þess fallnar að efla félags-, tilfinninga- og siðgæðisþroska nemenda. Leikir og samvinnuverkefni gera þær kröfur til nemenda að þeir temji sér aga og tillitssemi. Þeir læra einnig að vinna með öðrum og hvetja félaga sína til dáða. Þá verða mörg verkefni eða leikir ekki leystir af hendi nema með sameiginlegu og samstilltu átaki.

Mikilvægt er að tengja fræðilega innlögn um íþróttir líkams- og heilsurækt við útfærslu verklegra æfinga og leikja. Íþróttakennslan er vel til þess fallin að efla þessa samþættingu. Þessi aðferðafræði hefur einnig þann kost að hún vekur nemendur oft til umhugsunar um gildi íþrótta og vekur áhuga á reglubundinni heilsurækt og íþróttaiðkun.
 

Nám og kennsla

Til að ná megi þeim markmiðum sem hér eru sett fram verður að skipuleggja kennsluna vel. Skipulagning kennslunnar er ein af forsendum námsmats og því verður kennarinn að leggja upp með ákveðna áætlun í upphafi skólaárs þar sem fram kemur nánari útfærsla þeirra markmiða sem sett eru fram. Þannig má sjá hvernig kennari hyggst haga kennslunni í samræmi við skrásett markmið, getu og þroska nemenda og einnig með tilliti til þeirrar aðstöðu og tíma sem er til ráðstöfunar. Gott kennsluskipulag stuðlar að því að allir nemendur séu virkir, fái nægilega hreyfingu og næg verkefni til að glíma við með tilliti til getu og þroska.

Kennarar við sama skóla þurfa að hafa með sér gott samstarf og skipuleggja kennsluna sameiginlega. Einnig er mikilvægt að hafa samstarf við aðra kennara vegna þverfaglegra verkefna sem tekin eru fyrir. Þá getur verið mikilvægt að hafa samvinnu við aðra skóla um einstök verkefni. Á þennan hátt má tryggja góða nýtingu á þeim tíma sem til ráðstöfunar er og þeim tækjum og þeirri aðstöðu sem stendur til boða.

Þjóðaríþrótt Íslendinga, glíman, þarf að fá ákveðið rými í íþróttakennslu grunnskóla. Fangbrögð hafa verið iðkuð á Íslandi allt frá því að sögur hófust og því mikilvægt að halda þessum menningararfi við.

Útivist í tengslum við íþróttakennslu og almennt skólastarf er mikilvægur þáttur sem sinna þarf af kostgæfni. Nauðsynlegt er að opna augu nemenda fyrir næsta umhverfi og þeim möguleikum sem náttúran og umhverfið hefur upp á að bjóða. Gefa þarf nemendum tækifæri til að læra þá lífsleikni að geta stundað líkams- og heilsurækt óháð íþróttaaðstöðu innanhúss.

Dans og líkamstjáning hefur fylgt mannkyni frá örófi alda. Börnum er eðlilegt að tjá sig með líkamanum þar sem þau hafa ekki öðlast þroska þeirra fullorðnu. Slík tjáning tengist oft notkun orða og hugtaka, auk þess sem auðveldara getur reynst að túlka tilfinningar í hreyfingu en með orðum. Þrátt fyrir að dans og líkamstjáning sé nú sett fram sem sérstök námsgrein, sjá nánar námskrá um listir, eru kennarar hvattir til að nýta sér atriði innan þessarar greinar sem námsþætti innan skólaíþrótta. Einnig eru íþróttakennarar hvattir til að taka þátt í frekari uppbyggingu á sviði dans og líkamstjáningar innan grunnskóla.

