[Til baka]

Aðalnámskrá Grunnskóla
LISTGREINAR

FORMÁLI

Námskrá listasviðs inniheldur, auk markmiðssetningar, rök fyrir námsviðinu og greina innan þess, umfjöllun um nám og kennslu og námsmat.

Listasvið tekur til fimm listgreina. Sviðið skiptist í dans, leikræna tjáningu, myndlist, textílmennt og tónmennt. Í grunnskóla eru myndlist, textílmennt og tónmennt sjálfstæðar skyldunámsgreinar fyrstu átta skólaárin en valgreinar á 9. og 10. ári. Dans og leikræn tjáning er samþætt öðrum námsgreinum eða í formi námskeiða og valgreina. Í þessari námskrá eru sett fram markmið valinna þátta þeirra greina.

Lágmarkskennslustundafjöldi námsviðsins tekur því eingöngu til skyldunámsgreinanna myndlistar, textílmenntar og tónmenntar. Samkvæmt viðmiðunarstundaskrá skal kennslustundafjöldi sviðsins vera að lágmarki 4 stundir á viku. Það er svo val stjórnenda skóla hvort þeir nýta sér þann möguleika að bæta við kennslustundum fyrir einstakar greinar og þætti.

Eins og fram kemur í almennum hluta aðalnámskrár eru markmið aðalnámskrár grunnskóla sett fram í þremur flokkum:
 

Lokamarkmið

Eðli lokamarkmiða er að gefa heildarmynd af því sem stefnt skal að í kennslu námsgreina í grunnskólanum. Lokamarkmið skýra almennan tilgang náms og lýsa því sem skólar eiga að stefna að og því sem nemendur eiga að hafa tileinkað sér að loknu lögbundnu skyldunámi. Í námskránni eru lokamarkmið greind niður í áfangamarkmið sem aftur eru greind í þrepamarkmið. Þessi undirmarkmið eru sett fram sem nákvæmari útlistun á einstökum markmiðum eftir aldursstigum. Áfanga- og þrepamarkmið eru þannig í beinu samhengi við lokamarkmið. Til þess að ná áfangamarkmiðum þarf að ná þrepamarkmiðum. Til þess að lokamarkmiðum verði náð þarf að ná áfangamarkmiðum.
 

Áfangamarkmið

Aðalnámskrá gerir ráð fyrir því að áfangamarkmið verði meginviðmið í öllu skólastarfi. Áfangamarkmiðum er deilt niður á þrjú stig. Í fyrsta lagi er um að ræða áfangamarkmið eftir nám í 1.-4. bekk, í öðru lagi eftir nám í 5.-7. bekk og að síðustu áfangamarkmið eftir nám í 8.-10. bekk. Áfangamarkmiðin gefa heildarmynd af því sem ætlast er til að nemendur hafi almennt tileinkað sér við lok áfanganna. Áfangamarkmiðin eru þannig orðuð að tiltölulega auðvelt á að vera að mæla eða meta hvort eða að hvaða marki þeim hefur verið náð. Áfangamarkmið mynda einnig grundvöll lögboðinna samræmdra prófa í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk og samræmdra prófa við lok grunnskóla.
 

Þrepamarkmið

Safn markmiða/viðfangsefna til að ná áfangamarkmiðum. Þau eiga að lýsa skipulagi, samfellu og stígandi í kennslu hverrar námsgreinar og sýna hvernig unnt er að útfæra áfangamarkmiðin nánar og raða þeim á einstök þrep eða lotur sem geta verið námsár grunnskólans. Í aðalnámskrá eru þrepamarkmið sett fram kennurum, foreldrum og nemendum til leiðsagnar. Skóli getur ákveðið að raða þrepamarkmiðum með öðrum hætti og birt það skipulag í skólanámskrá.
 
 

INNGANGUR

Listir hafa fylgt manninum frá örófi alda og eru einn af hornsteinum mannlegs samfélags. Með hjálp listarinnar hefur maðurinn tjáð tilgang og merkingu mannlegrar tilveru og mótað umhverfi sitt. Í listiðkun öðlast einstaklingurinn lífsfyllingu og finnur tilfinningum sínum og hugmyndum farveg. Skólinn er samfélag og þar leika listir sama hlutverk og í þjóðfélaginu í heild sinni.

Listnám stuðlar að alhliða þroska einstaklingsins
Greind er nú talin vera samsett úr mörgum þáttum. Gjarnan er talað um fjölþætta greind þar sem skilgreindir eru fleiri þættir en hinir hefðbundnu orðrænu og rökrænu. Í listnámi reynir á marga þætti mannlegrar hæfni bæði til hugar og handa þar sem nemendur þurfa að beita rökhyggju sinni jafnt sem ímyndunarafli til að ná árangri. Í námi þurfa þeir tækifæri til að virkja öll svið hæfileika sinna, nota öll skynfæri sín, beita þekkingu sinni, færni og skilningi til að túlka og meta upplýsingar. Þannig verða nemendur virkir í athugun, rannsókn og athöfnum en slíkt nám verður haldbest og hugstæðast.

Listnám eflir sköpunargáfu þar sem listir reyna jafnt á ímyndunarafl og rökhyggju
Frumleg tengslamyndun ásamt rökrænu mati og ályktunarhæfni liggur til grundvallar því sem nefnt hefur verið sköpunargáfa. Í listum er leyfilegt að leika, spyrja og ögra sem leiðir til óvæntra tenginga. Sköpunargáfan er einstaklingnum nauðsynleg til þess að mæta síbreytilegum kröfum nútímaþjóðfélags.

