[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
SKÓLASUND

Inngangur

Sundnám í grunnskóla hefur um árabil notið nokkurrar sérstöðu þar sem það hefur verið bundið í reglugerð. Með gildistöku þessarar námskrár fellur reglugerð um sundnám í grunnskóla úr gildi. Líta má svo á að sett þrepamarkmið samsvari þeim sundstigum sem í gildi hafa verið. Í þessari námskrá ber að líta á skólasund sem grein innan íþrótta, líkams- og heilsuræktar eins og áður hefur komið fram. Nemendum skal ætla a.m.k. einn sundtíma á stundaskrá skóla í hverri viku skólaársins. Þar sem slíku skipulagi verður ekki komið við skal kenna skólasund á árlegum námskeiðum. Á slíkum námskeiðum skal hver nemandi fá að lágmarki 20 kennslustundir. Þær stundir, sem eftir standa, skal nýta til skólaíþrótta.

Til að ná markmiðum sundnáms, sérstaklega því markmiði að gera alla nemendur synda þannig að þeir geti bjargað sér og öðrum á sundi, þá hefur skipulag sundkennslunnar miðast við að 15 nemendur séu að jafnaði í hverjum 40 mínútna sundtíma. Til að tryggja öryggi nemenda í kennslustundum enn frekar, stuðla að bættri kennslufræðilegri nálgun og tryggja að markmiðum kennslunnar verði náð er æskilegt að nemendur séu færri en 15 þegar þeir eru ósyndir. Í skipulagi sundkennslu þarf einnig að taka tillit til þeirrar aðstöðu sem fyrir hendi er, s.s. stærðar laugar og búningsaðstöðu.

Víða eru sundlaugar ekki opnar á þeim tíma sem skólar starfa á og því er nauðsynlegt að skipuleggja sundkennsluna á mismunandi hátt eins og að framan greinir. Helstu möguleikar eru þessir:

Ýmis atriði, sem komið var inn á í kaflanum um skólaíþróttir, eiga einnig við um skólasund og eru kennarar, sem eingöngu kenna skólasund, beðnir um að kynna sér það.
 
 

Nám og kennsla

Reynslan af sundkennslu undanfarinna ára hefur sýnt að byrjendum sækist betur sundnámið á námskeiðum þar sem kennt er nær daglega í skemmri tíma. Því er æskilegt að í þeim skólum, þar sem sundkennsla fer fram samhliða öðru námi, séu haldin námskeið fyrir yngstu nemendurna. Þá skal einnig hugað vel að fjölda nemenda í kennslustundum eins og vikið var að hér að framan.

Til að gera skólasund eins markvisst og hægt er þarf skipulag þess að miðast við markmið kennslunnar og þroska, getu og þarfir nemenda. Í upphafi er nauðsynlegt að gefa nemendum kost á því að kynnast í leik eiginleikum vatnsins og breyttri hreyfifærni miðað við hreyfingar á landi. Mikilvægt er að fylgjast vel með sókn nemenda svo þeir dragist ekki aftur úr í sundnáminu. Þá þarf einnig að gera foreldrum eða forráðamönnum grein fyrir framgangi nemenda á skilmerkilegan máta.

Meginmarkmið skólasunds er að gera nemendur það vel synda að þeir geti bjargað sjálfum sér og öðrum á sundi. Sá nemandi, sem staðist hefur áfangamarkmið við lok 7. bekkjar (7. sundstig), getur talist syndur. Þá er einnig nauðsynlegt að kennarar fræði nemendur um björgun frá drukknun í sjó, ám eða vötnum. Einnig skulu nemendur fræðast um gildi sundiðkunar með tilliti til almennrar líkams- og heilsuræktar. Nauðsynlegt er að kynna fyrir nemendum umgengnis- og öryggisreglur sundstaðar við upphaf hvers skólaárs eða sundnámskeiðs.
 
 

Þroskaþættir

Á sama hátt og í skólaíþróttum er tekið mið af þroskaþáttum nemenda við markmiðasetningu skólasunds og þau sett fram innan fjögurra mismunandi efnisflokka.

Innan markmiða skynþroska og hreyfiþroska skal byggja upp kennsluna með fjölbreyttum æfingum og leikjum í vatni sem stuðla að örvun grunnhreyfinga nemenda og þroskun taugakerfis. Á þann hátt er lagður grunnur að flóknara hreyfinámi og sundtökum á seinni stigum í sundnáminu.

Innan markmiða líkamsþroska og fagurþroska skal stefnt að alhliða líkamsþroska nemenda, s.s. þoli, krafti, hraða og liðleika. Auk þess skal stefnt að því að efla hugmyndaflug nemenda, sköpunarmátt og tjáningu með fjölbreyttu sundnámi, leikrænum æfingum og leikjum.

Innan markmiða félagsþroska, tilfinningaþroska og siðgæðisþroska er stefnt að því að efla nemandann sem félagsveru, kenna honum að taka tillit til félaga sinna, vera sveigjanlegur í samskiptum og virða einstaklinginn. Enn fremur skal stefnt að því að auka skilning og hæfni nemenda til að fara eftir reglum og fyrirmælum. Leggja skal áherslu á að nemendur upplifi sundstaði á jákvæðan hátt þar sem þeir fá útrás fyrir hreyfiþörf og félagsleg samskipti. Einnig er stefnt að ánægjulegri og jákvæðri upplifun nemenda við sundnám og sundiðkun, sem mótað getur viðhorf þeirra til sunds í framtíðinni.

Innan markmiða vitsmunaþroska skal stefnt að því að auka þekkingu og skilning nemenda á starfsemi líkamans og áhrifum skipulagðrar sundþjálfunar. Þá skal markmiðið einnig vera fólgið í því að aðstoða nemendur við að finna sér leiðir til heilsuræktar í formi sundiðkunar, bæði meðan á námi stendur og að því loknu.
 
 

Öryggi við kennslu í skólasundi

Íþróttakennarar, sem kenna skólasund, skulu ávallt gæta þess í samvinnu við starfsfólk sundstaða að nemendur fari ekki að laug á undan þeim, hvort sem sundlaug nýtur vörslu eða ekki. Sundkennarar skulu ekki víkja frá laug fyrr en allir nemendur eru farnir inn í búnings- eða baðherbergi.

Kennarar skulu í samvinnu við starfsmenn sundstaða fara árlega yfir vinnutilhögun í tengslum við sundkennslu þar sem fyllsta öryggis nemenda er gætt og eftirfarandi atriði tekin fyrir:

Í upphafi skólaárs eða við upphaf hvers sundnámskeiðs skal kennari ásamt starfsfólki sundstaðar fara yfir helstu reglur sem gilda á sundstöðum og gera nemendum grein fyrir þeim hættum sem geta fylgt sundiðkun.

Niðurfellingu á skólasundi vegna kulda skal miða við aðstæður á sundstað. Kennari vegur og metur aðstæður á sundstað hverju sinni. Algengt er að miða við -6 °C. Miklu skiptir þó hvort veður er kyrrt eða ekki. Nauðsynlegt er að kennari sjái nemendum fyrir annarri kennslu falli skólasund niður.

Á hverjum sundstað skal vera ákveðið öryggiskerfi og neyðaráætlun sem segir fyrir um viðbrögð ef slys ber að höndum. Þá skulu á sundstöðum vera tiltæk tæki til skyndihjálpar. Kennarar skulu kynna sér þessi atriði og sjá skal fyrir því að þeir fái með reglulegu millibili leiðsögn í notkun öryggiskerfis sundstaðar og tækja til skyndihjálpar.
 

[Til baka]


EAN 1999