[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
DANS

Inngangur

Dans hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Hann er alþjóðlegt tungumál án orða. Börnum er eðlislægt að tjá sig með líkama sínum áður en þau taka að beita hugtakaheimi orða. Einn megintilgangur dansmenntunar í grunnskóla er að gefa barninu tækifæri til að fá útrás fyrir, tjá og túlka hugsun sína, hugmyndir og tilfinningar með líkamstjáningu.

Dans eflir hreyfiþroska barnsins og sjálfsvitund, hann stuðlar að eðlilegum félagslegum samskiptum, eflir sjálfsöryggi og er gleðigjafi sem vinnur gegn streitu. Dans eykur tillitssemi í mannlegum samskiptum og stuðlar að eflingu samkenndar í bekkjarheildum. Með kennslu í dansi eigin menningar og annarra má efla skilning á hefðum og menningu, bæði eigin þjóðar og annarra. Dansinn er mikilvægur í þroskaferli sérhvers einstaklings svo að hann fái notið sín í samfélagi manna. Dansinn má tengja öðrum námsgreinum grunnskóla á margvíslegan hátt.
 

Nám og kennsla

Kennsla í dansi og líkamstjáningu er í höndum almennra bekkjarkennara og sérgreinakennara, svo sem tónmenntakennara, íþróttakennara, danskennara eða viðurkenndra leiðbeinenda eftir aðstæðum. Í öllum tilfellum skal kennsla skipulögð í samræmi við lokamarkmið grunnskóla í greininni.

Skólar verða að tryggja það að allir nemendur geti mætt lokamarkmiðum grunnskóla í dansi og líkamstjáningu. Greinina má kenna á námskeiðum og er lágmarkstímafjöldi slíkra námskeiða 8 kennslustundir á vetri á yngsta stigi og miðstigi en greinin er valgrein á unglingastigi.

Við skipulagningu námsins skal hafa eftirfarandi atriði að leiðarljósi:

Námsmat

Þegar dans/líkamstjáning er hluti af almennu námi er gerð krafa til þess að sýna megi fram á mælanlega þróun á hæfni og þátttöku einstaklinga. Það á að meta þennan þátt jafnmarkvisst og aðra þætti, með sjálfsmati og kennaramati. Hver skóli verður að samræma mat á þessum þætti við annað mat sem skólinn lætur frá sér fara. Gengið er út frá því að umsjónarkennari á yngsta stigi og miðstigi haldi utan um matið þegar um samþættingu er að ræða en á sérstökum námskeiðum meti námskeiðskennari námið. Hér eins og í öllu skólastarfi verður að gera nemendum ljóst til hvers er ætlast og hvað og hvernig á að meta. Þeir eru mjög viðkvæmir fyrir gagnrýni, því getur mat stundum verið of ógnandi til að þjóna tilætluðum árangri en í dansi, eins og í öðrum greinum, er æskilegt að nemendur fái jafnóðum hvatningu og vitneskju um árangur.

Kennurum ber að meta eftir markmiðum

Matið er innbyggt í vinnuferlið. Kennari gerir gátlista þar sem hann merkir jafnóðum við. Kennari metur niðurstöður nemenda og flutning á þeim.

Kennari metur nemendur bæði sem einstaklinga og hluta af hópnum. Nemendur meta eigið framlag: eigið verkefni, sjálfa sig sem hluta af hópi.

Dæmi um námsmat á yngsta stigi

Dæmi um námsmat á miðstigi [Til baka]

EAN 1999