Sérþarfir geta verið af ýmsum toga og stafað af fötlun eða frávikum nemenda. Því þarf sérstök aðstoð eða úrræði að koma til fyrir þá nemendur sem ekki geta nýtt sér hefðbundna kennslu vegna þroska- og geðröskunar. Til að mögulegt sé að sinna hverjum nemanda er nauðsynlegt á vissum aldursskeiðum að kanna skyn- og hreyfiþroska ásamt líkamsþroska nemenda, s.s. þol, kraft og liðleika. Þannig er unnt að greina ólíkar þarfir og skapa verkefni við hæfi. Ýmis próf eða kannanir á líkamshreysti, getu eða færni er hægt að leggja fyrir nemendur. Kennarar eru hvattir til að leggja fyrir staðlað hreyfiþroskapróf í 1. bekk þar sem hæfni skynstöðva og hreyfifærni er könnuð. Þá eru þeir einnig hvattir til að fylgjast með þreki nemenda en slíkt er hægt að gera með stöðluðum þrekprófum, s.s. þol-, kraft- eða hraðaprófum.
 

Þroskaþættir

Eins og komið er að í inngangi er tekið mið af þroskaþáttum nemenda og markmiðin sett fram innan fjögurra mismunandi efnisflokka: skynþroska og hreyfiþroska, líkamsþroska og fagurþroska, félagsþroska, tilfinningaþroska og siðgæðisþroska og vitsmunaþroska.

Innan markmiða skynþroska og hreyfiþroska skal stuðla að örvun grunnhreyfinga nemenda og þroskun taugakerfis. Þannig er lagður grunnur að flóknara hreyfinámi á síðari stigum. Nálgast má þessi atriði m.a. með fjölbreyttum leikjum og æfingum.

Innan markmiða líkamsþroska og fagurþroska skal stefnt að því að bæta líkamshreysti og líkamsreisn barna og unglinga. Þessum atriðum er m.a. hægt að ná með markvissri þjálfun þrekþátta, þols, krafts og hraða, og æfingum sem bæta líkamsstöðu og líkamsreisn. Innan þessa flokks skal einnig koma til móts við sköpunarþörf barna og leikræna tjáningu. Þannig er stuðlað að bættri sjálfsmynd og þjálfun í að tjá tilfinningar sínar fyrir öðrum.

Innan markmiða félagsþroska, tilfinningaþroska og siðgæðisþroska skal stefnt að því að efla nemandann sem félagsveru, kenna honum að taka tillit til annarra og beita sveigjanleika í samskiptum. Einnig skal stefnt að því að auka skilning og hæfni nemenda til þess að fara eftir reglum og fyrirmælum og auka innsæi nemenda í tilfinningar sínar og tilfinningar annarra. Eitt grundvallaratriði skólaíþrótta er að hver nemandi fái ánægjulega upplifun af hreyfingu og íþróttum þar sem slík reynsla mótar viðhorf nemenda.

Innan markmiða vitsmunaþroska skal stefnt að því að auka þekkingu og skilning nemenda á starfsemi líkamans og áhrifum skipulagðrar þjálfunar á líkama og heilsu. Þá skal einnig stefnt að því að aðstoða nemendur við að finna sér leiðir til líkams- og heilsuræktar og að nemendur þjálfist í að tjá sig með orðum og tileinki sér orðaforða, málfar og hugtök sem tengjast íþróttum, líkams- og heilsurækt. Stuðla skal að samþættingu námsgreina innan þessa efnisflokks.
 

Öryggi við kennslu í skólaíþróttum

Í íþróttakennslu er meiri hætta en í flestum öðrum kennslugreinum á að nemendur verði fyrir hnjaski eða smávægilegum meiðslum, einkum vegna þess að athafnasemi þeirra er mikil. Kennurum er ráðlagt að gæta öryggis nemenda í hvívetna og sjá til þess að þau áhöld og tæki, sem notuð eru, séu í fullkomnu lagi. Við skipulag æfinga og leikja þurfa þeir einnig að taka tillit til þeirra aðstæðna sem þeir búa við þannig að sem minnst hætta verði á meiðslum. Með góðu skipulagi og með því að brýna fyrir nemendum að fara eftir þeim reglum, sem í gildi eru hverju sinni, er hægt að koma í veg fyrir óhöpp og meiðsli.
 
[Til baka]

EAN 1999