Listnám veitir tækifæri til að þroska fjölbreyttan og persónulegan tjáningarmáta
Tjáningarmáti einstaklingsins byggist á hinum ólíku þáttum greindar hans og hæfileika. Í listiðkun finnur hann sér leið til tjáningar og staðfestingar á eigin eðli og verðleikum. Listir endurspegla þannig fjölbreytileika mannlífsins.

Listnám eflir sjálfsmynd og sjálfsskilning sem er grundvöllur farsældar í lífi og starfi
Listir dýpka sjálfsvitund og tilfinningu fyrir stöðu í umhverfinu. Listir eru starfsvettvangur en jafnframt áhugamál sem veitir lífsfyllingu allt frá barnæsku til elliára. Að njóta lista er að næra tilfinningalíf og vitsmuni. Þær eru lífsgæði sem hver einstaklingur á rétt á að njóta.

Listnám eykur tilfinningaþroska, félagsþroska og meðvitund um fagurfræði
Í listnámi lærist nemendum að þekkja og tjá eigin hugmyndir og tilfinningar jafnframt því að virða tilfinningar annarra og túlkun þeirra. Þeir læra að ráða í þá samfélagslegu og persónulegu merkingu og gildismat sem felst í formi og framsetningu hlutanna.

Listnám þjálfar hæfni til þátttöku í menningu samfélagsins
Með þekkingu og skilningi á táknmáli lista er maðurinn fær um að meta og greina upplýsingar og áhrif sem hann verður fyrir daglega. Þessi þekking og skilningur er forsenda virkrar þátttöku í menningunni. Listir hjálpa nemandanum að skilja menningarlegan fjölbreytileika og viðurkenna menningarlegt afstæði með því að kynna fyrir honum gildi, hefðir og hugmyndafræði eigin samfélags og annarra.

Listir eru einn helsti áhrifavaldur samfélagsins
Listir eru ráðandi í upplýsingamiðlun nútímans og eru þannig einn helsti áhrifavaldur í samtímanum. Tónlist, myndlist, hönnun, leiklist og dans endurspegla og móta viðhorf einstaklings og gildismat samfélags. Því er brýnt að hver og einn sé meðvitaður um táknmál listarinnar en forsenda lýðræðis er upplýstur þegn sem er fær um þátttöku í samfélagsumræðu.

Listir eru mikilvæg atvinnugrein
Listir mynda fjölbreytilegar atvinnugreinar og eru mikilvægt efnahagslegt framlag til samfélagsins. Má þar nefna störf sem tengjast manngerðu umhverfi, skemmtana-, tölvu-, tísku- og listheimi. Fjöldi fólks á sér ævistarf og framfæri af iðkun listgreina í ýmsu formi. Því mun fjölga með vaxandi notkun upplýsingatækni sem gerir miðlun hljóðs og mynda auðveldari og aðgengilegri en nú þekkist.

Listir eru kveikja hugmynda og nýsköpunar í efnahagslífi og samfélagi manna
Í listiðkun er sífellt spurt spurninga og krafist svara því að eðli lista er sköpun. Sá sem er skapandi kemur fram með nýjar hugmyndir, metur þær og fylgir þeim eftir. Á öllum starfssviðum þjóðfélagsins er þörf fyrir einstaklinga sem eru gæddir þeim eiginleikum sem þroskaðir eru í listkennslu; frumkvæði og nýsköpun.

Listir móta og endurspegla sjálfsmynd og gildismat samfélagsins
Fagurfræði og siðfræði eru greinar af sama meiði og fjalla um hin samfélagslegu gildi. Í listkennslu er fjallað um þessi gildi og menningarlegar forsendur þeirra. Listir eru uppistaðan í menningararfi þjóðanna. Listir helga það sem samfélaginu er mikilvægt, spegla gildi og venjur en eru að sama skapi ögrandi. Á helgistundum, hátíðum og merkisdögum mannsævinnar, jafnt í sorg sem gleði, leitar mannkynið til listarinnar til að tjá merkingu stundarinnar.
 

Nám og kennsla

Öll listgreinakennsla miðar að því að þroska sköpunargáfu, efla sjálfsvitund og auka menningarskilning nemenda. Í upplýsingasamfélagi hafa þeir aðgang að ofgnótt þekkingarbrota og hlutverk skólanna er að gefa nemendum forsendur til þess að raða brotunum saman í merkingarbæra heild. Skólinn á að kenna nemendum að meta gildi upplýsinga, túlka þær og að miðla þekkingu sinni og skoðunum. Á þeim grundvelli eru lagðar til áherslubreytingar í námskrá listasviðs. Þær fela í sér meira jafnvægi milli sköpunar, túlkunar og tjáningar annars vegar og skynjunar, greiningar og mats hins vegar.

Í samræmi við þetta er skilgreint hlutverk listgreinakennslu tvíþætt:

Markmið hverrar greinar eða námsþáttar eiga að tryggja samfellu í náminu sem miðast við þroska og fyrra nám nemandans. Til hliðsjónar eru eftirfarandi atriði sem mynda eðlilega stígandi í námi: Við skipulag náms í listum skal gæta þess að nemendur fái þar tækifæri til að auka þekkingu sína, öðlast og þjálfa færni og efla skilning sinn á viðfangsefninu listum. Það er að veita nemendum aðgang að þeirri þekkingu sem inntaksflokkar námskrárinnar kveða á um og þjálfa þá færniþætti sem greinarnar útheimta, þ.e. færnina: sköpun/túlkun/tjáningu og skynjun/greiningu/mat. Nemendur þjálfist í að beita þeirri þekkingu og færni sjálfstætt og efli þannig skilning sinn og myndi sér persónuleg viðhorf til lista á þeim grundvelli.
 
[Til baka]


EAN 1999